Færsluflokkur: Bloggar

Rumsk

Ég var eiginlega alveg ákveðinn í því að hætta að blogga. Hreinlega nenni því ekki og þeir eru líka svo margir orðnir, bloggararnir, að það getur ekki verið að til sé fólk sem nennir að lesa þetta allt saman. En þegar ég villtist inn á bloggið mitt í dag biðu þar tveir staðfestingar á því hvort þeir mættu verða bloggvinir mínir og ég sagði auðvitað já því það er alltaf gaman að eignast vini. Þó þessi tvö þekki ég ágætlega eru þeir samt nýir vinir mínir, nýir bloggvinir.

Annars er það af mér að frétta að ég sat nánast stjarfur við tölvuna alla helgina og bloggaði! Ha?! Jú, hárrétt. Hér á Akureyri héldum við Þórsarar Goðamót í fótbolta fyrir 4. og 5. flokk stelpna í Boganum og ég var á hlaupum með myndavélina frá því klukkan fjögur á föstudaginn og þangað til seinni partinn í gær. Ef einhver vill kíkja á síðuna er slóðin www.godamot.blog.is en þar eru alls konar litlar fréttir af mótinu og úrslit og rúmlega 600 ljósmyndir sem ég tók úr leikjum og af liðum og áhorfendum og starfsmönnum og fólki að borða pylsur í mótslok!

Á síðunni birti ég meira að segja kveðskap; hagyrðingurinn kunni Björn Ingólfssson, fyrrverandi skólastjóri á Grenivík, fylgdist með Magnastúlkunum á mótinu og ég skipaði hann umsvifalaust hagyrðing Goðamótsins. Þessi vísa varð til eftir að hann sá hvað stelpurnar voru flinkar í fótbolta.

Telpur hafa takkaskóna

tekið fram og þykir gaman.

Best er fyrir Barcelona

að byrja nú að pakka saman.


Vaknaður

Jæja, sagð'ann þegar'ann vaknaði. Sagði ekki meira þann daginn.

Þannig töluðu þeir í sveitinni þegar ég var strákur. Lítill - altso minni. Er enn lítill... Það var góð sveit, þar sem ég var nokkur sumur í kringum 70, plús mínus 10 ára. Frábær lífsreynsla að vera þarna og góður skóli.

Ég er að hugsa um að byrja að blogga aftur. Kannski af því ég skellti Sigur Rós í græjurnar og heddfóni á eyrun. Veit það ekki. En Takk... versnar ekki þó hlustað sé á hana aftur og aftur.

Það er langt síðan síðast, og margir hafa kvartað. "Komið að máli við mig" eins og gjarnan er sagt.

Sjáum til.


Tuð, líklega tuð

Arna við Tröllafoss

Langur en fínn dagur í gær að flestu leyti. Ég, Sirra, Arna og pabbi fórum austur í Fljótsdal og síðan að virkjanasvæðinu við Kárahnjúka.

Einu skemmtanirnar þegar ég var í sveit í Fljótsdal í gamla daga voru í félagsheimilinu Végarði, erfidrykkjur og slíkt þar sem maður úðaði í sig flatbrauði með hangikjöti. Végarður er mjög breyttur, orðinn ægilega fallegur enda Landsvirkjun sem ræður þar ríkjum í augnablikinu, en næsta nágrenni er hræðilegt á að líta. Rafmagnsmöstrin, monsterarnir, þau sem vofa t.d. yfir Langhúsum ... ja, hvað get ég sagt?

Til hvers er ég annars að tuða? Það er bara búið að eyðileggja hluta dalsins "míns"... Ég var upplýstur um það í gær að 47 sinnum dýrara hefði orðið að leggja rafmagnslínurnar í jörðu úr Norðurdalnum en í möstrunum. So? Hvort ég væri tilbúinn að borga muninn. Hvort ég vildi ekki hafa rafmagn eða eiga flatskjá?

Svo er lítið að sjá nema mela og móa þar sem Hálslón kemur, þ.e.a.s. frá þeim blettum sem fólki er gert auðvelt að komast á.

Við fórum sömu leið til baka. Þá var gott að keyra Fljótsdalinn í myrkri vegna þess að möstrin sáust ekki.


Fleiri myndir

11. september 2001

Ekki að það skipti máli hvar ég var staddur 11. september 2001, en Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff voru þá í opinberri heimsókn í Norður-Þingeyjarsýslu, og við Árni Sæberg ljósmyndari vorum með í för og sögðum frá heimsókninni í Morgunblaðinu.
Það var glatt á hjalla í fylgdarliði forsetans fram að hádegi en brúnin á fólki þyngdist þegar fréttirnar um árásirnar á Bandaríkin bárust. Það vildi reyndar svo furðulega til að einmitt þegar allar fréttastöðvar heimsins hófu frásagnir í beinni útsendingu og fréttirnar líklega borist sem eldur í sinu í gegnum símkerfi heimsins vorum við utan þjónustusvæðis, eins og það heitir á farsímamáli.
Dagurinn hófst með heimsókn forseta og fylgdarliðs hans í Grunnskólann á Raufarhöfn, þar sem nemendur sungu fyrir gestina og Ólafur Ragnar spjallaði við þá drjúga stund. Spurði m.a. hvort þeir væru mikið í fótbolta og þá vantaði ekki svörin. "Við kepptum í Ásbyrgi og unnum og í fyrra líka," sagði einn drengjanna.

 

"Hverjir eru bestir," spurði forsetinn þá. "Liverpool, Liverpool, Manchester..." ómaði um stofuna og ljóst að áhuginn á ensku knattspyrnunni er ekki minni á Raufarhöfn en annars staðar.

"Með hverjum heldur þú?" spurði þá einn snáðinn og Ólafur sagði: "Þú ert alltaf að spyrja mig erfiðra spurninga." Kannaðist við hann frá því á fjölskylduhátíðinni kvöldið áður. Svaraði svo í samræmi við að þar fer fyrrverandi nemandi við háskólann í Manchester: "Ég held með Manchester United," sagði Ólafur Ragnar og það fór misjafnlega í ungu drengina. Líklega er ofmælt að baulað hafi verið á forsetann en sumir urðu súrir á svip, aðrir fögnuðu. Forsetinn spurði þá með hvaða liði þeir héldu í úrvaldsdeildinni. "Austra," sögðu nokkrir í einu en einn dró í land og sagði: "Nei, við æfum með Austra."

"Má ég koma á rúntinn á forsetabílnum?" spurði þá skyndlega einn og beindi umræðunni inn á nýjar brautir.

Næst var fiskverkunarhús Jökuls á Raufarhöfn heimsótt, þá tölvufyrirtækið Netver og einmitt á meðan forseti staldraði þar við og ræddi við tvær konur sem sinntu símsvörum hringdi síminn: "Seðlabankinn, góðan dag," svaraði önnur en þegar hringt var í þá ágætu stofnun var einmitt svarað á Raufarhöfn. Svona getur nútímatæknin verið skemmtileg, en ég held reyndar að nú sé löngu hætt að svara á Raufarhöfn fyrir peningamennina við Arnarhól. Kannski tæknin sé ekkert svo skemmtileg eftir allt saman.

Því næst var haldið yfir í Svalbarðshrepp og fyrst komið við á bænum Sveinungsvík þar sem Gunnar Guðmundarson bóndi sýndi gestum bæði heimarafstöð sína og rekaviðarvinnslu. Heimsókn í Svalbarðskirkju var næst á dagskrá, síðan hrútasýning í fjárhúsunum við bæinn þar sem Ólafur Vagnsson ráðunautur og fólk á hans vegum var að meta veturgamla hrúta, m.a. með ómsjá; verið var að velja hrúta til undaneldis. Þaðan var gengið stuttan spotta að Svalbarðsskóla, þar sem nemendur skemmtu gestum með söng og upplestri og síðan var þar reiddur fram hádegisverður.

Engan grunaði neitt þegar staðið var upp frá borðum í Svalbarðsskóla, ekið var af stað með bros á vör en einhvers staðar á leiðinni til Þórshafnar hringdu gemsarnir hver í kapp við annan, og það var öðruvísi fólk sem steig út úr bílunum á Þórshöfn en sté upp í þá á Svalbarði. Þarna vissum við líka að heimurinn hafði breyst. Fengum fréttirnar kannski á eftir öllum öðrum íbúum landsins, jafnvel heimsins!


Þá er það næsta boltaleikur . . .

Mikið að gera í kvöld.

Mínir menn, Frakkar, taka á móti Ítölum. Mér heyrist á Sýn, núna þegar þjóðsöngurinn hljómar, að þetta sé ekki ítalska landsliðið í söng!


Sanngjarnt

Þá er búið að flauta af í Laugardalnum; Ísland - Danmörk 0:2. Mjög sanngjörn úrslit, það verður bara að segjast eins og er.

Of slakur fyrri hálfleikur gegn geysisterku liði Dana varð okkur að falli en því má ekki gleyma að Ísland fékk, samt sem áður, tvö mjög góð tækifæri til þess að skora í kvöld og hefði einbeitingin verið í lagi hefðu Íslendingar átt að koma í veg fyrir bæði mörkin.

En þegar allt kemur til alls er ágætt að vera með þrjú stig eftir tvo fyrstu leikina í riðlinum.


Teitur og tarfurinn

Við komum að sunnan í kvöld, litla fjölskyldan mín, eftir dvöl á borgarhorninu síðan á fimmtudag. Ýmislegt dreif á daga okkar; ég mætti í vinnuna (! - eins og það sé eitthvað nýtt) og þær fóru í búðir (eins og það sé heldur eitthvað nýtt!). Til stóð að kíkja á menninguna í gærdag en við fórum þess í stað í skírnarveislu þar sem sonur Gunnu og Ottós var vatni ausinn og ber nú nafnið Teitur.

Ætluðum svo að kíkja á menninguna í gærkvöldi en gleymdum okkur við matarborðið hjá Ólöfu og Sigga. Þar var m.a. boðið uppá hreint dásamlegt hreindýrakjöt - væntanlega tarf, sbr. fyrirsögnina - meistaralega grillað, og villisveppasósu sem var göldrum líkust. Vissulega menning að borða góðan mat, og líklega sú skemmtilegasta. En eina menningin sem við urðum vitni að, þessi með stóra m-inu sem tilheyrði "Menningarnóttinni", var flugeldasýningin í gærkvöldi. Hún var fín.

Svo má ekki gleyma því að ég fór með dæturnar í gamla heimabæinn okkar, sjálft Seltjarnarnesið, þar sem við fórum í sundlaugina góðu í fyrsta skipti eftir breytingarnar. Þær virðast vel heppnaðar þótt eitthvað sé eftir af framkvæmdum.

Ég treysti því að Guðrún Ína og Rúnar hafi verið uppi í sumarbústað, svo ég geti logið því að þeim að ég hafi bankað uppá, eða þá að þau lesi þetta ekki! Ég loooooooofa því að við komum næst. Segjum bara að ég hafi verið örmagna eftir maraþonið...

 


Stökkbreyting?

Biggi bílstjóri

Mjög líklega hefur orðið stökkbreyting í fjölskyldu minni. Minnsti frændinn, Birgir Orri Ásgríms bróður míns og Lenu Rutar sonur, er nefnilega með ótrúlega bíladellu. Hann er ekki nema tveggja ára en veit fátt skemmtilegra en að skoða bíla og benda þá, segja hvað þeir heita og hvað þeir segja!

Ekki skal ég útiloka að bíladellugenin séu komin úr Lenu eða hennar fólki, Kiddi bróðir Lenu á að minnsta kosti forláta Bronco sem Biggi kallar "Bokkó" og í honum heyrist "bvúúmmmmmm" skv. litla frænda. Hann hefur reyndar engan áhuga á að segja hvað minn bíll heitir, enda á ég bara venjulegan fjölskyldubíl sem segir líklega ekkert sérstakt, en hann þekkir þá dós og líka bílinn sem ég er oft á í vinnunni! Á sunnudaginn kom fjölskyldan saman hjá Guffu og Sigga og Biggi litli linnti ekki látum fyrr en hann fékk að skreppa út að keyra - þ.e.a.s. að setjast undir stýri í bíl afa síns og ömmu og grípa aðeins í stýrið. Þarna situr amma Heba með hann og í bakgrunni eru Lilja og Heba Þórhildur, frænkur hans, og svo stóra systir hans hún Heba Karitas.

Mér sýnist litla bíladellukarlinum ekki leiðast undir stýri.


Allt tekur enda

Senn lýkur afskaplega huggulegu sumarfríi mínu. Svíar og Danir nutu þess að fá mig og fjölskylduna í heimsókn, ekki síst verslunargeirinn sem ku hafa blómstrað sem aldrei fyrr síðari hluti júní og fyrstu dagana í júlí.

Veltan í sjoppunni á Egilsstaðaflugvelli jókst svo umtalsvert kvöld eitt snemma í júlí þegar beina flugið á milli Kaupmannahafnar og Akureyrar lenti þar, sællar minningar. Þá var ekkert slor að vera í stuttbuxum og ermalausum bol, þess albúinn að ganga út í upphitaðan bílinn á Akureyrarflugvelli og keyra heim á fimm mínútum, en fá svo í bónus ríflega þriggja tíma akstur í rútu yfir öræfin. Frábært!

Síðustu vikur hef ég gjarnan farið í rauðu peysuna með málningarslettunum og spókað mig þannig í heimabænum. Virkar alltaf sannfærandi og ég talinn sveittur við að dytta að heima meira og minna allan daginn.

Kannski ég hundskist svo til þess að henda hér fljótlega inn nokkrum myndum frá sumrinu.

 


Viðrar vel til loftárása

Þetta er fengið að láni, núna rétt áðan, af vef Veðurstofu Íslands. 

Á föstudag: Sunnan- og suðaustan 5-10 m/s og súld eða rigning með köflum sunnan- og vestanlands, en þurrt og nokkuð bjart veður norðanlands. Hvessir heldur allra syðst um kvöldið. Hiti 12 til 23 stig, hlýjast á Norðausturlandi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband