Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

11. september 2001

Ekki að það skipti máli hvar ég var staddur 11. september 2001, en Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff voru þá í opinberri heimsókn í Norður-Þingeyjarsýslu, og við Árni Sæberg ljósmyndari vorum með í för og sögðum frá heimsókninni í Morgunblaðinu.
Það var glatt á hjalla í fylgdarliði forsetans fram að hádegi en brúnin á fólki þyngdist þegar fréttirnar um árásirnar á Bandaríkin bárust. Það vildi reyndar svo furðulega til að einmitt þegar allar fréttastöðvar heimsins hófu frásagnir í beinni útsendingu og fréttirnar líklega borist sem eldur í sinu í gegnum símkerfi heimsins vorum við utan þjónustusvæðis, eins og það heitir á farsímamáli.
Dagurinn hófst með heimsókn forseta og fylgdarliðs hans í Grunnskólann á Raufarhöfn, þar sem nemendur sungu fyrir gestina og Ólafur Ragnar spjallaði við þá drjúga stund. Spurði m.a. hvort þeir væru mikið í fótbolta og þá vantaði ekki svörin. "Við kepptum í Ásbyrgi og unnum og í fyrra líka," sagði einn drengjanna.

 

"Hverjir eru bestir," spurði forsetinn þá. "Liverpool, Liverpool, Manchester..." ómaði um stofuna og ljóst að áhuginn á ensku knattspyrnunni er ekki minni á Raufarhöfn en annars staðar.

"Með hverjum heldur þú?" spurði þá einn snáðinn og Ólafur sagði: "Þú ert alltaf að spyrja mig erfiðra spurninga." Kannaðist við hann frá því á fjölskylduhátíðinni kvöldið áður. Svaraði svo í samræmi við að þar fer fyrrverandi nemandi við háskólann í Manchester: "Ég held með Manchester United," sagði Ólafur Ragnar og það fór misjafnlega í ungu drengina. Líklega er ofmælt að baulað hafi verið á forsetann en sumir urðu súrir á svip, aðrir fögnuðu. Forsetinn spurði þá með hvaða liði þeir héldu í úrvaldsdeildinni. "Austra," sögðu nokkrir í einu en einn dró í land og sagði: "Nei, við æfum með Austra."

"Má ég koma á rúntinn á forsetabílnum?" spurði þá skyndlega einn og beindi umræðunni inn á nýjar brautir.

Næst var fiskverkunarhús Jökuls á Raufarhöfn heimsótt, þá tölvufyrirtækið Netver og einmitt á meðan forseti staldraði þar við og ræddi við tvær konur sem sinntu símsvörum hringdi síminn: "Seðlabankinn, góðan dag," svaraði önnur en þegar hringt var í þá ágætu stofnun var einmitt svarað á Raufarhöfn. Svona getur nútímatæknin verið skemmtileg, en ég held reyndar að nú sé löngu hætt að svara á Raufarhöfn fyrir peningamennina við Arnarhól. Kannski tæknin sé ekkert svo skemmtileg eftir allt saman.

Því næst var haldið yfir í Svalbarðshrepp og fyrst komið við á bænum Sveinungsvík þar sem Gunnar Guðmundarson bóndi sýndi gestum bæði heimarafstöð sína og rekaviðarvinnslu. Heimsókn í Svalbarðskirkju var næst á dagskrá, síðan hrútasýning í fjárhúsunum við bæinn þar sem Ólafur Vagnsson ráðunautur og fólk á hans vegum var að meta veturgamla hrúta, m.a. með ómsjá; verið var að velja hrúta til undaneldis. Þaðan var gengið stuttan spotta að Svalbarðsskóla, þar sem nemendur skemmtu gestum með söng og upplestri og síðan var þar reiddur fram hádegisverður.

Engan grunaði neitt þegar staðið var upp frá borðum í Svalbarðsskóla, ekið var af stað með bros á vör en einhvers staðar á leiðinni til Þórshafnar hringdu gemsarnir hver í kapp við annan, og það var öðruvísi fólk sem steig út úr bílunum á Þórshöfn en sté upp í þá á Svalbarði. Þarna vissum við líka að heimurinn hafði breyst. Fengum fréttirnar kannski á eftir öllum öðrum íbúum landsins, jafnvel heimsins!


Sjötti forseti lýðveldisins, eða sá sjöundi

Ég veit ekki hve lengi Ólafur Ragnar Grímsson vill vera forseti Íslands. Hann segist enn ekki vita hvort hann býður sig fram á ný, en það er ljóst að Ólafur gegnir embættinu þangað til hann kýs sjálfur að hætta. Enginn á séns í hann í kosningum.

En ég hef hins vegar komið auga á sjötta forseta lýðveldisins. Hann er reyndar það ungur að kannski hann verði frekar sá sjöundi. Ég þekki manninn ekki neitt, hann hefur enn ekki hugmynd um að hann verði forseti (!) og ég er alls ekki viss um að hann hafi áhuga á embættinu. En hann þarf að verða forseti.

Meira síðar - kannski.


Klukkan sjö á mánudaginn!

Þú hættir að drepa mitt fólk og ég þitt - klukkan sjö á mánudagsmorgun!

Er þetta ekki brandari?

Hermaður með alvöru græjur getur drepið slatta á einum og hálfum sólarhring ef hann vandar sig. Aldeilis munur að sitja við skrifborð í öruggu skjóli og ákveða stríðslok - og ekki bara að hætta eigi að drepa nágrannann, heldur klukkan hvað!

Hvers vegna ekki að hætta strax? Ríkisstjórnir Líbanons og Ísraels hafa báðar samþykkt að "hætta hernaðaraðgerðum" eins og það er kallað. Svona nokkuð væri skiljanlegt ef sendiboðar þyrftu að ríða dagleið með skilaboð á vígvöllinn, en eru ekki allir hershöfðingjar útbúnir farsímum í dag?

Ég hélt, í einfeldni minni, að hvert mannslíf skipti máli en svo er auðvitað ekki. Bara í skrýtnum þjóðfélögum eins og því íslenska.


y n d i s l e g t

Það er einhvers konar friðar- og sælutilfinning sem hríslast um mig í sófanum hér í Borgarhlíð höfuðstaðar Norðurlands, við það að horfa og hlýða á Sigur Rós í beinni frá Klambratúni í RÚV-inu. Hvernig er eiginlega hægt að búa til svona fallega músík?

Árum saman smíða erlendir starfsbræður strákanna tónlist sem mér finnst öll hafa heyrst áður, en svo verður þessi dásemd til hér heima. Hallgrímskirkja í bakgrunni minnti óneitanlega á Hraundranga í Öxnadal á föstudaginn, en ég er ekki frá því að norðlenska sviðsmyndin hafa verið fallegri. Er reyndar alveg viss!

Ég er illa svikinn ef einhver nennir að slást í höfuðborginni í nótt, að minnsta kosti enginn sem staddur er við Kjarvalsstaði í augnablikinu. Þarna er kannski fundin íslensk friðargæslusveit? Friðargæsluhljómsveit! Sendum Sigur Rós suður að botni Miðjarðarhafs og eftir tvö, þrjú lög dettur ekki nokkrum manni í hug að sprengja frekar. Pottþétt.

Góða nótt!


Að hitta naglann á höfuðið

Forsíða Daily Mirror
Með forsíðu dagsins hittir Daily Mirror naglann á höfuðið. Meira þarf eiginlega ekki að segja.

Eins og Hitler teygi sig upp úr gröfinni . . .

Forsíða Independent

Þessi dægrin er mikið sprengt og mikið drepið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar er svo sem ekkert nýtt á ferðinni, nema nýtt fólk sem deyr eins og gefur að skilja. En það virðist minnstu máli skipta - fólkið, sem kvelst eða deyr - á meðan rifist er um orðalag í samþykktum alþjóðasamfélagsins um það hverja eigi að fordæma eða hvort, eða ákveðið er hvort vilji sé til þess að taka eitthvað til bragðs í því skyni að gera almenningi á svæðinu lífið bærilegra.

Ástandið á Balkanskaga var hræðilegt fyrir nokkrum árum þegar borgarastyrjöld stóð þar yfir og margir áttu erfitt, bæði meðan á því stóð og eftir á. Vorið 1999 fórum við Sverrir Vilhelmsson, ljósmyndari, til Makedóníu í nokkra daga, sóttum heim flóttamannabúðir, ræddum við fólk og kynntum okkur ástandið, og sögðum sögur af því í Morgunblaðinu.

Meðal þeirra sem við hittum voru bandarískir gyðingar sem tóku sig til upp á eigin spýtur og drifu sig á staðinn með ýmiss konar vörur sem þeir töldu þörf fyrir. Þeim ofbauð ástandið. Athyglisvert er að kíkja á greinina um þennan hóp; þarna átti þó í hlut fólk í flóttamannabúðum, fólk sem hafði það í sjálfu sér ágætt og kvartaði ekki undan aðbúnaðinum.

Vert er að velta því fyrir sér nú hvort sjónvarpsáhorfendum einhvers staðar í heiminum ofbjóði ekki það sem boðið er upp á í fréttatímum í dag og í gær og á morgun - eða heldur almenningur ef til vill að þetta sé í raun bara bíómynd; að leikendurnir standi heilir upp að loknum vinnudegi, fái sér að borða fyrir svefninn og mæti svo aftur í upptöku á morgun?

- - - - -

Hér kemur umrædd grein sem ég skrifaði frá Makedóníu.

NOKKRIR bandarískir gyðingar tóku sig til fyrir skömmu og söfnuðu ýmiss konar varningi, drifu sig yfir til Evrópu og komu í byrjun vikunnar á áfangastað; einar flóttamannabúðirnar í grennd við Skopje í Makedóníu.


"Við sáum myndir héðan úr búðunum í sjónvarpinu fyrst eftir að þær voru settar upp og fyrstu viðbrögð mín voru: Nei! Þetta getur ekki verið að gerast!" segir kona á miðjum aldri í samtali við Morgunblaðið í búðunum. Foreldrar hennar voru báðir í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni og henni er tíðrætt um Helförina. "Það er alltaf verið að tala um að ekki megi gleyma Hitler og nasistunum, að ekki megi gleyma Helförinni. Auðvitað er það alveg rétt en það sem ekki má gleyma nú er þetta fólk sem er hér. Að sjá fólkið í sjónvarpinu í þessum búðum minnir mig ískyggilega á Helförina, þótt ekki sé um nákvæmlega sama hlutinn að ræða. Og eitthvað svipað og gerðist þá má aldrei koma fyrir aftur."

Í hópnum eru átján manns, sextán frá New Jersey og tveir bættust við frá New York. "Við erum öll gyðingar," segir hún en tekur þó skýrt fram að trúarbrögð skipti engu máli í þessu sambandi. "Ég er til dæmis alls ekki strangtrúuð og þetta kemur því gyðingdómnum ekki beint við. Mér ofbauð bara sem manneskju þegar ég sá í sjónvarpinu hvað var að gerast." Konan hringdi í kunningja sinn, sem einnig hafði verið að horfa á sjónvarpið, og strax eftir það samtal voru þau ákveðin í að gera eitthvað. Niðurstaðan varð sú að safna alls kyns varningi sem fólkið taldi þörf fyrir; skóm, alls kyns sjúkradóti, sokkum á börnin, dömubindum, útvarpstækjum, rafhlöðum og skóladóti, svo eitthvað sé nefnt. Og söfnunin gekk mun betur en þau leyfðu sér að vona. "Við stóðum uppi með ótrúlega mikið af dóti. Þú hefðir átt að sjá staflana af skónum. Ég get sagt þér að rabbíinn okkar ­ sem er reyndar hérna með okkur ­ grét þegar hann kom inn í salinn þar sem skónum hafði verið staflað. Sjónin sem blasti við minnti hann nefnilega svo mikið á Auschwitz. En þetta er auðvitað algjör andstæða; þar voru skór í stöflum sem teknir höfðu verið af fólki áður en það var myrt, en hér voru skór sem við söfnuðum til að fólk gæti notað þá."

Þegar þarna er komið samtalinu hljómar allt í einu lagið I will survive og konan tekur undir ásamt nokkrum albönskum börnum sem fylgjast með okkur. "Við vorum að kenna þeim þennan texta í morgun," segir konan ­ en heiti lagsins gæti útlagst Ég mun lifa af, á íslensku.

Ekki gekk alveg þrautalaust fyrir hópinn að komast til Makedóníu. Reyndar gekk allt eins og í sögu þar til þau komu hingað að landamærunum á stórri rútu, en þá sögðu landamæraverðir hingað og ekki lengra! "Við gerðum ekkert veður út af því heldur fórum bara að leika okkur í kringum bílinn. Köstuðum frisbee-diskum til og frá og fórum í boltaleiki. Við tókum neituninni sem sagt bara vel en eftir drykklanga stund voru verðirnir orðnir svo leiðir á okkur að þeir hleyptu okkur í gegn."

Konunni er mikið niðri fyrir þegar hún talar um ástandið í Kosovo og örlög Albananna þar. "Það hefur mikið verið talað um Helförina síðustu áratugi, en í raun hefur ekkert breyst. Í stað þess að tala verða menn að gera eitthvað. Þess vegna urðum við að drífa í þessu. Þú hefur örugglega heyrt um mörg Helfarar-söfn, Helfarar-þetta og Helfarar-hitt. Eins og ég sagði áðan má sú skelfing auðvitað ekki gleymist en það sem skiptir mestu máli er að hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda í dag. Sem barn fólks sem lifði af vist í útrýmingarbúðum nasista gat ég ekki setið hjá. Fólk verður að fá tækifæri til að lifa. Það er sá lærdómur sem mikilvægast er að draga af Helförinni. Foreldrar mínir áttu 18 mánaða gamlan son sem nasistar hentu í ofn; ég hugsaði með mér, þegar ég sá fyrstu myndirnar af þessu í sjónvarpinu, að það væru ekki nema 50 ár síðan pabbi og mamma voru í fangabúðum nasista í Evrópu og nú væri þetta að gerast á sömu slóðum. Þetta gæti bara ekki verið ­ hvers vegna hefði fólk ekkert lært. Þegar ég hugsa um átökin sem verið hafa hér á Balkanskaganum síðustu ár finnst mér eins og Hitler teygi sig upp úr gröfinni og segi: Ég sigra þrátt fyrir allt!"


Út um gluggann

Hvers konar djöfuls hyski er það sem hendir tómri gosflösku úr gleri út úr kyrrstöðum bíl á rauðu ljósi? Bara sisona, og flaskan rúllar eftir malbikinu, undir bílinn og áfram yfir á næstu akreinar.

 

Ég vona að unga fólkið sem beið í litlum, gráum fólksbíl á Glerárgötu áðan, og beygði svo til vinstri upp með Glerá, lesi þennan pistil. Ég var sem sagt karlinn sem flautaði á þau og baðaði út höndunum.

 

Getur verið að bílnúmerið hafi verið MR-243? Held það en fullyrði þó ekki.

 

Alveg er óþolandi að horfa upp á þetta.


Til hamingju með daginn!

Mér, og öðrum heimsins verkalýð, færi ég hamingjuóskir og baráttukveðjur í tilefni dagsins.

Sömu laun fyrir sömu vinnu!


Drög að reglugerð

Fyrir hvert gramm fíkniefnis sem flutt er til landsins skal höggva af smyglaranum einn útlim, að eigin vali.

Smyglarar sem sannanlega stunda iðju þessa vegna eigin nota skulu halda útlimum en fá hjálp frá samfélaginu.

Innflytjandi / fjármagnari skal sæta því að missa tvo útlimi.


BOBBY FISCHER GOES TO WAR

Helvíti góð bók, Bobby Fischer goes to war. Keypti hana í Bókvali-Pennanum í janúar 2004. Eftir það fluttist Fischer til Íslands - gerðist raunar Íslendingur. Hann virtist þá í stríði við allt og alla, en hefur farið varlega síðan þá. Ég átti við hann fínt viðtal sem birtist í Mogganum einhvern tíma fljótlega eftir að hann kom hingað norður í r...gat. Sérkennilegur náungi en skemmtilegur, Fischer.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband