Færsluflokkur: Íþróttir

Gott

2:0 fyrir Frakka. Ég er að þykjast horfa á leikinn í beinni en stóðst ekki mátið að kíkja á netið; staðan í rauntíma er núna 3:1.

Jess!

Eða ætti ég að segja Oui?

1:0 fyrir Frakka gegn Ítölum. Govou skorar eftir eina mínútu og sjö sekúndur!

Ég sé það reyndar strax núna í endursýningunni að markið var svindl - Gallas var rangstæður þegar hann fékk boltann og gaf fyrir á Govou.


2:0

Frábært mark - hraðaupphlaup eins og hjá góðu handboltaliði. En gremjulegt; Íslendingar áttu innkast fremst á vellinum, en Danir skoruðu 90 metrum aftar nokkrum sekúndum síðar. Sending Gravesens fram völlinn og inn fyrir vörnina var glæsileg.

Þetta minnti óþægilega á mark sem Rúmenar gerðu á Laugardalsvelli á sínum tíma.

Danir virðast einfaldlega einu númeri of stórir. Þess leikur er eins og spegilmynd af fyrri hálfleik í Belfast á laugardaginn: nú eru hinir með boltann og okkar menn elta.


Oooooooooooooooooh!

Eiður í dauðafæri en Sörensen ver mjög vel. Verst að dómarinn sá það ekki og dæmdi útspark...

Rangstaða

Ísland - Danmörk 0:1 strax eftir fimm mínútur - en Rommedahl var rangstæður þegar boltanum var spyrnt! Hvers vegna sýnir RÚV okkur það ekki almennilega?


Að halda sér á jörðinni

Það er eflaust eins og að bera vatn í bakkafullan læk að tjá sig um sigur Íslands á Norður-Írlandi í undankeppni EM á laugardaginn, en ég stenst þó ekki mátið.

Mér er til efs að íslenskt landslið hafi leikið betur á útivelli í riðlakeppni stórmóts en í fyrri hálfleiknum í Belfast. Frammistaðan var allt að því fullkomin, eins og mig minnir Eyjólfur Sverrisson, þjálfari liðsins, hafi sagt í Belfast. Liðið var einfaldlega frábært.

Það var ótrúlegt að fylgjast með leiknum í sjónvarpinu; hvernig Íslendingar héldu boltanum og léku honum á milli sín af miklu öryggi. Heimamenn hlupu um, reyndu að ná tuðrunni af gestum sínum en gekk illa. Í gegnum árin hefur þessu oft verið öfugt farið.

Íslendingar vörðust afskaplega vel, allir sem einn, og sóknarleikurinn var líka til fyrirmyndar - enda gerði liðið þrjú mörk í fyrri hálfleiknum.

Vissulega verður að hafa í huga að Norður-Írar eru slakari en ýmsir andstæðingar Íslendinga í gegnum tíðina og samanburður því ekki sanngjarn að öllu leyti. En það er oft meira en að segja það að vinna lið sem eru ekki talin sérstaklega góð. Það er eldgömul staðreynd en sígild. Hvað þá á útivelli. Og hafa verður í huga að Ísland er langt á eftir Norður-Írlandi á títtnefndum styrkleikalista FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins. Íslenska liðið er sem sagt ekki sérlega hátt skrifað í knattspyrnuheiminum frekar en áður, en sýndi í Belfast hvers það er megnugt þegar hugur fylgir máli og allir leggjast á eitt.

Skiljanlegt er að þjóðin bíði spennt eftir leiknum við Dani í kvöld í Laugardalnum. Fólk verður samt að passa sig. Það hefur oft komið okkur í koll að fyllast mikilli bjartsýni; gott dæmi um það er þegar Ísland tók á móti Austur-Þýskalandi í Laugardalnum fyrir nítján árum, sumarið 1987, í undankeppni EM. Allar okkar skærustu stjörnur voru með, þjóðin þekkti lítið til austur-þýska liðsins og bjartsýnin var mikil. En í leikslok var sigurbrosið frosið, gestirnir sigruðu 6:0.

Síðast þegar Ísland og Danmörk mættust urðum við einnig að sætta okkur við 6:0 tap, á Parken í Kaupmannahöfn í undankeppni HM. Fyrirliði Íslands þá var Eyjólfur Sverrisson og þetta var síðasti leikur hans sem leikmanns með landsliðinu. Hann er nú tekinn við stjórnvelinum sem þjálfari og er í meðbyr eftir frábæra byrjun í Belfast. Áætlun hans gekk fullkomlega upp þar, vonanandi verður það sama upp á tengingnum í kvöld og fróðlegt að sjá hvort hann á eftir að koma Dönum á óvart.

Hæfaleikaríkasti knattspyrnumaðurinn á Windsor Park í Belfast á laugardaginn var íslenskur, Eiður Smári Guðjohnsen, og enginn stendur honum framar í danska liðinu - þrátt fyrir stjörnum prýddan hóp frænda vorra. En það er alls ekki nóg. Liðsheildin skiptir mestu máli, hún var ótrúlega sterk í Belfast og hrein unun að sjá hvernig varnarmenn, miðvallarleikmenn og sóknarmenn unnu saman, vörðust og sóttu sem einn maður, og ef liðið leikur jafnvel í kvöld og þá, getur allt gerst. En vara verður við of mikilli bjartsýni. Við höfum aldrei unnið Dani á knattspyrnuvelli. Ekki enn...


Ronnie og Guddy

EMD í dag
Kollegar mínir á El Mundo Deportivo halda ekki vatni yfir Eiði Smári Guðjohnsen og hve vel þeir ná saman hann og Ronaldinho, Ronnie og Guddy eru þeir kallaðir. Guddy skoraði í báðum leikjum helgarinnar í æfingaferð Barca vestan hafs. Mogginn minn segir líka frá því í dag að Frank Rijkaard þjálfari Barcelona ætli sér að nota Eið Smára sem sóknarmann, en ekki láta hann leika á miðjunni eins og Mourinho gerði hjá Chelsea síðustu tvo vetur. Hér til hliðar er forsíða El Mundo Deportivo í dag. Hitt íþróttadagblaðið í Barcelona, Sport, er ekki síður hrifið af samspili íslenska víkingsins og brasilíska sambameistarans og telur þá ná einstaklega vel saman.

Fleiri myndir

Fyrsta mark Eiðs fyrir Barcelona

Ronaldihno fagnar Eiði

Eitt af því fyrsta sem ég geri á hverjum degi er að setjast fyrir framan tölvuna með bolla af góðu espresso kaffi - bollinn þó yfirleitt í hæfilegri fjarlægð svo ekki hellist óvart úr honum á lyklaborðið - og kíkja á erlend dagblöð á netinu. Eitt þeirra sem nú er í uppáhaldi hjá mér er El Mundo Deportivo, www.elmundodeportivo.es, íþróttadagblað sem gefið er út í Barcelona og fókuserar eðlilega mjög á Evrópumeistarana í fótbolta.

Ég sé það heimasíðu EMD í morgun að Eiður Smári Guðjohnsen skoraði í fyrsta skipti fyrir Barca í nótt þegar liðið vann Tigres í Nuevo León í Mexíkó, 3:0 í æfingaleik. Textinn hér að neðan er fenginn að láni af heimasíðu EMD, sem og meðfylgjandi mynd þar sem Ronaldinho fagnar Eiði Smára eftir að íslenski víkingurinn skoraði.

Un gol en propia meta del mexicano Sydney Balderas (m.7) adelantó el marcador de los culés y más tarde, los azulgrana aumentaron la ventaja con las anotaciones de Ronaldinho en tiro libre (m.75) y Eidur Gudjohnsen, que hizo el 3-0 (m.82) en un potente disparo tras un balón envenenado en profundidad que le pasó el Gaúcho y que el islandés aprovechó de forma magistral para marcar por la escuadra contraria con un tiro seco. Primer gol del vikingo como azulgrana.

Svo eru hérna ummæli höfð eftir Ronaldinho um íslenska landsliðfyrirliðann á sömu síðu; afar lofsamleg ef mín pínulitla spænskukunnátta svíkur mig ekki.

Gudjohnsen está descubriendo a sus nuevos compañeros. Está en período de conocimiento pero es muy inteligente"

Eidhur es muy listo, sabe moverse y aunque está adaptándose va a ser muy, muy bueno tenerlo de compañero"


Hjólreiðar og spretthlaup

Hvað eiga þessar keppnisgreinar sameiginlegt? Mér dettur í hug að í báðum tilfellum verður sá, sem vill vera bestur, að leggja á sig gríðarlegt erfiði við æfingar... 

Dæmi um slíka menn eru Bandaríkjamennirnir Floyd Landis, sem sigraði í Frakklandshjólreiðunum á dögunum og Justin Gatlin, heims- og ólympíumeistari í 100 m hlaupi og heimsmethafi í greininni ásamt Asafa Powell frá Jamaíka.

 


Tár, bros og milljarðar

Það er alltaf gaman að velta fyrir sér peningum annars vegar og fótbolta hins vegar. Og stundum þessu tvennu í einu vetfangi. Ég nenni ekki að skrifa eitthvað nýtt, en birti hér að gamni mínu Viðhorf sem ég skrifaði í Morgunblaðið fimmtudaginn 2. mars árið 2000 undir fyrirsögninni Peninga-maskínan. Svei mér, ef þetta á ekki býsna vel við ennþá...

- - - - - - -

Einhvern tíma leyfði ég mér að slá því fram í pistli hér í blaðinu að sá sem fyrstur danglaði fæti í knött hefði varla leitt hugann að því hve slíkur verknaður kæmi til með að þykja tilkomumikill síðar meir. Að sama skapi hefur þann sem fyrstur greiddi einhverjum fé fyrir að stunda þá vinsælu íþrótt, knattspyrnu, varla órað fyrir því hvers konar skriðu hann var að koma af stað með tiltæki sínu. Eða hve margir hefðu atvinnu af þessum leik í heiminum um mót tuttugustu aldar og þeirrar tuttugustu og fyrstu.

Eilífðarvél er fyrirbæri sem á að geta gengið endalaust á orku sem hún framleiðir sjálf. Knattspyrna er því nokkurs konar eilífðarvél vegna þess hve orka nútímans - peningar - er framleidd í miklu magni í knattspyrnuvélinni. Knattspyrnufíklar eins og höfundur þessa pistils hafa átt margar unaðsstundir fyrir framan sjónvarp eða á ýmsum leikvöngum í heiminum, þar sem knattspyrnumenn hafa boðið upp á skemmtiatriði. Áður en beinar útsendingar í sjónvarpi frá knattspyrnuleikjum urðu nánast daglegt brauð voru laugardagssíðdegin eins og helgistund þegar Bjarni Fel sýndi viku gamla leiki frá Englandi í ríkissjónvarpinu. Nú er framboðið orðið gífurlegt, raunar svo mikið að ekki er hægt að horfa á nema brot af því sem er í boði. Íslendingar eiga þess kost að sjá beint alla helstu deildarleiki á Englandi, Ítalíu, Spáni og í Þýskalandi, auk margra bikar- og landsleikja.

 

Sumir líta á íþróttir sem holla hreyfingu og leik. Og hafa auðvitað rétt fyrir sér. Aðeins að hluta til þó, því keppnisíþróttirnar snúast sífellt meira um peninga og þetta tvennt er raunar gjörólíkt; keppnin er eitt og almenningsíþróttir annað.

 

Knattspyrnan á að vera skemmtun og er enn frekar en áður orðin hluti skemmtanaiðnaðarins. Staðreyndin er einnig sú að rekstur knattspyrnuliðs er orðinn gífurlegt gróðafyrirtæki. Íslenskir íþróttaáhugamenn verða sífellt meira varir við viðskiptahlið íþróttanna; m.a. vegna frétta af tíðum ferðum íslenskra knattspyrnumanna úr landi upp á síðkastið. Og í haust sem leið gerðist það í fyrsta sinn að íslenskir fjárfestar keyptu sér eitt stykki knattspyrnulið í útlandinu! Fyrir nokkrum misserum áttu forráðamenn knattspyrnudeildar KR í viðræðum við útlendinga um að koma að rekstri deildarinnar. Ekkert varð úr því þá, en það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Málið er spennandi, svo ekki sé meira sagt og því ber að fagna fáist meira fjármagn inn í íþróttahreyfinguna hérlendis en áður. Verði hægt að hlúa betur að yngri íþróttamönnum félaganna geta þau væntanlega alið upp fleiri afreksmenn og tekjuháum íslenskum atvinnumönnunum erlendis gæti fjölgað að sama skapi.

 

En það flögrar sem sagt stundum að mér hvort fólk fari ekki að fá nóg. Þegar liðum var fjölgað í Meistaradeild Evrópukeppninnar í fyrra - í þeim tilgangi að fleiri rík félög yrðu ennþá ríkari - fannst sumum einmitt nóg um. En forráðamenn félaganna vilja auðvitað þéna sem mest, og þátttaka í Meistaradeildinni færir félögum gríðarlegar fjárhæðir í aðra hönd. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, selur sjónvarpsrétt og auglýsingar dýru verði og deilir út peningum til félaganna sem aldrei fyrr.

 

Það er að sjálfsögðu ánægjulegt þegar fólki gengur vel í lífinu, meðal annars þegar það hefur góðar tekjur - hvort sem það er knattspyrnumaður í útlandinu, heimsfrægur tónlistarmaður eða jafnvel bankastjóri á Íslandi. Vilji fyrirtæki - í það minnsta þegar einkafyrirtæki á í hlut - borga einhverjum svimandi há laun hlýtur sá hinn sami að eiga þau skilið. Ég hef aldrei heyrt um fyrirtæki sem borgar fólki hærri laun en stjórnendur þess telja sanngjarnt; að minnsta kosti ekki hærri laun en einhver samkeppnisaðilinn telur sanngjarnt! Sumir setja reyndar spurningarmerki við það hversu há laun ríkisfyrirtæki eigi að borga; getur það til dæmis talist eðlilegt að ríkisstarfsmaður, þó stjórnandi sé, þiggi miklu hærri laun en til dæmis forsætisráðherra sama lands? Ég ætla auðvitað ekki að svara þeirri spurningu, gæti einhvern tíma fengið neitun þegar ég bið um lán... Það má líka spyrja hvort eðlilegt sé að íslenskur knattspyrnumaður hjá erlendu félagsliði hafi margfaldar tekjur launahæstu íslensku forstjóranna. Svarið við þeirri spurningu er heldur ekki til vegna þess að störfin og aðstæður á markaði á hverjum stað er ekki hægt að bera saman.

 

En gæti sú stund runnið upp að eilífðarvélin bræði úr sér? Að fólk fái yfir sig nóg af þessari skemmtilegu íþrótt? Að venjulegur knattspyrnuáhugamaður fái sig fullsaddan af græðgi félaganna, sem meðal annars kemur fram í háu miðaverði, af offramboði á leikjum og því, hve einstaka leikmenn hafa ótrúlegar tekjur? Það er alls ekki víst og ég ítreka að mér er nokk sama þó góðir íþróttamenn eigi mikla peninga. Þeir sem þéna vel eiga það skilið og þegar ég er svo heppinn að fylgjast með leik eins og viðureign Real Madrid og Bayern München í Meistaradeildinni á Sýn í fyrrakvöld er mér alveg sama hversu mikla peningar strákarnir í sjónvarpinu fá fyrir að gera mig jafn hamingjusaman og ég varð á þessum níutíu mínútum. Þegar ég skemmti mér svona vel er ég ánægður. Eilífðarvélin stendur því vonandi undir nafni.

 

Og þegar öllu er á botninn hvolft stuðlar það líklega bara að minnkandi atvinnuleysi í veröldinni eftir allt saman, að knattspyrnumennirnir fái svona há laun. Eftir að þeir leggja skóna á hilluna eru þeir nefnilega flestir svo ríkir að þeir þurfa lítið sem ekkert að vinna. Og taka þar af leiðandi ekki störf frá okkur hinum...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband