Samtaka nú!

Samtaka

Það var um leið og Arna hljóp út í gærkvöldi og náði í þvottinn á snúruna vegna þess að byrjað var að snjóa, að ég mundi eftir því að knattspyrnuvertíðin er að hefjast á Íslandi. 

Kannski eru ýkjur að halda því fram að það hafi snjóað, en lóðin gránaði um hríð og trampólínið fyrir utan eldhúsgluggann minn leit út eins og þar hefðu verið skilin eftir 10 kíló hveitis - án umbúða. Og þó, það eru kannski líka ýkjur; segjum 5 kíló. Það er í það minnsta ekki ofsagt. Ég sver það!

Úrvalsdeild karla hefst um helgina eins og neytendur fjölmiðla hafa séð upp á síðkastið. Og boltinn byrjar líka að rúlla, eða skoppa - það fer eftir vallaraðstæðum - í 1. deildinni. Mínir menn í Þór eiga að mæta vinum sínum í KA í fyrstu umferðinni á sunnudaginn, og ég veit ekki betur en spila eigi á Akureyrarvelli. Vona að Steini og Bjössi nái að sópa snjónum í burtu.

Annars hafa aðstæður til knattsparks oft verið verri á Akureyri en nú. Ég man eftir því að seint í maí 1995 kom ég hingað norður með hóp norrænna íþróttafréttamanna. Þeir voru hérlendis á þingi á vegum okkar, íslenskra starfsbræðra sinna - og þá var allt á kafi í snjó. Við fórum m.a. upp á golfvöll og skandinavísku vinir okkar brostu út í annað þegar þeim var sagt að Arctic Open færi fram eftir þrjár vikur. En golfmótið fór auðvitað fram að venju. Hlutirnir gerast jafnan hratt á Íslandi; ekki bara þegar menn vilja kaupa sér fyrirtæki. Náttúran getur líka verið snögg til.

Aðeins um myndina. Þetta eru glæsilegir menn, nokkrir Þórsarar á Pollamóti Þórs í fyrrasumar. Mér finnst samt ótrúlegt að sjá Helga Pálsson jafnaldra minn þarna, nýfermdan. Hvað er hann að gera með liði 40 ára og eldri?

Hvað um það. Héðan af sjúkrabeðinum óska ég mínum mönnum góðs gengis í sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband