28.3.2006 | 10:10
Anja Andersen
Daninn Anja Andersen, þjálfari Slagelse og líklega fremsta handboltakona sögunnar, komst í fréttirnar á dögunum þegar hún gekk af velli með lið sitt í deildarleik heima í Danmörku. Hún trylltist af bræði og hefur nú verið úrskurðuð í langt keppnisbann.
Einn skemmtilegasti handboltaleikur sem ég hef séð um ævina var úrslitaleikur kvenna í Atlanta 1996, þegar Danir sigruðu þáverandi heims- og ólympíumeistara Suður Kóreu. Þar fór Anja á kostum.
Ég var að glugga í það sem ég skrifaði í Moggann frá Atlanta. Þetta sagði ég m.a. eftir úrslitaleikinn:
"Þegar fimm sekúndur voru eftir af úrslitaleik Danmerkur og Suður-Kóreu í handknattleik kvenna og staðan jöfn var dæmt vítakast á heimsmeistarana. Það var Anja Jul Andersen, að mínu mati besti leikmaður Dana - frábær handboltakona, þó skapið hlaupi stundum með hana í gönur - sem braust í gegn af harðfylgi og vítakast var hárréttur dómur.
Vel var við hæfi að Anja tryggði Dönum gullið með þessum hætti; fiskaði víti og skoraði úr því sjálf. Hún stillti sér upp við vítalínuna, sveiflaði hægri hendinni fimlega og knötturinn sveif í átt að marki. Gullbjarma hafði slegið af brosi þeirra dönsku þegar vítið var dæmt, en skyndilega var eins og grá og kuldaleg stálslykja færðist yfir andlit þeirra. Kóreski markvörðurinn gerði sér nefnilega lítið fyrir og varði gott skot Önju, staðan var því enn 29:29 og framlenging óumflýjanleg.
"Mér fannst miklu betra að vinna með fjórum mörkum en einu!" sagði Anja á blaðamannafundi eftir leikinn - brosandi - en var fljót að bæta við, til að móðga engan: "Nei, bara að grínast!" En hún mátti líka alveg gantast þá. Danir voru sem sagt miklu betri í framlengingunni, sigruðu 37:33 og Anja, Camilla Andersen og markvörðurinn Susanne Lauritsen voru þær bestu í glæsilegum hópi þeirra."
Þótt Anja sé skapmikil hef ég alltaf haft gaman af henni. Hún gefur handboltalífinu sannarlega lit.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2006 | 09:21
Fjórði í jólum
Enn snjóar á Akureyri. Sami fallegi jólasnjórinn og síðustu daga, en þegar honum fylgir vindur og kuldi þá er hann reyndar ekki jafnfallegur og manni fannst fyrst.
En hvað er maður að kvarta. Enn er bara mars. Platvorið um daginn ruglar fólk í ríminu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2006 | 18:44
Til hamingju, Ísland!
Ég ætlaði að vera búinn að óska þjóðinni til hamingju með nýjan landsliðsþjálfara í handbolta, en gleymdi því. Alfreð Gíslason er rétti maðurinn í starfið, um það er ég sannfærður.
Alfreð er sigurvegari, eins og hann hefur oft sýnt. Og þolir ekki að tapa.
Snillingurinn Bill Shankly, þjálfari Liveprool, sagði á sínum tíma, eins og ég vitnaði í fyrir skömmu: "If you are first you are first. If you are second you are nothing."
Alli sýndi að hann er sama sinnis, eftir tap með KA í eftirminnilegum leik í Valsheimilinu þar sem Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn. "Silfur er fyrir lúsera," sagði Alli þá, reif af sér silfurpeninginn og þeytti honum inn undir áhorfendapallana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2006 | 08:51
Kunnugleg umfjöllun
Forsíða breska blaðsins The Independent í morgun er vel gerð. Umfjöllunarefnið hins vegar ekkert spaug en málefnið kunnuglegt. Það er ekki bara á Íslandi sem verr er farið með gamalmenni en þau eiga skilið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2006 | 21:55
Flugdrekahlauparinn
Er hægt að halda því fram að bók sé illilega sár aflestrar, full af hatri og grimmd en þó falleg og yndisleg?
Þetta kann að hljóma sem hrópandi mótsögn.
En svona bók er þó til. Eða það finnst mér. Hér í þessum nýja prívat fjölmiðli mínum mælti ég um daginn með spænsku bókinni Skugga vindsins, sem er algjörlega dásamleg, en þá er ekki síður hægt að hvetja fólk til þess að lesa Flugdrekahlauparann, afgönsku söguna eftir Khaleid Hosseini sem kom út hjá JPV fyrir jólin.
Það er erfitt að lýsa þessari bók. Hún er ljót en samt svo falleg. Eitthvað það fallegasta sem ég hef lengi lesið. Og hverjum manni nauðsynleg, því hún er vegvísir til góðs.
Til að gera langa sögu stutta segi ég aðeins þetta: Lestu!
Bloggar | Breytt 28.3.2006 kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2006 | 15:48
Skemmtilegu Goðamóti lokið
Goðamóti 6. flokks stráka í fótbolta er lokið í Boganum hér á Akureyri. KR-ingar unnu keppni A-liða og Þórsarar urðu í öðru sæti. Mínir menn í Þór unnu svo D-liðakeppnina.
Fréttir af mótinu, öll úrslit og fullt af myndum er að finna á heimasíðu Goðamótsins. Besta leiðin þangað er í gegnum heimasíðu Þórs: www.thorsport.is og svo er tengill þar ofarlega vinstra megin inn á Goðamót.
Meðfylgjandi mynd tók ég úrslitaleiknum á milli KR og Þórs í úrslitaleik A-liðanna.
Bloggar | Breytt 27.3.2006 kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2006 | 11:17
Jólasnjór í mars
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2006 | 22:50
Fjögur núll
Bloggar | Breytt 26.3.2006 kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2006 | 21:03
Hvítlauksristaðar gellur
Þær eru alltaf fínar, hvítlauksristuðu gellurnar á Bautanum. Ég hefði reyndar ekkert á móti því að hvítlaukurinn réði enn frekar ríkjum á diskinum, en það er kannski ekki að marka.
Eiginkonan og elsta dóttirin eru að vinna í kvöld - báðar í veisluþjónustu Bautans á árshátíð Samherja í íþróttahöllinni - þannig að við þrjár (!) sem erum heima skelltum okkur á Bautann. Pítsa Margarita var fín og Bolognaise blaðpasta líka, en Ölmu fannst það reyndar dálítið sterkt. Mig grunar þó það hafi verið nákvæmlega eins og búast má við.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2006 | 18:45
Tryggvi og Everton
Athugasemd barst í vikunni frá Tryggva Gunnarssyni stuðningsmanni knattspyrnuliðsins Everton og vel við hæfi að birta hana núna - eftir úrslit dagsins. Ég nefndi sem sagt rauðvínið Everton á dögunum og hélt það væri frá Suður-Afríku. En Tryggvi fullyrðir að það sé frá Ástralíu og ég trúi því. Það leiðréttist hér með. En bláa fótboltaliðið Everton er samt frá Liverpool, altso frá Bítlaborginni við Mersey. Það hefur ekkert breyst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)