Færsluflokkur: Tónlist

Ágætis endir . . .

Sigur Rós í Ásbyrgi 1

Ásbyrgi Park verður kannski nefndur í sömu andrá héðan í frá og Hyde Park í London og Central Park í New York þegar eftirminnilega tónleika ber á góma. Ég fullyrði að minnsta kosti að veisla Sigur Rósar í náttúruundrinu í þjóðgarðinum fyrir austan á eftir að lifa lengi í minningunni og umgjörðin verður varla fegurri. Ein mynd birtist með grein minni í Morgunblaðinu í dag um upplifunina í Ásbyrgi og þessum pistli hér á blogginu fylgir slatti í viðbót. Ég leyfði mér að segja í blaðinu í dag að hversdagsleg stund undir hundrað metra háum hamraveggnum innst í Ásbyrgi sé yndisleg í góðu veðri en þegar tvö stórbrotin náttúrufyrirbæri - Ásbyrgi og Sigur Rós - verði eitt um stund geti útkoman ekki orðið annað en ógleymanleg; allt að því ólýsanleg.

Föstudagskvöldið síðasta viðraði vel til tónlistarlegra loftárása í náttúruperlunni í Kelduhverfi þó svo hann mígrigndi skammt vestar á Tjörnesinu nokkru áður. Um 20 stiga hiti var í byrginu um kvöldmatarleytið.

Áður en rökkva tók drógu krakkar rauða flugdreka á loft eða léku sér í fótbolta í góða veðrinu og ekki bærðist hár á höfði þegar Sigur Rós hóf leik um klukkan hálf tíu.

Talið er að um fjögur þúsund manns hafi verið saman komnir til þess að hlýða á meistarana í þessari mögnuðustu hljómsveit samtímans hérlendis og þótt víðar væri leitað.

Í forrétt hafði verið boðið upp á þriggja stundarfjórðunga göngutúr frá tjaldstæðinu yst í byrginu og sama leið á tveimur jafnfljótum til baka var svo í eftirrétt laust eftir miðnætti.

Aðalrétturinn var framborinn undir hamraveggnum, í landsins besta tónlistarsal ef að líkum lætur. Sal sem kostaði ekki krónu! Og þvílíkar kræsingar; fimm stjörnur fyrir hráefni, matreiðslu og þjónustu. Ein að auki fyrir "salinn" og sú sjöunda fyrir veðrið! Fullkomin kvöldstund.

Þetta voru síðustu tónleikar Sigur Rósar á rúmlega eins árs löngu ferðalagi um gjörvalla heimsbyggðina, en þreyta var ekki merkjanleg. Tónlistarmennirnir virtust njóta stundarinnar eins og þeir sem utan sviðsins stóðu.

Lög af Ágætis byrjun, ( ) og Takk hljómuðu í nærri tvo og hálfan klukkutíma og allir fóru sáttir heim. Það eina góða við að tónleikunum lauk, að mínu mati, var að með hverri mínútu þaðan í frá styttist í að hægt verði að eignast þá á geisladiski eða DVD!

Að lokum er vel við hæfi að segja: Takk, þetta var Ágætis endir.


Fleiri myndir

Dýrðarstund í Ásbyrgi

Það var gaman í Ásbyrgi í gærkvöldi og í raun miklu meira en það; forréttindi að fá að mæta, dýrðleg stund sem verður ógleymanleg. Síðustu tónleikarnir í rúmlega árs túr Sigur Rósar um heimsbyggðina. Takk fyrir mig, konu mína og dæturnar þrjár!

y n d i s l e g t

Það er einhvers konar friðar- og sælutilfinning sem hríslast um mig í sófanum hér í Borgarhlíð höfuðstaðar Norðurlands, við það að horfa og hlýða á Sigur Rós í beinni frá Klambratúni í RÚV-inu. Hvernig er eiginlega hægt að búa til svona fallega músík?

Árum saman smíða erlendir starfsbræður strákanna tónlist sem mér finnst öll hafa heyrst áður, en svo verður þessi dásemd til hér heima. Hallgrímskirkja í bakgrunni minnti óneitanlega á Hraundranga í Öxnadal á föstudaginn, en ég er ekki frá því að norðlenska sviðsmyndin hafa verið fallegri. Er reyndar alveg viss!

Ég er illa svikinn ef einhver nennir að slást í höfuðborginni í nótt, að minnsta kosti enginn sem staddur er við Kjarvalsstaði í augnablikinu. Þarna er kannski fundin íslensk friðargæslusveit? Friðargæsluhljómsveit! Sendum Sigur Rós suður að botni Miðjarðarhafs og eftir tvö, þrjú lög dettur ekki nokkrum manni í hug að sprengja frekar. Pottþétt.

Góða nótt!


Sigur Rós að Hálsi

Sigur Rós að Hálsi

Uppskrift að frábæru kvöldi: Eitt stykki Háls í Öxnadal, góð fiskisúpa hjá listakokknum Rúnari Marvins (sem leyndist í eldhúsi Halastjörnunnar), lífrænt ræktað hvítvín - má taka svona til orða? - gott veður en samt lopapeysa, og tónleikar með Sigur Rós. Svona var þetta á föstudagskvöldið. Ógleymanlegt. Rósin verður aftur á ferðinni á Klambratúni í kvöld og ástæða til þess að öfunda þá sem þar verða staddir. Svo skilst mér að þessi einstaka hljómsveit ætli að spila í Ásbyrgi um næstu helgi. Hafi leikmyndin verið falleg að Hálsi í fyrrakvöld, Hraundrangi tignarlegur í baksýn og sólroðin ský framan af, verður umgjörðin væntanlega fullkomin í Ásbyrgi. Ég þangað.

Hér fylgir slatti af myndum sem ég tók á föstudaginn; smá myndasaga sem hefst síðdegis þegar ég og mínir mættum á svæðið (mjööög snemma vegna þess að mig, fararstjórann, misminnti hvenær herlegheitin hæfust) - skoðuðum útibúið frá Gunnu og þeim í Frúnni í Hamborg, smökkuðum á lífrænu grænmeti, fengum okkur að borða og svo framvegis ... allt þar til tónleikunum lauk, einhvern tíma seint.


Fleiri myndir

Frábær Djangodjass

Weinstein

Það var æðislegt á lokakvöldi Djangodjasshátíðarinnar - Grand finale - í Sjallanum á Akureyri síðasta laugardagskvöld. Þar voru saman komnir ýmsir innlendir og erlendir listamenn, gríðarlega góðir, og mér sýndist allir samkomugestir ganga brosandi út í norðlenska sumarið.

 

Auk þess að hlusta mundaði ég myndavélina þetta kvöld í Sjallamyrkrinu og birti hér tvær myndir að gamni, önnur er af sænska gítarleikaranum Andreas Öberg og hin af bandaríska fiðleikaranum Aaron Weinstein. - Nei, Öberg neitar að koma fram á bloggsíðu minni, eða tölvan samþykkir hann ekki! Öberg birtist því ekki að sinni, kannski síðar.


Kenny G

Heyrði fyrst í honum á setningarhátíð Friðarleikanna (Goodwill Games) árið 2000 í Seattle í Bandaríkjunum. Flottur staður, skemmtilegt mót, en Kenny G eltist ekkert sérlega vel. Átti þó nokkur mjög fín lög.

Eyja-Björk

"Bikarinn til Eyja!" sungu stuðningsmenn Fjölbrautarskólans í Vestmannaeyjum rétt í þessu í beinni útsendingu RÚV frá Söngkeppni framhaldsskólanna. Svei mér ef það verður ekki niðurstaðan. Ég er ekki frá því að Eyjastelpan sé best. Dálítið Bjarkarlegt lag, það skemmir varla fyrir.

Gréta Mjöll var líka flott.

Það eru að vísu ekki allir búnir. Við spyrjum að leikslokum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband