31.3.2006 | 23:01
Smokey Bay
Ég stalst til Reykjavíkur um miðjan dag og kom aftur heim í kvöld. Kíkti á ársþing HSÍ í Laugardalnum. Skömmu eftir að ég lenti á Akureyri í kvöld fékk ég sms í símann með þeim upplýsingum að Þór og Fram hefðu gert jafntefli, 28:28, á Íslandsmótinu í handbolta í Höllinni. Og mínir menn voru víst óheppnir, eða klaufar, að vinna ekki leikinn. Þannig hefur það verið í sumum undanfarinna leikja enda liðið í heldur leiðinlegri stöðu.
Það var eins og að koma til útlanda að lenda í Reykjavík. Auð jörð og hlýtt í veðri. Allt á kafi í snjó fyrir norðan.
Mér finnst snjórinn fallegur, yfir vetrartímann, og á meðan hann hylur jörðina getum við að minnsta kosti verið viss um að sinueldar ógna ekki byggðinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2006 | 22:30
Marsbúinn
Tryggvi vinur minn sendi mér í dag ljóð sem heitir Marsbúinn og er svona:
Í dag er 31.mars.
Á morgun er 1.apríl.
Þá er mars búinn.
Góð!
Ég held að vísan sé komin til ára sinna. Man einhver hver höfundurinn er?
Bloggar | Breytt 3.4.2006 kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 22:02
Páskakiljur
Ég þurfti í Hagkaup í dag og rakst þar á stæður af nýjum kiljum. Rakst reyndar ekki á, í eiginlegri merkingu, en sá.
Þótt talsvert sé til páska eru súkkulaðieggin fyrir löngu komin í verslanir. Skyldi þessi óinnbundndi litteratúr vera páskakiljur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 21:46
MA-ingurinn á heimilinu brosir breitt
Arna, elsta dóttir mín, brosir breitt þessa stundina. Hún er í MA og fagnaði ákaft þegar skólinn hennar sigraði MH í undanúrslitum spurningakeppninnar Gettu betur fyrr í kvöld.
Ég get svo sem ekki neitað því að hafa glaðst líka. Gömlum MA-ingi finnst notalegt þegar skólanum hans gengur vel.
Aðrir krakkar, önnur kynslóð, sami skólinn . . .
Er það ekki annars ótrúlegt hve fróðir þessir menntaskólakrakkar eru?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 19:18
Pabbi og Þráinn
Pabbi og mamma fóru með mér á hátíðarsýninguna á Litlu hryllingsbúðinni á þriðjudagskvöldið, í tilefni 50 ára leikafmælis Þráins Karlssonar. Þeir pabbi unnu lengi saman hjá afa Skapta í Slippnum í gamla daga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 18:17
Þegar Eiður komst á flug með Chelsea
Hann tekur nokkrum sinnum á sprett að boltanum og spyrnir fast með vinstri fæti - alltaf með vinstri.
Ekki er nema tæp klukkustund síðan annar ljóshærður Íslendingur, í blárri Chelsea-treyju númer 22, merktri Gudjohnsen, sveiflaði vinstri fætinum og skoraði gegn Liverpool - í fyrsta heila leik sínum í úrvalsdeildinni, að viðstöddum 34.966 áhorfendum.
Sá fyrrnefndi er einungis tveggja ára og heitir Sveinn Aron. Hann er að leika sér á þröngum gangi inn af blaðamannaherberginu á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea í London, ásamt fleiri piltum, sem eru tvöfalt eða þrefalt stærri. Faðernið leynir sér ekki. Hann er nánast alveg eins og Eiður Smári - bara nokkrum númerum minni!
Ekki fer á milli mála að strákurinn hefur gaman af fótbolta og enginn efaðist heldur um það sem sá áðurnefndan leik að pabbinn nýtur þess að vera í vinnunni um þessar mundir. Samstarfsmennirnir og stuðningsmenn liðsins voru greinilega ánægðir með íslenska landsliðsmanninn en gestirnir rauðklæddu, leikmenn Liverpool, hefðu eflaust ekkert haft á móti því þótt Eiður sæti á bekk varamanna þar sem hann hefur verið undanfarið.
Enskir blaðamenn hrifust líka af glókollinum ofan af Íslandi, þeim eldri altso; hann var valinn maður leiksins í a.m.k. tveimur dagblaðanna í gær, Sun - sem segir hann aldrei hafa gefið ótraustri vörn Liverpool grið - og Independent, og var í liði dagsins hjá því síðarnefnda; þar var þeim stillt upp í framlínunni Eiði Smára og Frakkanum Tierry Henry, sem gerði stórkostlegt mark fyrir Arsenal gegn Manchester United.
"Frábær dagur fyrir Eið"
Mörkin
Eiður Smári kórónaði svo frábæra frammistöðu sína með þriðja marki leiksins á 71. mín. Nýtti sér slæm mistök andstæðinganna, komst einn í gegnum vörn þeirra, lék á Westerveld markvörð og skoraði örugglega í tómt markið úr þröngu færi.
Eiður ánægður
Mikil hreyfing var á leikmönnum Chelsea. Hasselbaink var í fremstu víglínu, í uppstillingu sem sumir kjósa að kalla 3-5-1-1, en aðrir nefna 3-4-3. "Það er ekki leikkerfið sem skiptir máli, heldur leikmennirnir," sagði Ranieri; "með hvaða hugarfari þeir fara inn á völlinn, og ég var mjög ánægður með það í dag. Eftir tapið [í Sviss] á fimmtudaginn var ánægjulegt að sjá hvernig menn rifu sig upp í dag."
Ekki alltaf auðvelt
"Það er ekki alltaf auðvelt að vera atvinnumaður. Andlega hliðin skiptir miklu máli og ég verð að segja að Eiður Smári kom mér strax mjög vel fyrir sjónir hvað hana varðar. Ég vona að hann eigi glæsilegan knattspyrnuferil framundan - og að hann verði sem lengst hjá PSV," sagði Frank Arnesen, danski landsliðsmaðurinn fyrrverandi og framkvæmdastjóri PSV, við Morgunblaðið, þegar fyrsti samningurinn var undirritaður.
Danskurinn átti kollgátuna. Styrkleiki Eiðs Smára felst auðvitað að miklu leyti í frábærum knattspyrnuhæfileikum, en ekki síður í andlegum styrk. Hann neitaði að gefast upp þegar á móti blés og er nú að uppskera eins og hann sáði til.
Eftir nokkra leiki með KR sumarið 1998 fór hann til 1. deildarliðs Bolton á Englandi. Þar á bæ voru menn tilbúnir að gefa honum tækifæri. Höfðu trú á honum. Og íslenskir íþróttaáhugamenn þekkja framhaldið: Eiður Smári sló rækilega í gegn á síðustu leiktíð og var í sumar keyptur fyrir fúlgur fjár til stórliðs Chelsea.
Gianluca Vialli, knattspyrnustjóri liðsins, lýsti því yfir í byrjun leiktíðar að Íslendingurinn væri fyrst og fremst keyptur með framtíðina í huga. Ekki væri víst að hann léki mikið í vetur en Chelsea hefði hér verið að festa sér lykilmann í liðinu næsta áratuginn.
Liðinu gekk ekki vel í byrjun tímabilsins og einn góðan veðurdag fyrir skömmu var Vialli sagt upp störfum. Við starfinu tók áðurnefndur Ranieri en Eiður Smári var svo óheppinn að togna á ökla í þann mund sem þjálfarinn hóf störf. "Ég var meiddur fyrstu vikuna sem hann var við stjórnvölinn og hef aðeins verið á æfingum hjá honum í fimm daga," sagði Eiður í viðtalinu sem vitnað var til að ofan, og taldi of snemmt að tjá sig um nýja stjórann eða bera hann saman við Vialli. En hann var vitaskuld ánægður með leikinn gegn Liverpool og úrslit hans. "Þetta var það besta sem gat komið fyrir eftir ósigurinn í Evrópukeppninni."
Á flugi
Ég sá ekki betur á sunnudaginn en sjálfstraustið væri aftur orðið bærilegt. Að hann sé u.þ.b. að hefja sig til flugs - jafnvel kominn á loft.
Ekki munaði miklu að feðgarnir Guðjohnsen, faðirinn Arnór og sonurinn Eiður Smári, lékju saman í landsliðinu fyrir fáeinum árum, fyrstir feðga í heiminum. Svo fór því miður ekki, vegna meiðslanna sem sonurinn varð fyrir, en miðað við það sem ég sá á sunnudaginn á Stamford Bridge, innan og utan vallar, skyldi enginn útiloka að Guðjohnsen-feðgar leiki saman í íslenska landsliðsbúningnum eftir svo sem hálfan annan áratug...
- - - - -
Þetta var sem sagt skrifað í október árið 2000, Sveinn Aron orðinn sex árum eldri og búinn að eignast tvo bræður. Ég veit ekki hvort þeir yngri eru flinkir með boltann, en ef þeim kippir í kynið verða kannski faðir og synir, Guðjohnsenar, saman í landsliðinu einhvern tíma.
Bloggar | Breytt 31.3.2006 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 17:57
Flensan herjar enn á heimilið
Enn fjölgar fórnarlömbum flensunnar á heimilinu. Eiginkonan og elsta dóttirin, Sigrún og Arna, lágu flatar í nokkra daga um daginn og miðdóttirin, Alma, fékk háan hita í gærkvöldi og er léleg til heilsunnar í dag. Sara, sú yngsta, lét sér nægja einn dag nýverið - bara sýnishorn.
Ég lá í bælinu nokkra daga eftir að heim var komið frá Skáni fyrir þremur vikum eða svo. Tel það reyndar bara hafa verið kvef og aumingjaskap og slepp vonandi við þessa bannsettu flensu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 17:47
Viltu fljúga fyrir 85 kr frá Köln til Prag?
- Ábendingar um ódýrt flug.
- Ég þurfti einu sinni að koma manni eftir krókaleiðum frá landi langt, langt í burtu til Íslands og notaði þá m.a. þjónustu flugfélags sem heitir Germanwings. Komst þá á póstlista félagsins og nú er það að bjóða 50.000 sæti á eina evru (fram og bil baka) á milli nokkurra staða.
- Panta þarf fyrir miðnætti 2. apríl - en þá gætu öll sæti vitaskuld verið löngu uppseld. Fyrstu kemur, fyrstur fær. Ferðast verður á bilinu 15. apríl til 31. maí í vor.
- Tilboðin eru þessi:
- 1. FRÁ KÖLN til (og frá) Alicante, Antalya, Gdansk, Dublin, Edinborgar, Gautaborgar, Izmir, Krakár, London, Oslo, Parísar, Prag, Stokhólms, Varsjár, Vínar og Zurich.
- 2. FRÁ STUTTGART til (og frá) Antalya, Izmir, Krakár, London, Pariísar, Prag, Varsjár og Vínar.
- 3. FRÁ BERLÍN til (og frá) Oslóar, Stokkhólms og Izmir.
- 4. FRÁ HAMBORG til (og frá) Izmir, Krakár, London, Oslo, Stokkhóms og Varsjár.
- Síðast þegar ég vissi var 1 evra andvirði rétt tæplega 85 króna.
- Ég held að heimasíðan sé www.germanwings.de
- Góða ferð!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 10:31
Hærri laun en í Danmörku
Ég hélt að íþróttahreyfingin hér á landi berðist í bökkum.
Ummæli danska knattspyrnumannsins Peter Gravesen í Fréttablaðinu í dag koma því skemmtilega á óvart. Þar segist hann fá betur borgað fyrir að spila fótbolta með Fylki á Íslandi en hann fékk fyrir sömu iðju í Danmörku.
Knattspyrnuhreyfingin hérlendis er, eins og allir vissu svo sem, sér á báti. Aðrar íþróttagreinar berjast í bökkum/bönkum.Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2006 | 16:38
50 ára leikafmæli Þráins
Þráinn Karlsson á 50 ára leikafmæli í dag og af því tilefni verður sérstök hátíðarsýning í gamla Samkomuhúsinu á Litlu hryllingsbúðinni, sem LA frumsýndi á laugardaginn en Þráinn fer með eitt hlutverkanna.
Meðfylgjandi mynd tók ég baksviðs skömmu fyrir frumsýninguna þegar verið var að sjæna Þráin aðeins. Guðjón Davíð Karlsson, Gói biskupssonur, er í næsta stól. Ef vel er að gáð má sjá Ölmu dóttur mína lengst til vinstri! Henni fannst gaman að koma með og sjá leikhúsið þarna megin frá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)