Færsluflokkur: Bloggar

Flensa I

Ligg í flensu. Of máttfarinn til þess að skrifa meira...

 

Sorrí, kannski í kvöld.


Plantan

c_skapti_plantan.jpg

Sýningum á Litlu hryllingsbúðinni er lokið á Akureyri í vor. Þráðurinn tekinn aftur upp í haust.

Plantan verður vonandi vökvuð í sumar svo hún verði í lagi næst.


Heimþrá

c_skapti_listasafn.jpg

Hannes sýnir nú heimþrá í Listsafninu. Þar er allt í drasli. Ekki að Hannes hafi ekki tekið til en óhætt er að segja að á hluta verkanna, ljósmyndunum, sé allt í drasli. Sjón er sögu ríkari.

En það var næs við opnunina á laugardaginn. Rauður ellefu prósent berjasafi í boði og fólk skrafaði í rólegheitum.


Veðrið í 603

Hlýtt, norðan gjóla, þoka í grennd. Engin gráð.

Ég játa!

Dyggur lesandi þessa unga fjölmiðils kvartaði í kvöld undan dugleysi ritstjórans við skriftir síðustu dægur.

Sekt skal hér með játuð.

Þess er jafnframt óskað að sá kæri vinur, sem samband hafði við mig, svo og aðrir sem kunna að hafa liðið ámóta kvalir og hann og neyðst til þess að horfa á sjónvarpið þegar kvölda tekur í stað þess að sitja við tölvuna, hætti við að segja upp áskriftinni. Ég verð að eiga fyrir mat handa börnunum!

Ég heiti því hér og nú að raða saman nokkrum orðum daglega í þennan fjölmiðil. Suma daga  eru annir miklar í hinni vinnunni, eða ég latur - en þá daga mun ég samt skrifa eitthvað. Stundum kannski bara stutt ljóð, en fari ljóð niður í eitt orð táknar það annað hvort afar miklar annir, eða ólæknandi leti.


KEA-veðrið

Skyldi aðalfundi KEA hafa verið frestað?

Er það kannski bara goðsögn að veðrið sé alltaf vont þegar KEA heldur aðalfundinn?

Nú er alvöru vor í lofti í höfuðstað Norðurlands, kannski sumar. Við Dóri granni fórum meira að segja út á lóð áðan.


Gott eða slæmt?

Félagi minn í Danmörku sendi mér eftirfarandi athugasemd, vegna viðskiptafréttarinnar sem ég skrifaði í gærkvöldi um bjór og miðaverð á ensku bikarúrslitaleikinn.

Hann segir:

"Skondið fyrir okkur Danina að þú berir verð miðans við verð bjórs, því þú ert væntanlega að bera saman við íslenskt verð. 95000 ísl kr myndu duga fyrir allavega 95 kössum af bjór hér í Danmörku. Reyndar ekki kassar með 1/2 líters dósum enda drekka Danir ekki slíkt, finnst það fáránlegt að gera það enda er bjórinn flatur þegar maður er hálfnaður með dósina."


Það er mikið rétt hjá Rúnari Birgi að ég ber saman verð bjórs á Íslandi við verð miðans, jafnvel þótt bloggsíðan mín sé alþjóðlegur fjölmiðill !

Ég held bara að það sé of hættulegt að miða við verð bjórs í Danmörku. Vísitalan gæti farið á skrið hér uppi á nýlendunni gömlu.

Það er svo spurning hvort það er gott eða slæmt hve marga bjóra Danir geta keypt fyrir andvirði miðans. En ég skil ekki alveg þetta með að bjórinn verði flatur - þeir drekka þá bara ekki nógu hratt !


Einhver á leið til Cardiff?

Ég kannaði verð á miðum á úrslitaleikinn í ensku bikarkeppninni, viðureign Liverpool og West Ham.

Og svo hættum við félagarnir við að fara.

Sé miðaverðið sett í samhengi við eitthvað annað er það kannski ekki ýkja hátt, og þó. Fyrir andvirði eins miða inn á völlinn gæti ég keypt um það bil 19 bjórkassa, 456 stórar dósir.

Miðinn kostaði sem sagt 700 pund, um það bil 95 þúsund krónur, á svörtum markaði hjá náunga sem er í þeim bransa þarna úti.

Með því að kaupa allan bjórinn, tveir saman, og spara þannig annan miðann og flug, lestarferð og gistingu, kæmi maður út í gríðarlegum hagnaði. Eða er það ekki?


Hvers vegna?

Röndótt í fyrra, einlitt í ár, köflótt á næsta ári.

Röndótt í gær, einlitt í dag, köflótt á morgun.

Hvers vegna ætti ég að láta einhverja blesa úti í heimi segja mér hverju er flottast að klæðast?


Til hvers?

Það skal viðurkennt að ég er lélegur raunveruleikasjónvarpsþáttaáhorfandi.

En má ég spyrja: fyrir hverja er þáttur eins og sá sem er á Skjá 1 núna, um næsta ameríska topp módelið? Eða tískuhönnunarþátturinn svipaðrar tegundar? Og hann er, nota bene, á sjálfu ríkissjónvarpinu.

Fyrir hvern eða hverja?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband