Færsluflokkur: Bækur

Flugdrekahlauparinn

Er hægt að halda því fram að bók sé illilega sár aflestrar, full af hatri og grimmd en þó falleg og yndisleg?

Þetta kann að hljóma sem hrópandi mótsögn.

En svona bók er þó til. Eða það finnst mér. Hér í þessum nýja prívat fjölmiðli mínum mælti ég um daginn með spænsku bókinni Skugga vindsins, sem er algjörlega dásamleg, en þá er ekki síður hægt að hvetja fólk til þess að lesa Flugdrekahlauparann, afgönsku söguna eftir Khaleid Hosseini sem kom út hjá JPV fyrir jólin.

Það er erfitt að lýsa þessari bók. Hún er ljót en samt svo falleg. Eitthvað það fallegasta sem ég hef lengi lesið. Og hverjum manni nauðsynleg, því hún er vegvísir til góðs.

Til að gera langa sögu stutta segi ég aðeins þetta: Lestu!


Góðan dag, barnið mitt!

Ég keypti um daginn bókina Góðan dag, barnið mitt! en þar eru birt bréf sænska leikritaskáldsins Augusts Strindberg til dótturinnar Anne-Marie sem hann átti með þriðju eiginkonu sinni. Bókin kostaði 29 krónur - íslenskar - á bókamarkaðnum í Pennanum-Bókvali á Akureyri. Hef verið að glugga í hana en veit ekki enn hvort bókin er góð. Kannski er hún bara leiðinleg. Átta mig ekki á því. En verðið var svo lágt að ég keypti tvær. Til að græða.

Senor Fermin og aðrir snillingar

Hefur þú, sem þetta sérð, lesið bókina Skuggar vindsins sem kom út fyrir jólin? Ef svo er ekki gerðu það strax, a.m.k. ef þú hefur áhuga á góðum bókum. Og jafnvel þótt þú nennir lítið að lesa. Hún er frábær. Höfundurinn spænskur og bókin gerist í Barcelona. Nauðsynleg lesning.

Fermin, sem nefndur er í fyrirsögn, er ein sögupersónan - ógleymanlegur karakter í ógleymanlegri sögu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband