Færsluflokkur: Úr myndasafni mínu

Haust

Haust við Þingvallastræti

Bróðir minn ók upp Þingvallastrætið að haustlagi fyrir hálfu öðru ári og velti því þá fyrir sér hvaða bjáni sæti þar á hækjum sér á gangstéttinni. Það var ég, að taka þessa mynd. Hún hangir nú uppi á vegg á heimili foreldra minna.


Þarna munaði mjóu

Þarna munaði mjóu

Um páskana 1980 fórum við þrír félagar, ég, Reynir og Raggi Þorvalds, í pílagrímsferð til Englands að sjá nokkra fótboltaleiki. Við sáum m.a. leik Manchester United og Liverpool á Old Trafford, þar sem heimamenn höfðu betur, 2:1. Litlu munaði að Liverpool gerði líka tvö mörk - eins og sjá má á myndinni. Jimmy Case tók aukaspyrnu fyrir utan vítateiginn og boltinn skaust rétt framhjá stönginni.

Þetta er eftirminnileg mynd. Tók hana á gömlu Konica vélina mína, sem var reyndar í hálfgerðum lamasessi, en þrátt fyrir það tókst mér að ýta á takkann á þessu hárrétta augnabliki. Sem var auðvitað bara heppni. Og vel að merkja, þetta var áður en vélarnar fóru sjálfar að mjaka filmunni áfram eftir að smellt var af. (Filmunni já, þetta var löngu áður en stafræna tæknin kom fram)

Þetta var í fyrsta skipti sem ég fékk - og við allir þrír reyndar - að athafna mig eins og alvöru ljósmyndari á fótboltavelli í útlandinu. Við lágum við hliðina á markinu eins og atvinnumennirnir og það var býsna gaman. Og það er nú svo skrýtið að enn þann dag í dag finnst mér það ákaflega skemmtilegt.

En þegar ég sýndi Gary Bailey, markverði Manchester United, myndina tveimur árum sagði hann: Vá, þarna munaði mjóu! Hvað gat hann annað sagt?

Má ég bæta einu við í lokin? Þá er það þetta: Vá, það eru 26 ár síðan! Hvað get ég annað sagt?


Að moka skít

c_documents_and_settings_owner_desktop_skitur_109.jpg
Ýmislegt taka menn til bragðs í íþróttahreyfingunni til þess að afla fjár. Við í handknattleiksdeild Þórs höfum reglulega stungið út úr fjárhúsum síðustu misseri. Myndin er tekin í einni slíkri vinnuferð á dögunum - en þarna eru menn í pásu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband