Færsluflokkur: Sjónvarp

Til hvers?

Það skal viðurkennt að ég er lélegur raunveruleikasjónvarpsþáttaáhorfandi.

En má ég spyrja: fyrir hverja er þáttur eins og sá sem er á Skjá 1 núna, um næsta ameríska topp módelið? Eða tískuhönnunarþátturinn svipaðrar tegundar? Og hann er, nota bene, á sjálfu ríkissjónvarpinu.

Fyrir hvern eða hverja?


Húsið á sléttunni

Munur að vera með DR1 í kassanum.

Konan var að fikta í fjarstýringunni og heyrist þá ekki allt í einu kunnuglegt stef og sjáum við þá ekki kunnuglegan herra Ingalls og kunnuglega Láru Ingalls - á að giska 6 ára. Det lille hus på prærien hjá danska ríkinu.

Lífið var erfitt á sléttunni. En það var voða kósí þegar þau lágu i hjónarúminu og borðuðu popp.


Mjög gott og mjög slæmt

Breskt sjónvarpsefni er örugglega það besta í heimi; allt leikna efnið, hvort sem eru bíómyndir eða framhaldsþættir og svo heimildarmyndir og þar fram eftir götunum. Svo eiga Bretar og reka bestu útvarpsstöð í heimi.

Þess vegna finnst mér ótrúlegt hve margar breskar sjónvarpsauglýsingar eru hræðilega vondar, a.m.k. þær sem sýndar eru aftur og aftur á fréttastöðinni Sky. Hefur einhver velt þessu fyrir sér? Mér finnst undarlega margar eins og búnar til fyrir algjöra bjána.


Eyja-Björk

"Bikarinn til Eyja!" sungu stuðningsmenn Fjölbrautarskólans í Vestmannaeyjum rétt í þessu í beinni útsendingu RÚV frá Söngkeppni framhaldsskólanna. Svei mér ef það verður ekki niðurstaðan. Ég er ekki frá því að Eyjastelpan sé best. Dálítið Bjarkarlegt lag, það skemmir varla fyrir.

Gréta Mjöll var líka flott.

Það eru að vísu ekki allir búnir. Við spyrjum að leikslokum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband