Fjögur núll

Einblínt á boltann
Mínir menn, Þórsarar, töpuðu fyrir KR í Boganum í deildarbikarkeppninni í kvöld. Leiknum lauk rétt í þessu. KR skoraði fjórum sinnum án þess að Þór tækist að svara. Ég sá ekki nema brot af seinni hálfleik en mér heyrðist flestir telja muninn heldur mikinn. KR-ingar skoruðu tvisvar á fyrsta kortérinu og tvö mörk seint í leiknum, þrjú þeirra eftir föst leikatriði, horn eða aukaspyrnu.

Fleiri myndir

Hvítlauksristaðar gellur

Þær eru alltaf fínar, hvítlauksristuðu gellurnar á Bautanum. Ég hefði reyndar ekkert á móti því að hvítlaukurinn réði enn frekar ríkjum á diskinum, en það er kannski ekki að marka.

Eiginkonan og elsta dóttirin eru að vinna í kvöld - báðar í veisluþjónustu Bautans á árshátíð Samherja í íþróttahöllinni - þannig að við þrjár (!) sem erum heima skelltum okkur á Bautann. Pítsa Margarita var fín og Bolognaise blaðpasta líka, en Ölmu fannst það reyndar dálítið sterkt. Mig grunar þó það hafi verið nákvæmlega eins og búast má við.


Tryggvi og Everton

Athugasemd barst í vikunni frá Tryggva Gunnarssyni stuðningsmanni knattspyrnuliðsins Everton og vel við hæfi að birta hana núna - eftir úrslit dagsins. Ég nefndi sem sagt rauðvínið Everton á dögunum og hélt það væri frá Suður-Afríku. En Tryggvi fullyrðir að það sé frá Ástralíu og ég trúi því. Það leiðréttist hér með. En bláa fótboltaliðið Everton er samt frá Liverpool, altso frá Bítlaborginni við Mersey. Það hefur ekkert breyst.


Hryllingur við Hafnarstræti

Litla hryllingsbúðin
Leikfélag Akureyrar frumsýndi Litlu hryllingsbúðina í gærkvöldi. Ég hafði ekki tíma til að sjá sýninguna en kíkti við í hléinu til þess að taka myndir af leikhúsgestum. Ekki var annað að heyra á fólki að það væri mjög sátt við verkið. Kannski er þetta enn ein sýningin hjá Magnúsi og hans fólki sem slær í gegn. Meðfylgjandi mynd, sem birtist í Mogganum í morgun, tók ég í sminkherberginu fyrir frumsýningu. Sitjandi frá vinstri: Ardís Ólöf Víkingsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Álfrún Örnólfsdóttir og standandi fyrir aftan er Esther Talía Casey.

Gaman á Goðamóti

Magnað fagn hjá Magna

Goðamót 6. flokks stráka í fótbolta er á fullu í Boganum. Allt gengur vel og krakkarnir hafa gaman af. Nokkrar stelpur eru með á mótinu, þar á meðal þessi, sem skoraði í 3:1 sigri gegn Breiðabliki 2 í keppni E-liðanna áðan.

Rosalega er gaman að þessu.


Liverpool vann

Búið að flauta af á Anfield. Rauði herinn vann 3:1. Gott mál.

Jessssssss

Hingað upp á efri hæðina í Hamri barst hátt Jesssssssssssssss rétt í þessu. Fjöldi stráka á Goðamóti 6. flokks eru að horfa á Liverpool-Everton í beinni og Harry Kewell var að skora. Frábært mark hjá Kewell - 3:1. Skömmu áður var einn rekinn út af hjá Everton líka.

Tvö eitt

Síðasta símtal var vont. Everton búið að minnka munin í 2:1.

Tvö núll

Dætur mínar eru við sjónvarpið og halda mér upplýstum um gang mála í leik Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni. Ég er í Hamri að starfa á Goðamóti Þórs í 6. flokki karla sem fram fer í Boganum. Síðasta Goðamótið okkar af þremur í vetur.

Mér leist ekki á blikuna þegar ég fékk fyrsta símtalið og var tilkynnt að Steven Gerrard hefði verið rekinn út af á 18. mín. En svo gerði Phil Neville sjálfsmark á 45. mín. og snemma í seinni hálfleik var aftur hringt; þá hafði Luis Garcia gert glæsilegt mark og komið Liverpool í 2:0.


Sögulegt stórsvig á Dalvík

Stórsvig á Landsmóti
Ég skrapp til Dalvíkur í morgun á Skíðamót Íslands fyrir Moggann, vopnaður myndavél. Þar var stórsvig karla á dagskrá en eftir að 11 fyrstu höfðu rennt sér var keppni aflýst vegna þess að OF MIKILL snjór var í brautinni. Líklega í fyrsta skipti í Íslandssögunni. Snjótroðari þurfti að moka úr brekkunni; grynnka aðeins á mjúkum snjónum. Eftir fundahöld með þjálfurum var svo ákveðið að byrja upp á nýtt. Á myndinni, sem er frá því í morgun, er Kristinn Ingi Valsson á fleygiferð í brekkunni. Hann var þriðji í ráðsröðinni en sú ferð var svo ekki talin með.

Bloggfærslur 25. mars 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband