Flugdrekahlauparinn

Er hægt að halda því fram að bók sé illilega sár aflestrar, full af hatri og grimmd en þó falleg og yndisleg?

Þetta kann að hljóma sem hrópandi mótsögn.

En svona bók er þó til. Eða það finnst mér. Hér í þessum nýja prívat fjölmiðli mínum mælti ég um daginn með spænsku bókinni Skugga vindsins, sem er algjörlega dásamleg, en þá er ekki síður hægt að hvetja fólk til þess að lesa Flugdrekahlauparann, afgönsku söguna eftir Khaleid Hosseini sem kom út hjá JPV fyrir jólin.

Það er erfitt að lýsa þessari bók. Hún er ljót en samt svo falleg. Eitthvað það fallegasta sem ég hef lengi lesið. Og hverjum manni nauðsynleg, því hún er vegvísir til góðs.

Til að gera langa sögu stutta segi ég aðeins þetta: Lestu!


Skemmtilegu Goðamóti lokið

Þrumað að marki

Goðamóti 6. flokks stráka í fótbolta er lokið í Boganum hér á Akureyri. KR-ingar unnu keppni A-liða og Þórsarar urðu í öðru sæti. Mínir menn í Þór unnu svo D-liðakeppnina.

Fréttir af mótinu, öll úrslit og fullt af myndum er að finna á heimasíðu Goðamótsins. Besta leiðin þangað er í gegnum heimasíðu Þórs: www.thorsport.is og svo er tengill þar ofarlega vinstra megin inn á Goðamót.

Meðfylgjandi mynd tók ég úrslitaleiknum á milli KR og Þórs í úrslitaleik A-liðanna.


Jólasnjór í mars

Það snjóaði fallega á Akureyri í gærkvöldi, stórar snjóflygsur liðuðust til jarðar í logninu, og enn bættist mjöll við í nótt. Maður kemst í hálfgert jólaskap. Ég vissi að það hefði borgað sig að geyma jólatréð úti á svölum til öryggis. Ekki var þó samstaða á heimilinu um þá hugmynd mína á sínum tíma, einhverra hluta vegna.

Bloggfærslur 26. mars 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband