22.4.2006 | 12:45
Síðasti heimaleikurinn og fyrsti HEIMALEIKURINN
Handboltalið Þórs tekur á móti Val í dag í DHL-deildinni í handbolta í íþróttahúsi Síðuskóla. Já, íþróttahúsi Síðuskóla. Flautað verður til leiks kl. 16.15 og eins gott að mæta tímanlega því leyfilegur fjöldi áhorfenda í salnum er mjög takmarkaður, eins og margfrægt er orðið. Þetta er síðasti heimaleikur Þórs í vetur en jafnframt fyrsti alvöru heimaleikur liðsins. Spilað verður í miðju Þórshverfinu í fyrsta skipti og því stutt að fara fyrir hina dyggu stuðningsmenn liðsins.
Ástæða þess að leikið er í Síðuskólanum í dag er sú að Íþróttahöllin við Skólastíg er upptekin. Þar fer fram lokahátíð Andrésar andar leikanna á skíðum og þess vegna var gripið til þess ráðs að velja húsið með besta gólfinu í bænum!
Þetta verður síðasti heimaleikur Axels Stefánssonar þjálfara með liðið. Hann hættir störfum í vor og heldur til Noregs í framhaldsnám, auk þess að þjálfa lið Elverum þar í landi. Ástæða er til þess að hvetja fólk til þess að koma og kveðja Axel með tilþrifum.
Ég á ekki von á því að nokkur annar viðburður skyggi á leik okkar gegn Val í dag. Leikur Liverpool og Chelsea í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta fer reyndar fram á sama tíma, en ótrúlegt þykir mér að nokkur taki hann fram yfir.
Í tilefni dagsins birti ég hér að gamni mínu nokkrar myndir sem ég hef tekið í leikjum Þórsliðsins í vetur. Til þess að sjá þær verður að ýta á fyrirsögn greinarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2006 | 11:51
"Ég er ekki vanur að fara svona hægt"
Stjarna dagsins í gær var Karen Sigurbjörnsdóttir frá Akureyri, sem sigraði í stórsvigi í 12 ára flokki en daginn áður fagnaði hún sigri í svigi. Líkast til má segja að Karen sé að miklu leyti alin upp í Hlíðarfjalli, en móðurafi hennar, Ívar Sigmundsson, var lengi staðarhaldari á Skíðastöðum. Ívar er einn ólympíufara Íslands, keppti á leikunum 1968.
- - - - -
Þessi greinarstúfur birtist í Morgunblaðinu í dag og myndin með. Hún er reyndar fallegri svona, þegar skíðahótelið og Akureyrarbær eru ekki skorin af, eins og gert var í blaðinu.
Fleiri myndir - m.a. af Karen Sigurbjörnsdóttur á fullri ferð í stórsvigsbrautinni er að finna hér með. Þær sjást með því að smella á fyrirsögn greinarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)