8.8.2006 | 08:38
Ágætis endir . . .
Ásbyrgi Park verður kannski nefndur í sömu andrá héðan í frá og Hyde Park í London og Central Park í New York þegar eftirminnilega tónleika ber á góma. Ég fullyrði að minnsta kosti að veisla Sigur Rósar í náttúruundrinu í þjóðgarðinum fyrir austan á eftir að lifa lengi í minningunni og umgjörðin verður varla fegurri. Ein mynd birtist með grein minni í Morgunblaðinu í dag um upplifunina í Ásbyrgi og þessum pistli hér á blogginu fylgir slatti í viðbót. Ég leyfði mér að segja í blaðinu í dag að hversdagsleg stund undir hundrað metra háum hamraveggnum innst í Ásbyrgi sé yndisleg í góðu veðri en þegar tvö stórbrotin náttúrufyrirbæri - Ásbyrgi og Sigur Rós - verði eitt um stund geti útkoman ekki orðið annað en ógleymanleg; allt að því ólýsanleg.
Föstudagskvöldið síðasta viðraði vel til tónlistarlegra loftárása í náttúruperlunni í Kelduhverfi þó svo hann mígrigndi skammt vestar á Tjörnesinu nokkru áður. Um 20 stiga hiti var í byrginu um kvöldmatarleytið.
Áður en rökkva tók drógu krakkar rauða flugdreka á loft eða léku sér í fótbolta í góða veðrinu og ekki bærðist hár á höfði þegar Sigur Rós hóf leik um klukkan hálf tíu.
Talið er að um fjögur þúsund manns hafi verið saman komnir til þess að hlýða á meistarana í þessari mögnuðustu hljómsveit samtímans hérlendis og þótt víðar væri leitað.
Í forrétt hafði verið boðið upp á þriggja stundarfjórðunga göngutúr frá tjaldstæðinu yst í byrginu og sama leið á tveimur jafnfljótum til baka var svo í eftirrétt laust eftir miðnætti.
Aðalrétturinn var framborinn undir hamraveggnum, í landsins besta tónlistarsal ef að líkum lætur. Sal sem kostaði ekki krónu! Og þvílíkar kræsingar; fimm stjörnur fyrir hráefni, matreiðslu og þjónustu. Ein að auki fyrir "salinn" og sú sjöunda fyrir veðrið! Fullkomin kvöldstund.
Þetta voru síðustu tónleikar Sigur Rósar á rúmlega eins árs löngu ferðalagi um gjörvalla heimsbyggðina, en þreyta var ekki merkjanleg. Tónlistarmennirnir virtust njóta stundarinnar eins og þeir sem utan sviðsins stóðu.
Lög af Ágætis byrjun, ( ) og Takk hljómuðu í nærri tvo og hálfan klukkutíma og allir fóru sáttir heim. Það eina góða við að tónleikunum lauk, að mínu mati, var að með hverri mínútu þaðan í frá styttist í að hægt verði að eignast þá á geisladiski eða DVD!
Að lokum er vel við hæfi að segja: Takk, þetta var Ágætis endir.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.