Rusl

Það er óþolandi að sjá fólk henda rusli á almannafæri, sígarettustubbum út úr bíl á ferð, umbúðum af mat og fleiru af því tagi. Hvernig í óskpunum getur fólk ekki hent ruslinu í þar til gerð ílát?
Mér hefur lengi blöskrað og leyfi mér að fá lánaðan annan leiðara Morgunblaðins í gær og lýsa því að þar er hvert orð eins og talað úr mínu hjarta.
- - - - - - - - - - - - -
Leiðarinn er svona:
Í eina tíð þótti sjálfsagt að henda öllu drasli, sem hægt var að henda, út um bílglugga. Svo var gert mikið átak í að ala þjóðina upp og kenna henni að henda rusli í öskutunnur en ekki út á götu. Það tókst ótrúlega vel og í langan tíma heyrði það til undantekninga, ef fólk sást henda rusli út um bílglugga. En það er ekki lengur svo.

Nú er það nánast daglegt brauð, að fólk - og þá alveg sérstaklega ungt fólk - hendi rusli út á götu. Enda ber höfuðborgin þess merki eins og sjá má hér og þar. Átak Reykjavíkurborgar til þess að reyna að hafa jákvæð áhrif á það fólk, sem stundar þessa iðju, er þakkarvert en sennilega þarf miklu meira til.

Í raun og veru er óskiljanlegt, hvernig fólki dettur í hug að haga sér með þessum hætti. Er hin vel menntaða unga kynslóð kannski ekkert vel menntuð og þaðan af síður vel upp alin?

Er þetta kynslóðin, sem ætlar að taka að sér að vernda náttúru Íslands fyrir alls kyns eyðileggingaröflum?!

Fyrir utan marga vinnustaði má sjá afleiðingar af reykingum starfsmanna utan dyra. Umgengnin við næsta nágrenni vinnustaðarins er ekki upp á marga fiska.

Það er alveg ljóst að hér þarf nýtt átak og sennilega stöðugt átak. Það þarf að vera hluti af námsefni á öllum skólastigum að innræta ungu fólki mikilvægi þess að ganga vel um umhverfi sitt, hvort sem er skólann, skólalóðina, heimili sitt, vinnustað eða annað umhverfi.

Það þýðir lítið að tala um umhverfisvernd með fögrum orðum, ef við getum ekki einu sinni kennt ungu fólki að henda ekki rusli út um bílglugga.

Ruslið er greinilega að vaxa bæði höfuðborginni og nágrannasveitarfélögum yfir höfuð. Við erum að kafna í rusli, ekki sízt því, sem verður til eftir viðskipti við svonefnda skyndibitastaði.

Er ekki líklegt að ruslið verði að kosningamáli í vor?

- - - - - - - - - - - - -
Þetta eru orð í tíma töluð og eiga því miður ekki aðeins við um Reykjavík. Sama ádrepa er þörf í Akureyrarborg við fjörðinn fagra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband