6.9.2006 | 10:03
Að halda sér á jörðinni
Það er eflaust eins og að bera vatn í bakkafullan læk að tjá sig um sigur Íslands á Norður-Írlandi í undankeppni EM á laugardaginn, en ég stenst þó ekki mátið.
Mér er til efs að íslenskt landslið hafi leikið betur á útivelli í riðlakeppni stórmóts en í fyrri hálfleiknum í Belfast. Frammistaðan var allt að því fullkomin, eins og mig minnir Eyjólfur Sverrisson, þjálfari liðsins, hafi sagt í Belfast. Liðið var einfaldlega frábært.
Það var ótrúlegt að fylgjast með leiknum í sjónvarpinu; hvernig Íslendingar héldu boltanum og léku honum á milli sín af miklu öryggi. Heimamenn hlupu um, reyndu að ná tuðrunni af gestum sínum en gekk illa. Í gegnum árin hefur þessu oft verið öfugt farið.
Íslendingar vörðust afskaplega vel, allir sem einn, og sóknarleikurinn var líka til fyrirmyndar - enda gerði liðið þrjú mörk í fyrri hálfleiknum.
Vissulega verður að hafa í huga að Norður-Írar eru slakari en ýmsir andstæðingar Íslendinga í gegnum tíðina og samanburður því ekki sanngjarn að öllu leyti. En það er oft meira en að segja það að vinna lið sem eru ekki talin sérstaklega góð. Það er eldgömul staðreynd en sígild. Hvað þá á útivelli. Og hafa verður í huga að Ísland er langt á eftir Norður-Írlandi á títtnefndum styrkleikalista FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins. Íslenska liðið er sem sagt ekki sérlega hátt skrifað í knattspyrnuheiminum frekar en áður, en sýndi í Belfast hvers það er megnugt þegar hugur fylgir máli og allir leggjast á eitt.
Skiljanlegt er að þjóðin bíði spennt eftir leiknum við Dani í kvöld í Laugardalnum. Fólk verður samt að passa sig. Það hefur oft komið okkur í koll að fyllast mikilli bjartsýni; gott dæmi um það er þegar Ísland tók á móti Austur-Þýskalandi í Laugardalnum fyrir nítján árum, sumarið 1987, í undankeppni EM. Allar okkar skærustu stjörnur voru með, þjóðin þekkti lítið til austur-þýska liðsins og bjartsýnin var mikil. En í leikslok var sigurbrosið frosið, gestirnir sigruðu 6:0.
Síðast þegar Ísland og Danmörk mættust urðum við einnig að sætta okkur við 6:0 tap, á Parken í Kaupmannahöfn í undankeppni HM. Fyrirliði Íslands þá var Eyjólfur Sverrisson og þetta var síðasti leikur hans sem leikmanns með landsliðinu. Hann er nú tekinn við stjórnvelinum sem þjálfari og er í meðbyr eftir frábæra byrjun í Belfast. Áætlun hans gekk fullkomlega upp þar, vonanandi verður það sama upp á tengingnum í kvöld og fróðlegt að sjá hvort hann á eftir að koma Dönum á óvart.
Hæfaleikaríkasti knattspyrnumaðurinn á Windsor Park í Belfast á laugardaginn var íslenskur, Eiður Smári Guðjohnsen, og enginn stendur honum framar í danska liðinu - þrátt fyrir stjörnum prýddan hóp frænda vorra. En það er alls ekki nóg. Liðsheildin skiptir mestu máli, hún var ótrúlega sterk í Belfast og hrein unun að sjá hvernig varnarmenn, miðvallarleikmenn og sóknarmenn unnu saman, vörðust og sóttu sem einn maður, og ef liðið leikur jafnvel í kvöld og þá, getur allt gerst. En vara verður við of mikilli bjartsýni. Við höfum aldrei unnið Dani á knattspyrnuvelli. Ekki enn...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.