Anja Andersen

Daninn Anja Andersen, þjálfari Slagelse og líklega fremsta handboltakona sögunnar, komst í fréttirnar á dögunum þegar hún gekk af velli með lið sitt í deildarleik heima í Danmörku. Hún trylltist af bræði og hefur nú verið úrskurðuð í langt keppnisbann.

Einn skemmtilegasti handboltaleikur sem ég hef séð um ævina var úrslitaleikur kvenna í Atlanta 1996, þegar Danir sigruðu þáverandi heims- og ólympíumeistara Suður Kóreu. Þar fór Anja á kostum.

Ég var að glugga í það sem ég skrifaði í Moggann frá Atlanta. Þetta sagði ég m.a. eftir úrslitaleikinn:

"Þegar fimm sekúndur voru eftir af úrslitaleik Danmerkur og Suður-Kóreu í handknattleik kvenna og staðan jöfn var dæmt vítakast á heimsmeistarana. Það var Anja Jul Andersen, að mínu mati besti leikmaður Dana - frábær handboltakona, þó skapið hlaupi stundum með hana í gönur - sem braust í gegn af harðfylgi og vítakast var hárréttur dómur.

Vel var við hæfi að Anja tryggði Dönum gullið með þessum hætti; fiskaði víti og skoraði úr því sjálf. Hún stillti sér upp við vítalínuna, sveiflaði hægri hendinni fimlega og knötturinn sveif í átt að marki. Gullbjarma hafði slegið af brosi þeirra dönsku þegar vítið var dæmt, en skyndilega var eins og grá og kuldaleg stálslykja færðist yfir andlit þeirra. Kóreski markvörðurinn gerði sér nefnilega lítið fyrir og varði gott skot Önju, staðan var því enn 29:29 og framlenging óumflýjanleg.

"Mér fannst miklu betra að vinna með fjórum mörkum en einu!" sagði Anja á blaðamannafundi eftir leikinn - brosandi - en var fljót að bæta við, til að móðga engan: "Nei, bara að grínast!" En hún mátti líka alveg gantast þá. Danir voru sem sagt miklu betri í framlengingunni, sigruðu 37:33 og Anja, Camilla Andersen og markvörðurinn Susanne Lauritsen voru þær bestu í glæsilegum hópi þeirra."

Þótt Anja sé skapmikil hef ég alltaf haft gaman af henni. Hún gefur handboltalífinu sannarlega lit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála, ein af þeim sem elskar að vera hötuð. Flottur karakter.

Geir Kr. (IP-tala skráð) 28.3.2006 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband