Enn af B og B

Athugasemd barst inn á bloggið mitt frá "afa" sem finnst vænt um að eiginkonan hafði vit fyrir mér þannig að ég henti ekki bókinni Benni og Bára. Hann er á því að bókin eigi eftir að koma sér vel og bendir mér á að athuga hvort ég finni ekki Græna hattinn, Bláu könnuna, Tralla og fleiri slíkar góðar bækur.

Það er nú svo skrýtið að á heimili mínu er allur þessi flokkur til. Ég komst að því í gærkvöldi að bókaflokkurinn ber nafnið Skemmtilegu smábarnabækurnar og ég hef í gegnum tíðina haft mjög gaman af að lesa fyrir börnin mín Græna hattinn, Bláu könnuna, Tralla og ótalmargar aðrar, líklega allar "skemmtilegu smábarnabækurnar" - nema þessa einu, Benni og Bára, sem ég hreinlega þoli ekki. Kannski er erfitt að skýra út hvers vegna, en best að koma því að strax að, að eiginkonan er á sama máli...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Elsku frændi

Hvað á nú þetta að þýða, þolirðu ekki Benna og Báru? Þetta er bókmenntaperla! Í henni eru fleygar setningar sem ég nota oft, þegar ég vil sýna þekkingu mína á heimsbókmenntunum.
Hvað með þessa:

"Nú er ég loksins tilbúin!"

Geturðu neitað því að þetta sé snilld? Hefurðu þetta ekki iðulega eftir sjálfur?
Allur þessi bókaflokkur er uppfullur af ódauðlegum orðum, sem hafa fylgt mér alla tíð frá því að ég las þær fyrst á Barónsborg.
Hvað með Stubb?:

"Mig langar líka í epli"

Ég er viss um að þú hefur oft og einatt vitnað í hann, þótt þú hafir augljóslega ekki gert þér grein fyrir því að þarna værirðu einmit að draga fram í þér fagurkerann og bókmenntaunnandann.
Bestur hefur mér þó alltaf þótt Láki - því hann býr í okkur öllum, eins og glöggt kemur fram í sögunni og speglast vel í upphafi hennar, laust fyrir frekar slöpp hvörf af höfundarins hálfu, sem nánast drepa ævintýralega krassandi og áhugaverða framvinduna.

"Það er gaman að vera vondur!"

Þetta er setning sem ætti að rata inn í sérhverja bók með fleygustu setningum bókmenntanna, svo djúpstæð áhrif hefur hún haft á mig, og nánast alla sem ég þekki, - og gott ef ekki bara mannkynið allt.

Þín frænka í dýrðinni á Grikklandi,
Begga

Bergþóra Jónsdóttir, 20.4.2006 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband