Útvarp Útópía

Mér datt í hug í morgun að birta hér gamlan Viðhorfspistil  sem ég skrifaði í  Morgunblaðið. Eitt og annað í þessum pistli frá 1998 er reyndar orðið úrelt, nefndir eru þættir, jafnvel stöðvar, sem heyra sögunni til, en grunnhugsunin á enn við. Hún á enn erindi við samfélag okkar og upplagt að dusta rykið af þessum orðum þegar umfjöllun um nýtt fjölmiðlafrumvarp er í algleymingi.

 

Pistilinn er hér að neðan.

 

- - - - - -

 

Sú var tíð að ein útvarpsstöð var starfrækt á Íslandi; Útvarp Reykjavík, góðan dag, sagði þulurinn blíðlega klukkan sjö að morgni. Mig minnir hún hafi ekki einu sinni heitið Rás 1 þá, stöðin sem varpaði af Skúlagötu 4, heldur var bara talað um Ríkisútvarpið, það nægði. Ekki get ég tekið svo djúpt í árinni að enn sé einungis ein útvarpsstöð starfrækt á Íslandi, en get í það minnsta fullyrt að ein finnst mér langbest; sú gamla góða.

 


Rás 1 er einfaldlega frábær útvarpsstöð. Eftir því sem íslenskum rásum fjölgar verður það sífellt ljósara hve gamla Gufan, sem stundum er kölluð svo, ber höfuð og herðar yfir aðrar. Magnið hefur aukist gríðarlega í kjölfar frjálsræðis á þessum vettvangi, en synd væri að halda því fram að gæðin hefðu aukist í réttu hlutfalli. Auðvitað var deginum ljósara á sínum tíma að úrvalið varð að aukast ­ þjóðin er ekki svo einsleit að allir geti ætíð hlustað á sömu útvarpsstöðina, og tíðarandinn kallaði á að léttri tónlist yrði gefið meira rými á öldum ljósvakans.

 

Gæði er auðvitað afstætt hugtak, en útvarpsstöð getur varla talist alvöru stöð ef ekki er boðið upp á annað en tónlist allan sólarhringinn og varla nokkurt orð af viti á milli laga. Eða hvað? Útvarp sem miðill hlýtur að vera þess eðlis að fólk eigi að geta hlustað á það. Þó má halda því fram að stöð þjóni tilgangi, að minnsta kosti hluta úr degi, ef hún heyrist ­ þá sem undirspil í fjarska ­ en stöð sem hægt er að hlusta á , eins og Rás 1, er hægt að kalla Útvarp, með stóru ú-i. Það er rás hins hugsandi manns, eins og Páll Heiðar Jónsson kemst stundum að orði í þáttum sínum. Líkt og ákveðin dagblöð mætti kalla dagblöð hins hugsandi manns, að mínu mati, en ég kýs að fara ekki nánar út í það hér.

 


Íslendingar eiga marga mjög góða útvarpsmenn, en þeir eru því miður enn of margir sem ekki geta fallið undir þá skilgreiningu. Einhver kann að spyrja: við hvað miðar maðurinn? Hver er góður útvarpsmaður og hver slæmur? Svar: í fyrsta lagi verður útvarpsmaður á íslenskri útvarpsstöð, sem vill teljast góður í starfi, að geta talað lýtalausa, eða a.m.k. lýtalitla, íslensku. Og því er einfaldlega ekki að heilsa í öllum tilfellum. Málið er lítið flóknara en það. Og einhver snefill af skynsemi skemmir heldur ekki fyrir; það er ekki ­ þegar vel er að gáð ­ alveg sama hvað fólk lætur út úr sér í útvarpi, frekar en annars staðar.

 

Margt gott má segja um aðrar stöðvar. Rás 2 ríkisútvarpsins fer mjög vel af stað að morgni virkra daga með góðum þætti frá klukkan sex til níu og þeir tónlistarþættir sem fylgja í kjölfarið, fyrir og eftir hádegi, standa vel fyrir sínu ­ sem slíkir. Dægurmálaútvarpið á Rás 2 er líka oft gott og sama er að segja af morgunútvarpi Bylgjunnar og síðdegisþætti hennar, Þjóðbrautinni. Sunnudagskaffið á Rás 2 á sunnudögum er jafnan athyglisvert innlegg í umræðuna og svo mætti áfram telja. Klassík FM má heldur ekki gleymast í þessari upptalningu, sú stöð er frábær og sannarlega tímabær þegar hún varð að veruleika. Þar er aðdáendum klassískrar tónlistar boðið til veislu alla daga og þó Rás 1 sinni sígildri tónlist vel var Klassík FM nauðsynleg. Vonbrigðum verð ég þó að lýsa yfir því hve lítinn sess djassinn skipar í dagskrá stöðvanna, aðeins einn þáttur á viku er á Rás 1 ­ mjög góður þáttur, reyndar, en það er engan veginn nóg til að fullnægja þörfum þeirra sem þeirri yndislegu tónlist unna.

 

Fjölmiðlar eru ákaflega misjafnir, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sá sem þetta skrifar getur auðvitað ekki talist hlutlaus og ekki fer á milli hvaða dagblað hann telur það besta hérlendis. Dagblöð þarf að vera hægt að lesa en sum eru þannig samansett ­ til að mynda einstaka götublöð, svokölluð, í útlandinu ­ að lítið er á þeim að græða. Þau eru eins konar fletti- blöð, þar sem uppsláttarfréttir og stórar myndir fylla nánast allt pláss. Fólk skoðar slík blöð. Ég vil geta lesið dagblöð og fræðst af því sem þar er að finna. Það er ekki nóg að fletta, og að sama skapi er ekki nóg ­ nema sem undirspil í fjarska, eins og nefnt var að framan ­ að heyra í útvarpi. Og útvarp er að mínu mati einmitt alltof oft einungis boðlegt sem undirspil.

 

Sumar hinna útvarpsstöðvanna sinna hlutverkum sínum mjög vel að mínu mati en engan veikan hlekk er að finna í dagskrá Rásar 1. Dagskráin er fjölbreytt, vönduð og metnaðarfull. Ekkert má missa sín sem þar er fyrir hendi; samtalsþættirnir, lestur sagna bæði fyrir börn og fullorðna og geysilegur fróðleikur af margvíslegu tagi. Og hvers konar hugsanlegri menningu eru einnig gerð einkar góð skil á Rás 1; sérstakir þættir eru tileinkaðir sígildri tónlist, bæði snemma morguns og síðla dags. Að ógleymdu ýmsu skemmtilegu efni úr svæðisútvörpunum, sent út á Rás 1.

 

Ætíð þegar einhver viðrar þá skoðun að selja beri ríkisútvarpið verður mér hugsað til Gufunnar. Útvarp, eins og aðrir fjölmiðlar, á að vera metnaðarfullt. Slíkt kostar vissulega peninga og engin stöð önnur en Rás 1 getur líklega sinnt allri þeirri menningu og þjóðfélagsumræðu sem hún gerir. Óhjákvæmilegt er því að sú stöð að minnsta kosti verði áfram í eigu ríkisins, eða rekin á kostnað þess. Því fé sem í reksturinn fer er vel varið. Rás 1 má ekki skemma, aldrei nokkurn tíma. Þjóðin á hana skilið.



VIÐHORF úr Morgunblaðinu, Útvarp Útópía, laugardaginn 14. nóvember 1998


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Sæll Skapti!

Ég er svo sem sammála þér um margt. En auðvitað ekki um allt. Ég held til dæmis að rás eitt gæti verið enn betri, þótt þar sé margt úrvalsfólk. Ég held líka að Ríkisútvarpið hefði gott af alvöru samkeppni t.d. við rás 1. En því miður virðast einkafyrirtæki ekki hafa áhuga né getu til þess að efna til hennar. Talstöðin var slík tilraun en var ekki haldið úti nema í rúmt misseri, þar til hún var drepin með froðu. Ekki sýnist manni neitt bóla á vilja til þess að efla raunverulega dagskrárgerð í útvarpi á þeim bæ.

Ég er sem sagt að mestu sammála þér um rás 1. En ég held að RÚV eigi ekki endilega að binda þjónustu sína við þá sem vilja síðdegissögur, symfóníur og fréttaþætti. RÚV á að þjóna þjóðinni allri, sama hvaða smekk hún hefur. Að sínu leyti má færa að því rök að hlutverk RÚV sé jafnvel enn mikilvægara í dægurmálunum. Til dæmis með því að standa að flutningi vandaðrar íslenskrar dægurtónlistar og örva nýsköpun hjá ungu fólki. Þá þurfa nokkur þúsund íslenskir sjómenn og verkamenn líka afþreyingu við störf sín og mikilvægt að vel sé að því staðið. RÚV má sem sagt aldrei verða klíkuútvarp menningarvitanna í höfuðborginni. Og það má ekki vera, sem það hefur verið um allt of langan tíma pólitísk útungunarstöð stjórnmálaflokks.

Sigurður G. Tómasson, 29.4.2006 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband