26.2.2007 | 16:43
Rumsk
Ég var eiginlega alveg ákveðinn í því að hætta að blogga. Hreinlega nenni því ekki og þeir eru líka svo margir orðnir, bloggararnir, að það getur ekki verið að til sé fólk sem nennir að lesa þetta allt saman. En þegar ég villtist inn á bloggið mitt í dag biðu þar tveir staðfestingar á því hvort þeir mættu verða bloggvinir mínir og ég sagði auðvitað já því það er alltaf gaman að eignast vini. Þó þessi tvö þekki ég ágætlega eru þeir samt nýir vinir mínir, nýir bloggvinir.
Annars er það af mér að frétta að ég sat nánast stjarfur við tölvuna alla helgina og bloggaði! Ha?! Jú, hárrétt. Hér á Akureyri héldum við Þórsarar Goðamót í fótbolta fyrir 4. og 5. flokk stelpna í Boganum og ég var á hlaupum með myndavélina frá því klukkan fjögur á föstudaginn og þangað til seinni partinn í gær. Ef einhver vill kíkja á síðuna er slóðin www.godamot.blog.is en þar eru alls konar litlar fréttir af mótinu og úrslit og rúmlega 600 ljósmyndir sem ég tók úr leikjum og af liðum og áhorfendum og starfsmönnum og fólki að borða pylsur í mótslok!
Á síðunni birti ég meira að segja kveðskap; hagyrðingurinn kunni Björn Ingólfssson, fyrrverandi skólastjóri á Grenivík, fylgdist með Magnastúlkunum á mótinu og ég skipaði hann umsvifalaust hagyrðing Goðamótsins. Þessi vísa varð til eftir að hann sá hvað stelpurnar voru flinkar í fótbolta.
Telpur hafa takkaskóna
tekið fram og þykir gaman.
Best er fyrir Barcelona
að byrja nú að pakka saman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2007 | 22:36
Vaknaður
Jæja, sagð'ann þegar'ann vaknaði. Sagði ekki meira þann daginn.
Þannig töluðu þeir í sveitinni þegar ég var strákur. Lítill - altso minni. Er enn lítill... Það var góð sveit, þar sem ég var nokkur sumur í kringum 70, plús mínus 10 ára. Frábær lífsreynsla að vera þarna og góður skóli.
Ég er að hugsa um að byrja að blogga aftur. Kannski af því ég skellti Sigur Rós í græjurnar og heddfóni á eyrun. Veit það ekki. En Takk... versnar ekki þó hlustað sé á hana aftur og aftur.
Það er langt síðan síðast, og margir hafa kvartað. "Komið að máli við mig" eins og gjarnan er sagt.
Sjáum til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.1.2007 | 14:47
Af stað
Þessi litli fjölmiðill hefur verið í fríi síðan um miðjan desember, aðallega vegna anna starfsmannsins við önnur störf. Mig langar að "tala" hér - ef svo má segja - um alls konur hluti nú í byrjun árs en það er varla að ég nenni því. Og skömm er frá að segja.
Kann einhver ráð til þess að snúa manni eins og mér í gang?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.12.2006 | 20:09
Fyndið
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2006 | 19:51
Vonbrigði
Það var sárt að tapa fyrir Fram í bikarkeppninni í handbolta í gærkvöldi. Munurinn í lokin var aðeins eitt mark og Akureyringar, mínir menn, stóðu sig að mörgu leyti mjög vel.
En það voru auðvitað gríðarleg vonbrigði að tapa, og sömuleiðis varð ég fyrir miklum vonbrigðum hve fáir mættu á leikinn. Leikir Manchester United og Arsenal í Meistaradeildinni í fótbolta hafa líklega haft af okkur töluverðan hóp, kannski sat fólk heima vegna tapsins gegn ÍR um síðustu helgi en ég trúi því þó varla. Þegar liðið átti möguleika á að komast í undanúrslit bikarkeppninnar strax á fyrsta vetri átti ég satt að segja von á því að fólk fjölmennti.
Og ég verð að andæfa því sem skrifari á heimasíðu okkar - www.akureyri-hand.is, sem er langbesta handboltasíða á Íslandi - segir, að leikurinn hafi verið lítið auglýstur. Leikur með Akureyri hefur aldrei verið jafn vel auglýstur og þessi eða komið á framfæri með öðrum hætti; mun fleiri auglýsingar voru hengdar upp í bænum en áður, lesnar auglýsingar hljómuðu bæði á Bylgjunni og Rás 2 á leikdegi, og svæðisútvarp ríkisins var með beina útsendingu úr KA-heimilinu síðdegis þar sem talað var við Rúnar Sigtryggsson þjálfara og leikmann liðsins og tvo harða stuðningsmenn.
Þeim sem komu á leikinn er þakkaður stuðningurinn en ég vona að fleiri láti sig í baráttunni sem framundan er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2006 | 19:41
Mikilvægt skref hjá Eiði
Það var frábært að fylgjast með Eiði Smára með Barcelona gegn Werder Bremen. Ég hef ekki haft tíma til að blogga síðan en verð að leyfa mér að segja að þessi leikur var stórt skref hjá honum; nú sýndi hann stuðningsmönnum Evrópumeistaranna virkilega hvað í sér býr og að hann getur verið einn af lykilmönnum liðsins.
Markið sem hann gerði var flott og spretturinn áður en hann skaut í stöngina í leiknum var auðvitað algjörlega frábær, en ég verð þó að segja að mér fannst Fréttablaðið taka heldur djúpt í árinni með þessari lýsingu á atvikinu:
"En á 35. mínútu átti sér stað atvik sem hefði hugsanlega getað orðið eitt af merkustu augnablikum íslenskrar íþróttasögu."
Sannarlega frábær tilþrif, en menn mega ekki gleyma fræknum sigrum Íslendinga í gegnum tíðina. Það gæti hins vegar orðið eitt af skemmtilegustu, jafnvel merkustu, augnablikum íslenskrar íþróttasögu þegar Eiður Smári leiðir Barcelona til sigurs í Meistaradeildinni - og skorar jafnvel sigurmarkið!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2006 | 19:30
www.france24.com
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2006 | 18:33
Hræðileg úrslit
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2006 | 18:29
Pinochet
Loksins góðar fréttir af Pinochet. Hann virðist á beinustu leið niður...
Öfgamenn eru vondir, hvort sem er til hægri eða vinstri, út eða suður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)