Il Postino

Yndisleg bíómynd, Il Postino með Philippe Noiret og Massimo Troisi. Sá hana fyrir mörgum árum og keypti svo á útsölu í Hagkaupum á dögunum.

Troisi leikur feiminn bréfbera á afskekktri ítalskri eyju en Noiret fer með hlutverk Pablo Neruda, Nóbelsskáldsins frá Chile. Og hann fær mörg bréf!

Segja má að Troisi hafi sagt sitt síðasta orð í myndinni eða því sem næst. Hann hafði verið eitthvað slappur karlinn meðan myndin var tekin upp, afþakkaði auka hvíldardaga því hann vildi klára verkefnið - og dó svo daginn eftir að tökum lauk!


Tsjökk Berrí

Fréttavefur Morgunblaðsins, www.mbl.is, segir frá því í dag að bandaríski rokkarinn Chuck Berry varð áttræður í gær.

Ég sá kappann spila Johnny B. Goode og fleiri slagara á djasshátíð (!) í Nice á frönsku rívíerunni sumarið 1982. Þá hefur hann sem sagt verið 56 ára og var alveg í banastuði. Dansaði um á öðrum fæti fram og til baka um sviðið á meðan hann lék á gítarinn eins og hann var frægur fyrir, og er kannski enn. Flottur!

Ég vissi reyndar aldrei hvað hann var að gera á djasshátíð, en það er önnur saga. Jú, hann var víst bara gestur. En þarna sá ég líka Dizzy Gillespie spila á trompetinn. Hafði svo sem ekkert sérstaklega gaman af honum, en karlinn var flinkur. En er nú löngu dauður.

Þarna í Nice, sumarið sem ég stúderaði frönsku í sólinni, var ég með Viðari og Kristjönu. Við vorum saman á Hvítlaukshöfða - Cap d'Ail - þetta sumar. Seinna heimsótti ég þau oft á Laugaveginn eftir að ég flutti í borgina, en hef ekki séð þau í mörg ár. Hvar ætli þau séu niður komin?


DC

Washington DC - dísí, eins og þeir segja þar - er skemmtileg borg og vinaleg. Ég var þar í síðustu viku og væri meira en til í að sækja hana aftur heim. Þar virðist allt reyndar dálítið dýrara en t.d. í New York, sem virðist eðli borga þar sem margskonar stjórnsýsla er vistuð. Í DC er auðvitað Hvíta húsið, ráðuneytin öll, þingið og alls kyns aðrar opinberar stofnanir, fyrir utan öll erlendu sendiráðin.

Góður staður Washington, og stutt að fara inn í borgina frá Baltimore flugvelli þangað sem Icelandair flýgur. Völlurinn er reyndar kenndur við báðar borgar, Washington og Baltimore og frá vellinum og niður í miðbæ höfuðstaðarins er ekki nema álíka langt og frá Keflavík til Reykjavíkur.


West Ham

Það verður spennandi hvort hópi þeirra bissnessmanna sem Eggert Magnússon fer fyrir tekst að kaupa West Ham. Sagt er að norrænn bankamaður standi á bak við Eggert. Mér finnst ólíklegt að það sé Sveinn Pálsson í Íslenskum verðbréfum, og þó - hann heldur með West Ham...

Fyrst Eiður er farinn frá Chelsea væri allt í lagi að taka annað Lundúnalið í fóstur. Ég hætti aldrei að halda með Liverpool - en það væri OK að eiga varalið í höfuðborginni.

Ég sá leik með West Ham á Upton Park um páskana 1979 en get ekki sagt að ég tengist félaginu neinum böndum. Nema kannski vegna þess að liðið hefur alltaf spilað skemmtilegan fótbolta.


Kominn heim

Ég er kominn aftur heim og ætti að geta bloggað eitthvað á ný - ef ég nenni!

Gott að mínir menn í liði Akureyrar náðu jafntefli gegn Haukum í Hafnarfirði í gærkvöldi, eftir að hafa lent mest fimm mörkum undir í seinni hálfleiknum. Ég er ánægður með strákana. Sævar Árna, annar þjálfaranna, segir að vísu í Mogganum að liðið hafi verið "hrikalega lélegt"  og þá kalla ég það gott að gera jafntefli við Hauka á útivelli. Ég hlakka til þegar liðið fer að spila vel!


Flottur sigur

Ég þurfti óvænt að skreppa til útlandsins og missti því af fyrsta heimaleik Akureyrar, nýja handboltaliðsins okkar í höfuðstað Norðurlands. Ég ætti kannski alltaf að vera í burtu; strákarnir unnu ÍR-inga örugglega og miðað við lýsingar sem ég hef heyrt og frásögnina á heimasíðunni okkar hefur þetta verið frábær dagur.

 

Ég leyfi mér enn og aftur að vekja athygli á heimasíðu Akureyrarliðsins: www.akureyri-hand.is þar sem fjallað er á ótrúlega glæsilegan hátt um leikinn í dag.


Sammála Pétri

Hárrétt ábending hjá Pétri Gunnarssyni á blogginu í dag -  http://www.petrum.blogspot.com/ - og ég velti því fyrir mér hvort háeffun RÚV breyti einhverju eða hvort Palli og hans fólk verði skyldað til þess að bjóða upp á innihaldsríkar ræður eldhússdagsins áfram? Hefur áhorf á eldhússdaginn einhvern tíma verið mælt?


Flottur

Forsíða El Mundo Deportivo í dag

Eins dauði er annars brauð, Eto'o meiðist og Eiður fær sénsinn í byrjunarliðinu. Og leikur auðvitað frábærlega. Í gær er hann á forsíðu Barcelonablaðanna El Mundo Deportivo, Sport og La Vanguardia. Og í dag aftur á forsíðu El Mundo.


Fleiri myndir

GVS

Gaui fyrrverandi nágranni minn af Nesinu stóð sig þokkalega.... Gerði sextán mörk á móti Fram. Til hamingju með sigurinn, venur.


Til hamingju, Kristján

Ég á marga KR-inga fyrir vini og það var auðvitað leiðinlegt fyrir þá að tapa bikarúrslitaleiknum í fótbolta fyrir Keflavík í gær. En í herbúðum Suðurnesjaliðsins á ég líka vin, þann mikla sómapilt Kristján Guðmundsson, þjálfara, og sendi honum hér með sérstakar hamingjuóskir!

Drengur! Þetta var glæsilegt!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband