Færsluflokkur: Bloggar

Svipmyndir úr Svíþjóðarferð

c_documents_and_settings_owner_desktop_i_skolanum.jpg

Við skruppum til Svíþjóðar um daginn, ég, Sirra, Alma og Sara. Arna var heima enda á fullu í MA. Það var kalt á Skáni, snjór yfir öllu og ég náði mér auðvitað í býsna gott kvef sem ég er enn ekki laus við. Guffa systir býr í sveitinni fyrir utan Lund ásamt dætrum sínum fjórum, Báru, Lilju, Hebu Þórhildi og Sigríði Kristínu og Sigga kærastanum sínum. Siggi er í rannsóknarleyfi frá Háskólanum á Akureyri og starfar við Lundarháskóla. Þau koma heim í sumar eftir ársdvöl.

Alma og Sara nutu þess að leika við frænkurnar í nokkra daga og ekki síst höfðu þær gaman af því að kynnast sænska skólakerfinu. Þær fóru tvo daga í skólann; fóru með Lilju og Hebu í "bussinum" úr sveitinni.

Með því að smella á fyrirsögnina, Svipmyndir úr Svíþjóðarferð, koma í ljós fleiri myndir og með því að smella á hverja mynd sést myndartextinn.


Fleiri myndir

Gott fyrir gróðurinn

Veðrið hefur verið ótrúlega gott á Akureyri síðustu daga. Stuttermabolir helsti fatnaður. Örlítið rigndi í nótt og í morgun; gott fyrir gróðurinn, hefði kona tengd mér sagt - enda alltaf betra veður hér fyrir norðan en á borgarhorninu að hennar áliti. Og skiptir þá engu hvernig veðrið er.

Alma á Pæjumótinu á Siglufirði

c_documents_and_settings_owner_desktop_alma_a_paejumotinu_32.jpg
Þetta er hún Alma mín, sem er nýorðin 12 ára og er í sjötta bekk í Glerárskóla. Þarna er hún í leik með 5. flokki Þórs í knattspyrnu á Pæjumótinu á Siglufirði í fyrrasumar. Við erum strax farin að hlakka til Pæjumótsins í sumar, enda alltaf gaman að koma til Siglufjarðar. Alma og Sara verða væntanlega báðar í eldlínunni þar.

Rauðu herirnir mínir á ferðinni

Ekki er annað hægt en prófa að skrifa eina íþróttafrétt svona í byrjun ferðar og ánægjulegt að nota tækifærið og hrósa mínum mönnum á Englandi, Liverpool, fyrir stórsigurinn á Fulham í vikunni. Undrin gerast enn því þrír framherja liðsins, Fowler, Morientes og Crouch skoruðu allir. Framherjar félagsins hafa ekki beint verið iðnir við kolann undanfarið, en allt eru þetta góðir leikmenn og aðeins tímaspursmál hvenær þeir fyndu netmöskvana á ný. Og það sem meira er, Djibril Cisse hinn franski lagði upp tvö markanna.

Hinn Rauði herinn minn, Þór, tekur á móti Haukum í kvöld í DHL-deildinni í handbolta í Höllinni á Akureyri kl. 19. Þá mætir Árni okkar Sigtryggsson í Höllina í fyrsta skipti síðan hann fór til Hauka síðastliðið sumar. Vonandi verður tekið vel á móti Árna, fyrir leik...


Sara saxar lauk

c_mynd_a_skera_lauk001.jpg
Þetta er hún Sara yngsta dóttir mín, átta ára. Hún liggur nú með flensu, blessunin, og ég er heima hjá henni. Er svo lánsamur að geta unnið heima ef svo ber undir. Sara er reyndar stálslegin á þessari mynd enda heima í eldhúsi að saxa lauk og með réttu græjurnar; setti á sig sundgleraugu til þess að koma í veg fyrir að tárin rynnu niður kinnarnar. Þeir sem saxað hafa lauk vita hve sterkur hann er og hafa væntanleg tárast. Þessi færsla er sett inn til þess að prófa að tengja mynd við texta og ekki ber á öðru en það gangi upp.

Komdu sæll, heimur

Moi

Það hefur lengi blundað í mér að senda heiminum línu annað slagið á veraldarvefnum. Hef svo aldrei nennt að standa í því að búa til heimasíðu, en nú þegar mbl.is býður upp á þetta tækifæri er það of auðvelt til þess að sleppa því. Ekki hægt að kenna leti lengur um.

Því skal haldið af stað, en við brottför veit enginn hversu lengi ferðin stendur eða hvert hún leiðir mig. Og reikna má með að megnið af því sem hér fer inn verði miður gáfulegt...

Sjáum til.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband