Færsluflokkur: Bloggar

Ekki alltaf . . .

Var að koma úr körfubolta í Laugargötunni. Komst að því að betra liðið vinnur ekki alltaf. . .

Finni fann fjölina sína en mín er týnd.


Everton er ágætt

Nei, ég hef ekki fengið höfuðhögg. Enda er Liverpool aðdáandinn ég að meina rauðvínið Everton sem ég held að sé frá Suður-Afríku. Það var reyndar Everton stuðningsmaðurinn Tryggvi Gunnarsson sem fyrstur gaf mér að smakka það, en það er önnur saga.


Föl

Föl í görðum á Akureyri í morgunsárið. Götur auðar. Samt gott að vera á nagladekkjum, ef maður skyldi óvart lenda inni í garði.

Góðan dag, barnið mitt!

Ég keypti um daginn bókina Góðan dag, barnið mitt! en þar eru birt bréf sænska leikritaskáldsins Augusts Strindberg til dótturinnar Anne-Marie sem hann átti með þriðju eiginkonu sinni. Bókin kostaði 29 krónur - íslenskar - á bókamarkaðnum í Pennanum-Bókvali á Akureyri. Hef verið að glugga í hana en veit ekki enn hvort bókin er góð. Kannski er hún bara leiðinleg. Átta mig ekki á því. En verðið var svo lágt að ég keypti tvær. Til að græða.

If you are first . . .

c_documents_and_settings_owner_desktop_cardiff.jpg

Við pabbi fórum til Cardiff fyrir nokkrum árum, vorið 2001, og sáum Liverpool vinna Arsenal 2:1 í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar. Sá sigur var engan vegin sanngjarn, en fáir muna það líklega lengur - nema ef vera kynni stuðningsmenn Arsenal. Og ég. Litlu munaði þar að bikarinn færi til norðurhluta London, en þegar ég rifja upp leikinn detta mér í hug, í eitt skipti af mörgum, ummæli Shanklys sem ég vitnaði til í síðustu færslu.

Og það er oft stutt á milli hláturs og gráts í íþróttum.

Kannski er ég hálf ruglaður og líklega pínulítið hjátrúarfullur. Vil að minnsta kosti trúa því að ég sé ekki óheillakráka þegar Liverpool á í hlut. Ég hef nefnilega aldrei séð liðið tapa úrslitaleik. Auk leiksins í Cardiff detta mér í hug bikarúrslitaleikurinn 1986 (3:1) gegn Everton á Wembley, 5:4 sigurinn á Alaves í úrslitaleik UEFA-keppninnar í Dortmund - fjórum dögum eftir sigurinn á Arsenal í Cardiff! - og síðast en ekki síst leikurinn gegn AC Milan í Istanbul síðastliðið vor.

Það er ekki oft sem maður sér eftir því að bregða sér bæjarleið og sjá Liverpool spila. En í hálfleik gegn Milan, 3:0 undir, spurði ég sjálfan mig í hjartans einlægni hvers vegna í andsk... ég hefði ekki bara verið heima og horft á leikinn í sjónvarpinu. Og ef Ólympíuleikvangurinn væri ekki um klukkutíma akstur fyrir utan miðborg Istanbul hefði ég líklega gengið af stað niður í bæ í hálfleik. En ég nennti því ekki, sem betur fer. Að sjá sína menn jafna og vinna svo í vítaspyrnukeppni var ógleymanlegt og í raun ólýsanlegt. Og ekki síðra að syngja You'll Never Walk Alone með fjöldanum.


If you are first you are first. If you are second you are nothing

Það er aldrei gaman að sjá sína menn tapa.

Það er alltaf gaman að sjá sína menn vinna.

Liverpool er mikið að koma til þótt töluvert sé enn í að liðið komist á toppinn á nýjan leik. Góður sigur á Newcastle í dag og það sem kom mér mest á óvart er að farsælasti bakvörður í sögu félagsins, Phil Neal, virðist hafa tekið fram skóna á ný! Hollendingurinn Jan Kromkamp er ótrúlegur líkur Neal á velli.

Chelsea er besta liðið í Englandi um þessar mundir. Því verður ekki á móti mælt. En ekki er vafi á því að liðið spilar jafnan betur en ella þegar Eiður Smári Guðjohnsen er með.

Í afreksíþróttum skiptir aðeins eitt máli.

"If you are first you are first. If you are second you are nothing," sagði Bill Shankly aðalþjálfari Liverpool á sínum tíma.


Áflog, og árekstur á Seyðisfirði

Það er áhugavert að fylgjast með látunum í Frakklandi í dag. Frönsk ungmenni eru auðvitað fræg fyrir að láta skoðanir sínar í ljós og því koma hörð viðbrögð við nýrri vinnulöggjöf ekki á óvart. Allar heimsins fréttastofur eru líka uppfullar af frásögnum af gangi mála og það rifjar upp fyrir mér svar vinar míns sem býr í París við ólátunum sem urðu þar í fyrra - eða var það ekki í fyrra? - þegar fjölmiðlar heimsins skýrðu ítarlega frá erjum ungra innflytjenda og fulltrúa valdsins.

Vinur minn býr í einu úthverfa Parísar, einmitt þar sem fjöldi innflytjenda er búsettur, og þegar ég spurði hvort hann hefði orðið var við ólætin svaraði hann: Álíka mikið og þú varðst var við áreksturinn á Seyðisfirði í dag.

Og hann vissi mætavel að ég var staddur heima á Akureyri.


Milosevic

Slobodan Milosevic, fyrrverandi forseti Júgóslavíu og Serbíu, er borinn til grafar í dag.

Ég kom til Sarajevo fljótlega eftir að stríðinu á Balkanskaga lauk. Að skynja ástandið þar og tala við fólkið er næg ástæða til þess að sjá ekki eftir Milosevic.


Að moka skít

c_documents_and_settings_owner_desktop_skitur_109.jpg
Ýmislegt taka menn til bragðs í íþróttahreyfingunni til þess að afla fjár. Við í handknattleiksdeild Þórs höfum reglulega stungið út úr fjárhúsum síðustu misseri. Myndin er tekin í einni slíkri vinnuferð á dögunum - en þarna eru menn í pásu.

Senor Fermin og aðrir snillingar

Hefur þú, sem þetta sérð, lesið bókina Skuggar vindsins sem kom út fyrir jólin? Ef svo er ekki gerðu það strax, a.m.k. ef þú hefur áhuga á góðum bókum. Og jafnvel þótt þú nennir lítið að lesa. Hún er frábær. Höfundurinn spænskur og bókin gerist í Barcelona. Nauðsynleg lesning.

Fermin, sem nefndur er í fyrirsögn, er ein sögupersónan - ógleymanlegur karakter í ógleymanlegri sögu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband