Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

I kill people for money . . .

Ég átti einu sinni ísraelskan vin sem sagði sama brandarann í mörg ár.

Kannski var það vegna upprunans, kannski ekki. En brandarinn snérist um samtal tveggja vina, annar var að ljóstra því upp hvað hann hefði að lifibrauði - en skaut því að í leiðinni hvað honum þætti vænt um vin sinn:

"I kill people for money but you my friend so I kill you for nothing"


Hrunadansinn

Hollt væri það þjóðinni allri að lesa miðopnu Morgunblaðsins í gær þar sem birtur er nýr ljóðabálkur, Hrunadansinn, eftir Matthías Johannessen fyrrverandi ritstjóra okkar á Mogganum.

Þar segir M meðal annars:

Hvort breiðir út faðminn mót Fróni sú mammonsgóða

framtíð sem nú er hvarvetna að allra dómi

efst á baugi í baráttu smæstu þjóða

við basl og örbirgð,

virðing okkar og sómi

er vandasöm fylgd við fjármagn og ofsagróða

þegar fegurð asksins er líkust deyjandi hjómi

og níðhöggs tennur nærast þar við rót

sem nýöld mammons fremur sín heiðnu blót.


Ekki ég heldur

Villepin forsætisráðherra Frakklands fullyrti í dag að hann hefði engan áhuga á að verða forseti landsins.

Bara svo það fari ekkert á milli mála þá hef ég heldur ekki áhuga á djobbinu.


Enn skúbbar Hersh

Bandaríski blaðamaðurinn Seamour Hersh heldur því nú fram að Bush hyggi á innrás í Íran. Hersh er einn þekktasti rannsóknarblaðamaður Bandaríkjanna og tíðindi eins og þessi vekja því athygli þegar þau koma frá honum.

Hersh hefur skrifað margar bækur, þar á meðal The Dark Side of Camelot sem kom út 1997 og er alveg hreint bráðskemmtileg. Þar fjallar hann um John F. Kennedy forseta og hans fólk á margvíslegan hátt og ýmislegt ber á góma; Svínaflóaævintýrið, Víetnam, kosningarnar sem Kennedyarnir "stálu" og, ja má ég kalla það óhefðbundið einkalíf í Hvíta húsinu?

Ef til vill ekki algjörlega pottþétt sagnfræði, eins og einn vinur minn og starfsbróðir sagði einhvern tíma, en ansans ósköp skemmtileg engu að síður. Segi ekki meira . . .


Útlendingar í Eyjafirði

Foreigners in the Fjord

Var að koma af opnun sýningarinnar Útlendingar í Eyjafirði í Ketilhúsinu. Mæli með henni; skemmtileg sýning sem varpar ljósi á það alþjóðlega andrúmsloft sem svífur yfir vötnum í Eyjafirði um þessar mundir. Ég efast um að fólk hafi gert sér grein fyrir því hve margir útlendingar búa í firðinum, fólk sem er að fást við mjög margvísleg störf.

Glæsileg sýning hjá nemum á öðru ári í fjölmiðlafræði við Háskólann hér á Akureyri og Markúsi kennara þeirra.

Undirtitill sýningarinnar, Við vildum vinnuafl en fengum fólk er líka alveg stórmerkilegur og segir meira en mörg orð.


Rusl

Það er óþolandi að sjá fólk henda rusli á almannafæri, sígarettustubbum út úr bíl á ferð, umbúðum af mat og fleiru af því tagi. Hvernig í óskpunum getur fólk ekki hent ruslinu í þar til gerð ílát?
Mér hefur lengi blöskrað og leyfi mér að fá lánaðan annan leiðara Morgunblaðins í gær og lýsa því að þar er hvert orð eins og talað úr mínu hjarta.
- - - - - - - - - - - - -
Leiðarinn er svona:
Í eina tíð þótti sjálfsagt að henda öllu drasli, sem hægt var að henda, út um bílglugga. Svo var gert mikið átak í að ala þjóðina upp og kenna henni að henda rusli í öskutunnur en ekki út á götu. Það tókst ótrúlega vel og í langan tíma heyrði það til undantekninga, ef fólk sást henda rusli út um bílglugga. En það er ekki lengur svo.

Nú er það nánast daglegt brauð, að fólk - og þá alveg sérstaklega ungt fólk - hendi rusli út á götu. Enda ber höfuðborgin þess merki eins og sjá má hér og þar. Átak Reykjavíkurborgar til þess að reyna að hafa jákvæð áhrif á það fólk, sem stundar þessa iðju, er þakkarvert en sennilega þarf miklu meira til.

Í raun og veru er óskiljanlegt, hvernig fólki dettur í hug að haga sér með þessum hætti. Er hin vel menntaða unga kynslóð kannski ekkert vel menntuð og þaðan af síður vel upp alin?

Er þetta kynslóðin, sem ætlar að taka að sér að vernda náttúru Íslands fyrir alls kyns eyðileggingaröflum?!

Fyrir utan marga vinnustaði má sjá afleiðingar af reykingum starfsmanna utan dyra. Umgengnin við næsta nágrenni vinnustaðarins er ekki upp á marga fiska.

Það er alveg ljóst að hér þarf nýtt átak og sennilega stöðugt átak. Það þarf að vera hluti af námsefni á öllum skólastigum að innræta ungu fólki mikilvægi þess að ganga vel um umhverfi sitt, hvort sem er skólann, skólalóðina, heimili sitt, vinnustað eða annað umhverfi.

Það þýðir lítið að tala um umhverfisvernd með fögrum orðum, ef við getum ekki einu sinni kennt ungu fólki að henda ekki rusli út um bílglugga.

Ruslið er greinilega að vaxa bæði höfuðborginni og nágrannasveitarfélögum yfir höfuð. Við erum að kafna í rusli, ekki sízt því, sem verður til eftir viðskipti við svonefnda skyndibitastaði.

Er ekki líklegt að ruslið verði að kosningamáli í vor?

- - - - - - - - - - - - -
Þetta eru orð í tíma töluð og eiga því miður ekki aðeins við um Reykjavík. Sama ádrepa er þörf í Akureyrarborg við fjörðinn fagra.

Félagi Napoleon

Arna er að gera verkefni um Animal Farm í ensku í MA þannig að ég las að gamni aftur þessa gömlu bók Orwells. Held ég hafi varla gluggað í hana síðan í MA fyrir nærri 25 árum! En djö... er hún góð. Stórfín ádeila.

Félagi Napoleon heitir sagan á íslensku, ég á eldgamla útgáfu í kilju sem gefin var út á Seyðisferði og teikningin á kápunni er snilld. Þungbrýnt svín situr í stól með pípu í kjaftinum og yfirvaraskegg Stalíns fer því hreint prýðilega. En ég verð þó að segja að það er skemmilegra að lesa bókina á ensku.

Kannski er þetta besta pólitíska ádeila sem skrifuð hefur verið.

Haldi fólk ekki vöku sinni getur samfélag breyst til hins verra á ótrúlega skömmum tíma.

Boðorðin voru ekki lengi að breytast í Animal Farm:

All animals are equal - Öll dýr eru jöfn ... var ekki lengi að breytast í ... All animals are equal but some animals are more equal than others - Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur.

Má ekki segja að Orwell hafi verið bæði dálítið glöggur á samtíma sinn og jafnvel forspár um þróun mála í veröldinni?


Áflog, og árekstur á Seyðisfirði

Það er áhugavert að fylgjast með látunum í Frakklandi í dag. Frönsk ungmenni eru auðvitað fræg fyrir að láta skoðanir sínar í ljós og því koma hörð viðbrögð við nýrri vinnulöggjöf ekki á óvart. Allar heimsins fréttastofur eru líka uppfullar af frásögnum af gangi mála og það rifjar upp fyrir mér svar vinar míns sem býr í París við ólátunum sem urðu þar í fyrra - eða var það ekki í fyrra? - þegar fjölmiðlar heimsins skýrðu ítarlega frá erjum ungra innflytjenda og fulltrúa valdsins.

Vinur minn býr í einu úthverfa Parísar, einmitt þar sem fjöldi innflytjenda er búsettur, og þegar ég spurði hvort hann hefði orðið var við ólætin svaraði hann: Álíka mikið og þú varðst var við áreksturinn á Seyðisfirði í dag.

Og hann vissi mætavel að ég var staddur heima á Akureyri.


Milosevic

Slobodan Milosevic, fyrrverandi forseti Júgóslavíu og Serbíu, er borinn til grafar í dag.

Ég kom til Sarajevo fljótlega eftir að stríðinu á Balkanskaga lauk. Að skynja ástandið þar og tala við fólkið er næg ástæða til þess að sjá ekki eftir Milosevic.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband