Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Grenivík, miðja heimsins

Valgarður Egilsson, sérfræðingur í krabbameini og frændi minn, er fáum líkur. Kannski engum. Hann sagði frá því, á ættarmóti í Skarðsgili í Dalsmynni í dag, að í æsku hefði hann komist að því að Grenivík - þar sem hann er fæddur, og pabbi líka - væri miðja heimsins. Þegar hann hóf að nema landafræði fimm ára sá hann nefnilega að á núlltu gráðu (0.), og þar af leiðandi í miðju heimsins, stóð Greenwich. Greenivík, á íslensku. Og ekki nóg með að staður þessi væri í miðju heimsins miðað við lengdarbaug, heldur var (og er) tíminn í okkar veröld miðaður við Greenwich; Grenivík!

 

Ættarmótið heldur áfram í Greenwich í kvöld. Ég á ekki heimangengt, því miður. En kannski maður taki bara Taxa í kvöld og bruni úteftir, til þess að hitta Valgarð og alla hina snillingana.


Ottó

Ottó vinur minn fékk flensu um daginn og svo einhvern fjandans vírus í framhaldinu. Hefur verið slappur - en ég vona að hann verði fljótur að ná sér.

Baráttukveðjur.


Góðviðri og jólastemmning

Fegurð
Veðrið var frábært í Eyjafirðinum í gær og er raunar í dag líka, þó svo spáin hafi ekki verið góð. Gríðarlegur fjöldi var í Hlíðarfjalli, og greinilega allt troðfullt af farartækjum því bílum var lagt langt niður á veg. Við fórum hins vegar vopnuð þotum og sleðum upp undir Súlumýrar með Ölmu og Söru og með í för voru líka Karen og Aron. Það var gaman og útsýnið glæsilegt. Set hér nokkrar myndir úr túrnum, og líka frá heimsókn til Benna í Jólahúsið inni í Eyjafjarðarsveit síðar um daginn. Ýtið á fyrirsögn pistilsins til þess að sjá fleiri myndir.

Fleiri myndir

Sögulegur dagur

Öldungamót Þórs í körfubolta fór fram í Höllinni á laugardaginn og reyndist samkoman sú heldur betur söguleg. Stórliðið Synir lands og vona eða Vinir lands og sona - man það aldrei, en forvitnir geta snúið sér til Dúdda, hann fann nafnið upp óafvitandi þegar hann mismælti sig í Sjallanum um árið - gerði sér lítið fyrir og sigraði í leik. Vann heilan leik! Og það án þess að ég væri með!

Mér finnst ósanngjarnt, bæði gagnvart félögum mínum í stórliðinu og andstæðingunum, að nefna liðið sem tapaði leiknum sögulega. Að minnsta kosti ekki strax.

Ég get staðfest að leikmenn stórliðsins voru býsna þreyttir á æfingunni í gærkvöldi, í það minnsta sumir. Moli þurfti meira að segja einu sinni að játa sig sigraðan þegar við börðumst um frákast og þá er hann illa fyrir kallaður. Hafði enda leikið fimm sinnum í 2x16 mínútur á laugardeginum. Það sýnast mér vera 160 mínútur eða nærri þrír klukkutímar. Ég hefði varla getað reimað á mig skóna eftir svoleiðis dag.


Pabbi og Þráinn

Hátíðarsýningin

Pabbi og mamma fóru með mér á hátíðarsýninguna á Litlu hryllingsbúðinni á þriðjudagskvöldið, í tilefni 50 ára leikafmælis Þráins Karlssonar. Þeir pabbi unnu lengi saman hjá afa Skapta í Slippnum í gamla daga.


Svipmyndir úr Svíþjóðarferð

c_documents_and_settings_owner_desktop_i_skolanum.jpg

Við skruppum til Svíþjóðar um daginn, ég, Sirra, Alma og Sara. Arna var heima enda á fullu í MA. Það var kalt á Skáni, snjór yfir öllu og ég náði mér auðvitað í býsna gott kvef sem ég er enn ekki laus við. Guffa systir býr í sveitinni fyrir utan Lund ásamt dætrum sínum fjórum, Báru, Lilju, Hebu Þórhildi og Sigríði Kristínu og Sigga kærastanum sínum. Siggi er í rannsóknarleyfi frá Háskólanum á Akureyri og starfar við Lundarháskóla. Þau koma heim í sumar eftir ársdvöl.

Alma og Sara nutu þess að leika við frænkurnar í nokkra daga og ekki síst höfðu þær gaman af því að kynnast sænska skólakerfinu. Þær fóru tvo daga í skólann; fóru með Lilju og Hebu í "bussinum" úr sveitinni.

Með því að smella á fyrirsögnina, Svipmyndir úr Svíþjóðarferð, koma í ljós fleiri myndir og með því að smella á hverja mynd sést myndartextinn.


Fleiri myndir

Alma á Pæjumótinu á Siglufirði

c_documents_and_settings_owner_desktop_alma_a_paejumotinu_32.jpg
Þetta er hún Alma mín, sem er nýorðin 12 ára og er í sjötta bekk í Glerárskóla. Þarna er hún í leik með 5. flokki Þórs í knattspyrnu á Pæjumótinu á Siglufirði í fyrrasumar. Við erum strax farin að hlakka til Pæjumótsins í sumar, enda alltaf gaman að koma til Siglufjarðar. Alma og Sara verða væntanlega báðar í eldlínunni þar.

Sara saxar lauk

c_mynd_a_skera_lauk001.jpg
Þetta er hún Sara yngsta dóttir mín, átta ára. Hún liggur nú með flensu, blessunin, og ég er heima hjá henni. Er svo lánsamur að geta unnið heima ef svo ber undir. Sara er reyndar stálslegin á þessari mynd enda heima í eldhúsi að saxa lauk og með réttu græjurnar; setti á sig sundgleraugu til þess að koma í veg fyrir að tárin rynnu niður kinnarnar. Þeir sem saxað hafa lauk vita hve sterkur hann er og hafa væntanleg tárast. Þessi færsla er sett inn til þess að prófa að tengja mynd við texta og ekki ber á öðru en það gangi upp.

Komdu sæll, heimur

Moi

Það hefur lengi blundað í mér að senda heiminum línu annað slagið á veraldarvefnum. Hef svo aldrei nennt að standa í því að búa til heimasíðu, en nú þegar mbl.is býður upp á þetta tækifæri er það of auðvelt til þess að sleppa því. Ekki hægt að kenna leti lengur um.

Því skal haldið af stað, en við brottför veit enginn hversu lengi ferðin stendur eða hvert hún leiðir mig. Og reikna má með að megnið af því sem hér fer inn verði miður gáfulegt...

Sjáum til.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband