Eins og Hitler teygi sig upp úr gröfinni . . .

Forsíða Independent

Þessi dægrin er mikið sprengt og mikið drepið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar er svo sem ekkert nýtt á ferðinni, nema nýtt fólk sem deyr eins og gefur að skilja. En það virðist minnstu máli skipta - fólkið, sem kvelst eða deyr - á meðan rifist er um orðalag í samþykktum alþjóðasamfélagsins um það hverja eigi að fordæma eða hvort, eða ákveðið er hvort vilji sé til þess að taka eitthvað til bragðs í því skyni að gera almenningi á svæðinu lífið bærilegra.

Ástandið á Balkanskaga var hræðilegt fyrir nokkrum árum þegar borgarastyrjöld stóð þar yfir og margir áttu erfitt, bæði meðan á því stóð og eftir á. Vorið 1999 fórum við Sverrir Vilhelmsson, ljósmyndari, til Makedóníu í nokkra daga, sóttum heim flóttamannabúðir, ræddum við fólk og kynntum okkur ástandið, og sögðum sögur af því í Morgunblaðinu.

Meðal þeirra sem við hittum voru bandarískir gyðingar sem tóku sig til upp á eigin spýtur og drifu sig á staðinn með ýmiss konar vörur sem þeir töldu þörf fyrir. Þeim ofbauð ástandið. Athyglisvert er að kíkja á greinina um þennan hóp; þarna átti þó í hlut fólk í flóttamannabúðum, fólk sem hafði það í sjálfu sér ágætt og kvartaði ekki undan aðbúnaðinum.

Vert er að velta því fyrir sér nú hvort sjónvarpsáhorfendum einhvers staðar í heiminum ofbjóði ekki það sem boðið er upp á í fréttatímum í dag og í gær og á morgun - eða heldur almenningur ef til vill að þetta sé í raun bara bíómynd; að leikendurnir standi heilir upp að loknum vinnudegi, fái sér að borða fyrir svefninn og mæti svo aftur í upptöku á morgun?

- - - - -

Hér kemur umrædd grein sem ég skrifaði frá Makedóníu.

NOKKRIR bandarískir gyðingar tóku sig til fyrir skömmu og söfnuðu ýmiss konar varningi, drifu sig yfir til Evrópu og komu í byrjun vikunnar á áfangastað; einar flóttamannabúðirnar í grennd við Skopje í Makedóníu.


"Við sáum myndir héðan úr búðunum í sjónvarpinu fyrst eftir að þær voru settar upp og fyrstu viðbrögð mín voru: Nei! Þetta getur ekki verið að gerast!" segir kona á miðjum aldri í samtali við Morgunblaðið í búðunum. Foreldrar hennar voru báðir í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni og henni er tíðrætt um Helförina. "Það er alltaf verið að tala um að ekki megi gleyma Hitler og nasistunum, að ekki megi gleyma Helförinni. Auðvitað er það alveg rétt en það sem ekki má gleyma nú er þetta fólk sem er hér. Að sjá fólkið í sjónvarpinu í þessum búðum minnir mig ískyggilega á Helförina, þótt ekki sé um nákvæmlega sama hlutinn að ræða. Og eitthvað svipað og gerðist þá má aldrei koma fyrir aftur."

Í hópnum eru átján manns, sextán frá New Jersey og tveir bættust við frá New York. "Við erum öll gyðingar," segir hún en tekur þó skýrt fram að trúarbrögð skipti engu máli í þessu sambandi. "Ég er til dæmis alls ekki strangtrúuð og þetta kemur því gyðingdómnum ekki beint við. Mér ofbauð bara sem manneskju þegar ég sá í sjónvarpinu hvað var að gerast." Konan hringdi í kunningja sinn, sem einnig hafði verið að horfa á sjónvarpið, og strax eftir það samtal voru þau ákveðin í að gera eitthvað. Niðurstaðan varð sú að safna alls kyns varningi sem fólkið taldi þörf fyrir; skóm, alls kyns sjúkradóti, sokkum á börnin, dömubindum, útvarpstækjum, rafhlöðum og skóladóti, svo eitthvað sé nefnt. Og söfnunin gekk mun betur en þau leyfðu sér að vona. "Við stóðum uppi með ótrúlega mikið af dóti. Þú hefðir átt að sjá staflana af skónum. Ég get sagt þér að rabbíinn okkar ­ sem er reyndar hérna með okkur ­ grét þegar hann kom inn í salinn þar sem skónum hafði verið staflað. Sjónin sem blasti við minnti hann nefnilega svo mikið á Auschwitz. En þetta er auðvitað algjör andstæða; þar voru skór í stöflum sem teknir höfðu verið af fólki áður en það var myrt, en hér voru skór sem við söfnuðum til að fólk gæti notað þá."

Þegar þarna er komið samtalinu hljómar allt í einu lagið I will survive og konan tekur undir ásamt nokkrum albönskum börnum sem fylgjast með okkur. "Við vorum að kenna þeim þennan texta í morgun," segir konan ­ en heiti lagsins gæti útlagst Ég mun lifa af, á íslensku.

Ekki gekk alveg þrautalaust fyrir hópinn að komast til Makedóníu. Reyndar gekk allt eins og í sögu þar til þau komu hingað að landamærunum á stórri rútu, en þá sögðu landamæraverðir hingað og ekki lengra! "Við gerðum ekkert veður út af því heldur fórum bara að leika okkur í kringum bílinn. Köstuðum frisbee-diskum til og frá og fórum í boltaleiki. Við tókum neituninni sem sagt bara vel en eftir drykklanga stund voru verðirnir orðnir svo leiðir á okkur að þeir hleyptu okkur í gegn."

Konunni er mikið niðri fyrir þegar hún talar um ástandið í Kosovo og örlög Albananna þar. "Það hefur mikið verið talað um Helförina síðustu áratugi, en í raun hefur ekkert breyst. Í stað þess að tala verða menn að gera eitthvað. Þess vegna urðum við að drífa í þessu. Þú hefur örugglega heyrt um mörg Helfarar-söfn, Helfarar-þetta og Helfarar-hitt. Eins og ég sagði áðan má sú skelfing auðvitað ekki gleymist en það sem skiptir mestu máli er að hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda í dag. Sem barn fólks sem lifði af vist í útrýmingarbúðum nasista gat ég ekki setið hjá. Fólk verður að fá tækifæri til að lifa. Það er sá lærdómur sem mikilvægast er að draga af Helförinni. Foreldrar mínir áttu 18 mánaða gamlan son sem nasistar hentu í ofn; ég hugsaði með mér, þegar ég sá fyrstu myndirnar af þessu í sjónvarpinu, að það væru ekki nema 50 ár síðan pabbi og mamma voru í fangabúðum nasista í Evrópu og nú væri þetta að gerast á sömu slóðum. Þetta gæti bara ekki verið ­ hvers vegna hefði fólk ekkert lært. Þegar ég hugsa um átökin sem verið hafa hér á Balkanskaganum síðustu ár finnst mér eins og Hitler teygi sig upp úr gröfinni og segi: Ég sigra þrátt fyrir allt!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband