Atvinna og ættarmót

Hér kemur einn af gömlu Viðhorfspistlunum mínum úr Mogganum, í tilefni allra ættarmótanna sem fara fram í sumar. Þessi grein er orðin dálítið rykfallin; birtist vorið 1999 en er þó kannski sígild.

- - - - - 

Maðurinn sem fann upp ættarmótið á Fálkaorðuna skilið. Vísast veit enginn hvar hann er eða hver hann er, en ýmsir í þjóðfélaginu eru þessum merkilega uppfinningamanni eflaust ævarandi þakklátir. Hafi einhver skarað fram úr í því að fjölga störfum hérlendis hin síðari ár, þá er það ekki Framsóknarflokkurinn, þótt hann haldi því fram, heldur maðurinn sem fann upp ættarmótið.


Hverjir standa í þakkarskuld við hann? Mér dettur í hug að nefna veitingamenn, gistihúsaeigendur og raunar mætti líklega telja upp alla í ferðaþjónustunni og þá sem henni tengjast. Þá sem selja jeppa, hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagna, bensín og olíur. Dekk og gotterí, bjór og annað áfengi. Tjöld. Að ekki sé nú talað um grillkjöt og þess háttar góðgæti. Og tímarit, því þau eru nauðsynleg í svona ferðalögum. Líka harðfiskur, þótt hann sé dýr. Sólgleraugu og sólarvörn (ef ættarmótið er fyrir norðan og austan) og regn- og vindgallar (ef það er fyrir sunnan). Flugfélög, meira að segja erlend, hafa svo líka eitthvað upp úr krafsinu vegna þess að fólk kemur stundum alla leið frá útlöndum á íslensku ættarmótin. Og svo eru teknir margir kílómetrar af filmum á ljós- og kvikmyndavélar, þannig að framköllunarstofur alls staðar á landinu hafa nóg að gera yfir sumarið við að koma minningunum í geymsluhæft form.


Landinn hlýtur að ferðast meira innanlands eftir að ættarmótið var fundið upp en áður og ferðalögin og þátttaka í þessum samkomum kostar sitt. Mér sýnist hálf þjóðin jafnvel vera á þeytingi allt sumarið á leið á ættarmót. Peningar í umferð aukast því eflaust umtalsvert vegna þessa. Hagfræðingar kætast því þeir ættu að geta hamast við að reikna út áhrif á hagstærðirnar; verga þjóðarframleiðslu, vísitölu samgangna og sálfræðivísitölu kjarnafjölskyldunnar.

Bílaverkstæði fá sneið af kökunni, því óhöpp verða því miður alltaf einhver, þeir sem selja ferða-þetta og ferð-hitt hljóta líka að maka krókinn: ferðageislaspilarar, ferðastraujárn og ferðahárblásarar eru auðvitað ómissandi, jafnvel ferðaklósett. Og svo spila stundum hljómsveitir á mótunum. Fyrirbærið er því líka atvinnuskapandi fyrir tónlistarmenn. Nei, ekkert hefur aukið veltu í íslensku þjóðfélagi meira hin síðari ár. Ætli geti kannski verið að góðærið sé honum að þakka, manninum sem fann upp ættarmótið?

Svo þegar sumarið er liðið og fólk er orðið leitt á því að metast um það hver er brúnastur eftir sólarlandaferðina eða hver á flottari og dýrari jeppa ­ og áður en farið er að metast um vélsleðana eða vetrarbúnað jeppanna, hver á stærri dekk, sterkara spil eða flottari hátalara í bílnum ­ er upplagt að bera saman hversu glæsilegt ættarmótið var eða á hversu mörg slík fólk komst þetta sumarið. Ég stend nefnilega vel að vígi þar á hausti komanda; get státað af þremur þegar þar að kemur, ef guð lofar.

Á umræddum mótum spretta jafnvel upp alls kyns frændar og frænkur, sem enginn hafði hugmynd um. Ættarböndin eflast og jafnvel lengjast, sem sagt. Sálfræðingar ættu því líka að geta gert sér mat úr þessu; það hlýtur að vera rannsóknarefni hversu mikils virði það er lítilli, einangraðri þjóð úti í hafi að kynnast sögu forfeðranna á þennan hátt; að hitta fjöldann allan af ættingjum í fögru umhverfi, líklegast á þeim slóðum þar sem forfeðurnir lifðu; þjóðin hlýtur að sækja gríðarlega mikilvægan innblástur í þess háttar samkomur. Nýr og áður óþekktur sprengikraftur gæti læðst úr læðingi þegar gamla sveitin er skoðuð. Ég er illa svikinn ef nostalgían heltekur ekki fólk þegar það kemur á fornar slóðir, slóðir forfeðranna, andar að sér loftinu sem þeir önduðu að sér, nýtur útsýnisins sem þeir nutu og hlustar jafnvel á árniðinn sem var þarna í gamla daga, en forfeðurnir voru eflaust löngu hættir að taka eftir.

Og ekki má gleyma þeim menningarverðmætum sem varðveitast vegna ættarmótanna. Söngvar og kvæði og sögur ­ sannar og lognar ­ sem ef til vill hefðu annars glatast.

Mér var einhvern tíma sagt að fólk í Ameríku væri lítið fyrir ættarmót. Það þekkti ættina sína nefnilega svo illa. Varla afa og ömmu. Hvað þá langafa og langömmu. En hér hefur ættarmótafárið orðið til þess, segja mér fróðir menn, að unga kynslóðin er komin á kaf í ættfræði. Sýnir henni mikinn áhuga og einmitt nú sem aldrei fyrr. Og þar með ætti enn ein stéttin að blómstra, ættfræðingarnir, þökk sé manninum sem fann upp ættarmótið.

Þjóðin þarf að sameinast í leit sinni að manninum. Jafnvel að reisa af honum styttur, hér og þar um landið, á vinsælum ferðamannastöðum.

Íslendingar framleiða besta lambakjöt í heimi, eins og allir vita, þótt strembið hafi verið að fá að flytja það út. Fegurðin hefur stundum verið flutt út, íslenski hesturinn og íslenskt hugvit í ríkum mæli hin síðari ár. Það er varla spurning um það hvort, heldur hvenær, okkur tekst að smita útlendinga af ættarmóta-bakteríunni. Ég hef velt því fyrir mér að sækja um einkarétt á Ættarmótinu og selja svo leyfi til notkunar úr landi. Það er auðvelt að hagnast á því með sölu yfir Netið. Heildstæð lausn á ættarmótahaldi til sölu. Sendið fyrirspurnir til aett@rmot.is.

Ég vona að ættarmótið sé ekki útlendur siður. Þá gæti orðið erfitt að hafa uppi á manninum sem fann það upp. Og erfitt fyrir mig að græða á sölunni.

Viðhorf úr Morgunblaðinu - Atvinna og ættarmót - sunnudag 29. júní 1999


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæri, vissulega voru Viðhorfin þín góð, en er þessi endurvinnsla ekki óþarfi? Ertu nokkuð orðinn viðhorfs- og skoðanalaus með öllu í sælunni fyrir norðan? Hvernig horfir staðan í Framsóknarflokknum við þér? Og hvernig viltu nýta menningarhúsið? Eða endurgreiðsluna frá skattinum? (hmmm, kannski er bara betra að endurnýta gömul viðhorf eftir allt saman...)

Ragnhildur (IP-tala skráð) 1.8.2006 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband