11. september 2001

Ekki að það skipti máli hvar ég var staddur 11. september 2001, en Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff voru þá í opinberri heimsókn í Norður-Þingeyjarsýslu, og við Árni Sæberg ljósmyndari vorum með í för og sögðum frá heimsókninni í Morgunblaðinu.
Það var glatt á hjalla í fylgdarliði forsetans fram að hádegi en brúnin á fólki þyngdist þegar fréttirnar um árásirnar á Bandaríkin bárust. Það vildi reyndar svo furðulega til að einmitt þegar allar fréttastöðvar heimsins hófu frásagnir í beinni útsendingu og fréttirnar líklega borist sem eldur í sinu í gegnum símkerfi heimsins vorum við utan þjónustusvæðis, eins og það heitir á farsímamáli.
Dagurinn hófst með heimsókn forseta og fylgdarliðs hans í Grunnskólann á Raufarhöfn, þar sem nemendur sungu fyrir gestina og Ólafur Ragnar spjallaði við þá drjúga stund. Spurði m.a. hvort þeir væru mikið í fótbolta og þá vantaði ekki svörin. "Við kepptum í Ásbyrgi og unnum og í fyrra líka," sagði einn drengjanna.

 

"Hverjir eru bestir," spurði forsetinn þá. "Liverpool, Liverpool, Manchester..." ómaði um stofuna og ljóst að áhuginn á ensku knattspyrnunni er ekki minni á Raufarhöfn en annars staðar.

"Með hverjum heldur þú?" spurði þá einn snáðinn og Ólafur sagði: "Þú ert alltaf að spyrja mig erfiðra spurninga." Kannaðist við hann frá því á fjölskylduhátíðinni kvöldið áður. Svaraði svo í samræmi við að þar fer fyrrverandi nemandi við háskólann í Manchester: "Ég held með Manchester United," sagði Ólafur Ragnar og það fór misjafnlega í ungu drengina. Líklega er ofmælt að baulað hafi verið á forsetann en sumir urðu súrir á svip, aðrir fögnuðu. Forsetinn spurði þá með hvaða liði þeir héldu í úrvaldsdeildinni. "Austra," sögðu nokkrir í einu en einn dró í land og sagði: "Nei, við æfum með Austra."

"Má ég koma á rúntinn á forsetabílnum?" spurði þá skyndlega einn og beindi umræðunni inn á nýjar brautir.

Næst var fiskverkunarhús Jökuls á Raufarhöfn heimsótt, þá tölvufyrirtækið Netver og einmitt á meðan forseti staldraði þar við og ræddi við tvær konur sem sinntu símsvörum hringdi síminn: "Seðlabankinn, góðan dag," svaraði önnur en þegar hringt var í þá ágætu stofnun var einmitt svarað á Raufarhöfn. Svona getur nútímatæknin verið skemmtileg, en ég held reyndar að nú sé löngu hætt að svara á Raufarhöfn fyrir peningamennina við Arnarhól. Kannski tæknin sé ekkert svo skemmtileg eftir allt saman.

Því næst var haldið yfir í Svalbarðshrepp og fyrst komið við á bænum Sveinungsvík þar sem Gunnar Guðmundarson bóndi sýndi gestum bæði heimarafstöð sína og rekaviðarvinnslu. Heimsókn í Svalbarðskirkju var næst á dagskrá, síðan hrútasýning í fjárhúsunum við bæinn þar sem Ólafur Vagnsson ráðunautur og fólk á hans vegum var að meta veturgamla hrúta, m.a. með ómsjá; verið var að velja hrúta til undaneldis. Þaðan var gengið stuttan spotta að Svalbarðsskóla, þar sem nemendur skemmtu gestum með söng og upplestri og síðan var þar reiddur fram hádegisverður.

Engan grunaði neitt þegar staðið var upp frá borðum í Svalbarðsskóla, ekið var af stað með bros á vör en einhvers staðar á leiðinni til Þórshafnar hringdu gemsarnir hver í kapp við annan, og það var öðruvísi fólk sem steig út úr bílunum á Þórshöfn en sté upp í þá á Svalbarði. Þarna vissum við líka að heimurinn hafði breyst. Fengum fréttirnar kannski á eftir öllum öðrum íbúum landsins, jafnvel heimsins!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband