Sanngjarnt

Þá er búið að flauta af í Laugardalnum; Ísland - Danmörk 0:2. Mjög sanngjörn úrslit, það verður bara að segjast eins og er.

Of slakur fyrri hálfleikur gegn geysisterku liði Dana varð okkur að falli en því má ekki gleyma að Ísland fékk, samt sem áður, tvö mjög góð tækifæri til þess að skora í kvöld og hefði einbeitingin verið í lagi hefðu Íslendingar átt að koma í veg fyrir bæði mörkin.

En þegar allt kemur til alls er ágætt að vera með þrjú stig eftir tvo fyrstu leikina í riðlinum.


2:0

Frábært mark - hraðaupphlaup eins og hjá góðu handboltaliði. En gremjulegt; Íslendingar áttu innkast fremst á vellinum, en Danir skoruðu 90 metrum aftar nokkrum sekúndum síðar. Sending Gravesens fram völlinn og inn fyrir vörnina var glæsileg.

Þetta minnti óþægilega á mark sem Rúmenar gerðu á Laugardalsvelli á sínum tíma.

Danir virðast einfaldlega einu númeri of stórir. Þess leikur er eins og spegilmynd af fyrri hálfleik í Belfast á laugardaginn: nú eru hinir með boltann og okkar menn elta.


Oooooooooooooooooh!

Eiður í dauðafæri en Sörensen ver mjög vel. Verst að dómarinn sá það ekki og dæmdi útspark...

Rangstaða

Ísland - Danmörk 0:1 strax eftir fimm mínútur - en Rommedahl var rangstæður þegar boltanum var spyrnt! Hvers vegna sýnir RÚV okkur það ekki almennilega?


Gamla veðrið

Sól og sunnan andvari á Akureyri.

Gamla verðið

Ég fékk sendar upplýsingar áðan frá Úrvali-Útsýn um borgarferðir sem ferðaskrifstofan býður upp á í haust, þar á meðal til Zagreb. "Borg þotuliðsins og ein sú heitasta í Evrópu í dag. Frábært næturlíf, góður matur og fyrsta flokks verslanir á gamla verðinu!"

Ég hélt einhver hefði ruglast á borgum og væri að skrifa um Reykjavík - alveg þangað til ég las síðustu tvö orðin.


Söngmenn í Svarfaðardal

Söngmenn

Alltaf er mikið sungið í Tungurétt í Svarfaðardal skv. traustum heimildamönnum. Ég kíkti þar við um síðustu helgi, gat reyndar ekki stoppað lengi, en söngurinn ómaði allan þann tíma. En skv. rituðum heimildum skortir aldrei neitt á stemmninguna í réttinni eða hjá gangnamönnum svarfdælskum yfirleitt. Ég leyfi mér að benda á bráðskemmtilega grein Hjörleifs Hjartarsonar um málið, á dalvíska fréttavefnum www.dagur.net því til sönnunar.

 


Að halda sér á jörðinni

Það er eflaust eins og að bera vatn í bakkafullan læk að tjá sig um sigur Íslands á Norður-Írlandi í undankeppni EM á laugardaginn, en ég stenst þó ekki mátið.

Mér er til efs að íslenskt landslið hafi leikið betur á útivelli í riðlakeppni stórmóts en í fyrri hálfleiknum í Belfast. Frammistaðan var allt að því fullkomin, eins og mig minnir Eyjólfur Sverrisson, þjálfari liðsins, hafi sagt í Belfast. Liðið var einfaldlega frábært.

Það var ótrúlegt að fylgjast með leiknum í sjónvarpinu; hvernig Íslendingar héldu boltanum og léku honum á milli sín af miklu öryggi. Heimamenn hlupu um, reyndu að ná tuðrunni af gestum sínum en gekk illa. Í gegnum árin hefur þessu oft verið öfugt farið.

Íslendingar vörðust afskaplega vel, allir sem einn, og sóknarleikurinn var líka til fyrirmyndar - enda gerði liðið þrjú mörk í fyrri hálfleiknum.

Vissulega verður að hafa í huga að Norður-Írar eru slakari en ýmsir andstæðingar Íslendinga í gegnum tíðina og samanburður því ekki sanngjarn að öllu leyti. En það er oft meira en að segja það að vinna lið sem eru ekki talin sérstaklega góð. Það er eldgömul staðreynd en sígild. Hvað þá á útivelli. Og hafa verður í huga að Ísland er langt á eftir Norður-Írlandi á títtnefndum styrkleikalista FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins. Íslenska liðið er sem sagt ekki sérlega hátt skrifað í knattspyrnuheiminum frekar en áður, en sýndi í Belfast hvers það er megnugt þegar hugur fylgir máli og allir leggjast á eitt.

Skiljanlegt er að þjóðin bíði spennt eftir leiknum við Dani í kvöld í Laugardalnum. Fólk verður samt að passa sig. Það hefur oft komið okkur í koll að fyllast mikilli bjartsýni; gott dæmi um það er þegar Ísland tók á móti Austur-Þýskalandi í Laugardalnum fyrir nítján árum, sumarið 1987, í undankeppni EM. Allar okkar skærustu stjörnur voru með, þjóðin þekkti lítið til austur-þýska liðsins og bjartsýnin var mikil. En í leikslok var sigurbrosið frosið, gestirnir sigruðu 6:0.

Síðast þegar Ísland og Danmörk mættust urðum við einnig að sætta okkur við 6:0 tap, á Parken í Kaupmannahöfn í undankeppni HM. Fyrirliði Íslands þá var Eyjólfur Sverrisson og þetta var síðasti leikur hans sem leikmanns með landsliðinu. Hann er nú tekinn við stjórnvelinum sem þjálfari og er í meðbyr eftir frábæra byrjun í Belfast. Áætlun hans gekk fullkomlega upp þar, vonanandi verður það sama upp á tengingnum í kvöld og fróðlegt að sjá hvort hann á eftir að koma Dönum á óvart.

Hæfaleikaríkasti knattspyrnumaðurinn á Windsor Park í Belfast á laugardaginn var íslenskur, Eiður Smári Guðjohnsen, og enginn stendur honum framar í danska liðinu - þrátt fyrir stjörnum prýddan hóp frænda vorra. En það er alls ekki nóg. Liðsheildin skiptir mestu máli, hún var ótrúlega sterk í Belfast og hrein unun að sjá hvernig varnarmenn, miðvallarleikmenn og sóknarmenn unnu saman, vörðust og sóttu sem einn maður, og ef liðið leikur jafnvel í kvöld og þá, getur allt gerst. En vara verður við of mikilli bjartsýni. Við höfum aldrei unnið Dani á knattspyrnuvelli. Ekki enn...


Veðurfrétt

Engin ástæða er til þess að ljúga um veðrið á Akureyri í dag frekar en aðra daga. Nú er skítakuldi í höfuðstað Norðurlands, sterk norðanátt og heldur ömurlegt að koma út, satt að segja. Ekki orð um það meir...

Flott vaka

Tónleikar
Mér fannst, í stuttu máli sagt, Akureyrarvakan á laugardaginn mjög vel heppnuð. Sinfóníutónleikarnir mjög góðir, lokaatriðið á Ráðhústorgi alveg frábært og mér skilst að flest eða jafnvel allt af því sem boðið var uppá hér og þar um bæinn að deginum til hafa verið geysilega skemmtilegt.

Fleiri myndir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband