Í ökla eða eyra

Sara fékk göt í eyrun í dag en ég er hálf slæmur í öklanum.

Þetta seinna er reyndar bara lygi, en lítur svo flott út.

Ég er hins vegar að drepast í öðru eyranu, bólginn, sýktur og hálf heyrnarlaus. Læknirinn leit þar inn og spurði hvort fluga hefði flogið inn í eyrað og stungið undirritaðan. - Ekki svo ég viti, sagði ég. Fékk dropa sem ég notaði einu sinni, í gærkvöldi, en týndi þeim einhvern veginn í ósköpunum heima og þurfti að fara aftur í dag - til sama læknis - og fékk aftur eins dropa! Vona að þetta lagist því ég má ekki vera að því að liggja flatur. Þarf að vinna.


080897 og 080806

Konurnar
Er ég að verða gamall? Litla barnið mitt, Sara, sofnaði átta ára í gærkvöldi en vaknaði níu ára í morgun. Söru var stillt upp við mælistiku á vegg áður en hún sveif inn í draumaheiminn í gær og Alma segir að hún hafi stækkað í nótt, á að giska um hundraðshluta úr millimetra miðað við lýsinguna.

Bláberin líklega orðin þroskuð

Mér til mikillar gleði er líklega orðið tímabært að fara í berjamó og ná sér í þau bláu. Þau virðast orðin þroskuð - sönnun þess sá ég annars vegar á svölunum hjá mér í gær og hins vegar á einum veggja hússins míns: fagurbláan fuglaskít!


Ronnie og Guddy

EMD í dag
Kollegar mínir á El Mundo Deportivo halda ekki vatni yfir Eiði Smári Guðjohnsen og hve vel þeir ná saman hann og Ronaldinho, Ronnie og Guddy eru þeir kallaðir. Guddy skoraði í báðum leikjum helgarinnar í æfingaferð Barca vestan hafs. Mogginn minn segir líka frá því í dag að Frank Rijkaard þjálfari Barcelona ætli sér að nota Eið Smára sem sóknarmann, en ekki láta hann leika á miðjunni eins og Mourinho gerði hjá Chelsea síðustu tvo vetur. Hér til hliðar er forsíða El Mundo Deportivo í dag. Hitt íþróttadagblaðið í Barcelona, Sport, er ekki síður hrifið af samspili íslenska víkingsins og brasilíska sambameistarans og telur þá ná einstaklega vel saman.

Fleiri myndir

Ein með öllu

Ein með öllu 1

Mikið fjör var á hátíðinni Einni með öllu á Akureyri um helgina. Því miður er ekki hægt að segja að hver einasti gestur bæjarins að þessu sinni hafi verið með öllum mjalla en flestir skemmtu sér konunglega. Ég veit ekki nákvæmlega hve margir komu til bæjarins, en líklega bættist annað eins við þau 17 þúsund sem hér búa þannig ekki er óeðlilegt að í því fé hafi fundist misjafn sauður. Ég var svolítið á ferðinni í bænum um helgina og hér fylgja nokkrar myndir með að gamni.


Fleiri myndir

Ágætis endir . . .

Sigur Rós í Ásbyrgi 1

Ásbyrgi Park verður kannski nefndur í sömu andrá héðan í frá og Hyde Park í London og Central Park í New York þegar eftirminnilega tónleika ber á góma. Ég fullyrði að minnsta kosti að veisla Sigur Rósar í náttúruundrinu í þjóðgarðinum fyrir austan á eftir að lifa lengi í minningunni og umgjörðin verður varla fegurri. Ein mynd birtist með grein minni í Morgunblaðinu í dag um upplifunina í Ásbyrgi og þessum pistli hér á blogginu fylgir slatti í viðbót. Ég leyfði mér að segja í blaðinu í dag að hversdagsleg stund undir hundrað metra háum hamraveggnum innst í Ásbyrgi sé yndisleg í góðu veðri en þegar tvö stórbrotin náttúrufyrirbæri - Ásbyrgi og Sigur Rós - verði eitt um stund geti útkoman ekki orðið annað en ógleymanleg; allt að því ólýsanleg.

Föstudagskvöldið síðasta viðraði vel til tónlistarlegra loftárása í náttúruperlunni í Kelduhverfi þó svo hann mígrigndi skammt vestar á Tjörnesinu nokkru áður. Um 20 stiga hiti var í byrginu um kvöldmatarleytið.

Áður en rökkva tók drógu krakkar rauða flugdreka á loft eða léku sér í fótbolta í góða veðrinu og ekki bærðist hár á höfði þegar Sigur Rós hóf leik um klukkan hálf tíu.

Talið er að um fjögur þúsund manns hafi verið saman komnir til þess að hlýða á meistarana í þessari mögnuðustu hljómsveit samtímans hérlendis og þótt víðar væri leitað.

Í forrétt hafði verið boðið upp á þriggja stundarfjórðunga göngutúr frá tjaldstæðinu yst í byrginu og sama leið á tveimur jafnfljótum til baka var svo í eftirrétt laust eftir miðnætti.

Aðalrétturinn var framborinn undir hamraveggnum, í landsins besta tónlistarsal ef að líkum lætur. Sal sem kostaði ekki krónu! Og þvílíkar kræsingar; fimm stjörnur fyrir hráefni, matreiðslu og þjónustu. Ein að auki fyrir "salinn" og sú sjöunda fyrir veðrið! Fullkomin kvöldstund.

Þetta voru síðustu tónleikar Sigur Rósar á rúmlega eins árs löngu ferðalagi um gjörvalla heimsbyggðina, en þreyta var ekki merkjanleg. Tónlistarmennirnir virtust njóta stundarinnar eins og þeir sem utan sviðsins stóðu.

Lög af Ágætis byrjun, ( ) og Takk hljómuðu í nærri tvo og hálfan klukkutíma og allir fóru sáttir heim. Það eina góða við að tónleikunum lauk, að mínu mati, var að með hverri mínútu þaðan í frá styttist í að hægt verði að eignast þá á geisladiski eða DVD!

Að lokum er vel við hæfi að segja: Takk, þetta var Ágætis endir.


Fleiri myndir

Gulur, rauður, grænn og blár . . .

Þúsundir fylgdust með glæsilegri flugeldasýningu á Akureyrarvelli laust fyrir miðnættið, þegar hátíðinni Einni með öllu var formlega slitið. Sýningin var faglega framreidd; byrjaði fremur rólega og fólk gantaðist með að þetta væri nú bara eins og lítill fjölskyldupakki - en seinni hlutinn var stórbrotinn og mannfjöldinn hrópaði, blístraði og klappaði í þakkarskyni.

Hér væri vel við hæfi að setja inn glæsilega ljósmynd af gulum, rauðum, grænum og bláum flugeldum, en ég nenni því ekki núna! Bendi forvitnum á Morgunblaðið á þriðjudaginn!

Rétt er að geta þess að Veðurstofa Skapta er tekinn aftur til starfa. Veðrið í kvöld var sem sagt yndislegt á Akureyri - logn og hlýtt.


Veðurfrétt

Sólin er enn ekki farin að skína á Akureyri í dag, vestanstrekkingur var í morgun og svalt. Veðurstofa Skapta er þar af leiðandi í verkfalli.

Fullur bær

Tjaldstæði við Hamar

Akureyrarbær er fullur um helgina. Af gestum.

Við hokrum hér 17 þúsund hræður hversdags en nú ku allt að því annað eins í heimsókn. Tvær dætra minna, Alma og Sara, fóru með mér í rannsóknarleiðangur um kvöldmatarleytið að félagssvæði okkar Þórsara, sem er reyndar aðeins steinsnar frá heimili fjölskyldunnar. Þar voru mörg tjöld og varla hægt að koma fyrir frímerki í viðbót á blettinn norðan Bogans.

Alma og Sara standa þarna á klöppinni norðan við Lundgarð, litla húsið þar sem Magga frænka bjó árum saman - úti í sveit! Nú er Lundgarður í eigu Þórs, í löngu grónu íbúðahverfi. Mér sýnist þær systur skemmta sér ágætlega.


Mynd fyrir Siggu og Jonna

Heimsókn
Við fengum góða gesti í Borgarhlíðina í dag. Systurnar Rósa og Auður ásamt börnum sínum og körlunum, Pétri og Sæbirni, kíktu við um hádegisbil. Jonni og Sigga og Anna voru um kyrrt á Sigló og ég vil hér með sýna Jonna að krakkarnir lugu því ekki að honum að hafa farið í heimsókn til okkar. Sævar og Erna voru meira að segja á staðnum og hér urðu fagnaðarfundir.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband