Færsluflokkur: Bloggar
5.4.2006 | 09:08
Rusl
Nú er það nánast daglegt brauð, að fólk - og þá alveg sérstaklega ungt fólk - hendi rusli út á götu. Enda ber höfuðborgin þess merki eins og sjá má hér og þar. Átak Reykjavíkurborgar til þess að reyna að hafa jákvæð áhrif á það fólk, sem stundar þessa iðju, er þakkarvert en sennilega þarf miklu meira til.
Í raun og veru er óskiljanlegt, hvernig fólki dettur í hug að haga sér með þessum hætti. Er hin vel menntaða unga kynslóð kannski ekkert vel menntuð og þaðan af síður vel upp alin?
Er þetta kynslóðin, sem ætlar að taka að sér að vernda náttúru Íslands fyrir alls kyns eyðileggingaröflum?!
Fyrir utan marga vinnustaði má sjá afleiðingar af reykingum starfsmanna utan dyra. Umgengnin við næsta nágrenni vinnustaðarins er ekki upp á marga fiska.
Það er alveg ljóst að hér þarf nýtt átak og sennilega stöðugt átak. Það þarf að vera hluti af námsefni á öllum skólastigum að innræta ungu fólki mikilvægi þess að ganga vel um umhverfi sitt, hvort sem er skólann, skólalóðina, heimili sitt, vinnustað eða annað umhverfi.
Það þýðir lítið að tala um umhverfisvernd með fögrum orðum, ef við getum ekki einu sinni kennt ungu fólki að henda ekki rusli út um bílglugga.
Ruslið er greinilega að vaxa bæði höfuðborginni og nágrannasveitarfélögum yfir höfuð. Við erum að kafna í rusli, ekki sízt því, sem verður til eftir viðskipti við svonefnda skyndibitastaði.
Er ekki líklegt að ruslið verði að kosningamáli í vor?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2006 | 23:39
Ansans ólán
Það var synd að horfa upp á franska liðið Lyon tapa fyrir AC Milan í kvöld á útivelli í Meistaradeildinni. Fransmennirnir mínir voru miklu betri, en stóra liðið hafði betur á endasprettinum. Gat í raun ekkert og sigurinn var ósanngjarn.
Hemmi Gunn sagði í kvöld á Sýn að það væri sigur fyrir fótboltann að Villareal sló Inter Milan út í keppninni og ég er sammála því. Inter fór í þeim tilgangi einum til Spánar að verjast, eftir 2:1 sigur heima, og tapaði 1:0. Átti ekkert betra skilið.
Það hefði hins vegar líka verið sigur fyrir fótboltann hefði Olympique Lyonnais, eins og Lyon-liðið heitir fullu nafni, slegið Mílanómennina úr AC út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2006 | 23:32
Sögulegur dagur
Öldungamót Þórs í körfubolta fór fram í Höllinni á laugardaginn og reyndist samkoman sú heldur betur söguleg. Stórliðið Synir lands og vona eða Vinir lands og sona - man það aldrei, en forvitnir geta snúið sér til Dúdda, hann fann nafnið upp óafvitandi þegar hann mismælti sig í Sjallanum um árið - gerði sér lítið fyrir og sigraði í leik. Vann heilan leik! Og það án þess að ég væri með!
Mér finnst ósanngjarnt, bæði gagnvart félögum mínum í stórliðinu og andstæðingunum, að nefna liðið sem tapaði leiknum sögulega. Að minnsta kosti ekki strax.
Ég get staðfest að leikmenn stórliðsins voru býsna þreyttir á æfingunni í gærkvöldi, í það minnsta sumir. Moli þurfti meira að segja einu sinni að játa sig sigraðan þegar við börðumst um frákast og þá er hann illa fyrir kallaður. Hafði enda leikið fimm sinnum í 2x16 mínútur á laugardeginum. Það sýnast mér vera 160 mínútur eða nærri þrír klukkutímar. Ég hefði varla getað reimað á mig skóna eftir svoleiðis dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2006 | 23:23
Afsökunarbeiðni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2006 | 21:23
Félagi Napoleon
Arna er að gera verkefni um Animal Farm í ensku í MA þannig að ég las að gamni aftur þessa gömlu bók Orwells. Held ég hafi varla gluggað í hana síðan í MA fyrir nærri 25 árum! En djö... er hún góð. Stórfín ádeila.
Félagi Napoleon heitir sagan á íslensku, ég á eldgamla útgáfu í kilju sem gefin var út á Seyðisferði og teikningin á kápunni er snilld. Þungbrýnt svín situr í stól með pípu í kjaftinum og yfirvaraskegg Stalíns fer því hreint prýðilega. En ég verð þó að segja að það er skemmilegra að lesa bókina á ensku.
Kannski er þetta besta pólitíska ádeila sem skrifuð hefur verið.
Haldi fólk ekki vöku sinni getur samfélag breyst til hins verra á ótrúlega skömmum tíma.
Boðorðin voru ekki lengi að breytast í Animal Farm:
All animals are equal - Öll dýr eru jöfn ... var ekki lengi að breytast í ... All animals are equal but some animals are more equal than others - Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur.
Má ekki segja að Orwell hafi verið bæði dálítið glöggur á samtíma sinn og jafnvel forspár um þróun mála í veröldinni?
Bloggar | Breytt 3.4.2006 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2006 | 20:58
Gaman á Íslandsglímunni
Það var gaman á Íslandsglímunni í íþróttahúsi Síðuskóla í gær. Keppnin fór fyrst fram 1906, þetta var því 100 ára afmælismót og vel við hæfi að það færi fram í höfuðstað Norðurlands, þar sem fyrsta mótið fór fram á sínum tíma.
Keppni var spennandi svo ekki sé meira sagt, aukaglímu þurfti til að skera úr um sigurvegara bæði í karla- og kvennaflokki, og líka um þriðja sætið.
Úrslit voru óvænt í karlaflokki en þó ekkert aprílgabb að formaður Glímusambandsins skyldi vinna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2006 | 23:01
Smokey Bay
Ég stalst til Reykjavíkur um miðjan dag og kom aftur heim í kvöld. Kíkti á ársþing HSÍ í Laugardalnum. Skömmu eftir að ég lenti á Akureyri í kvöld fékk ég sms í símann með þeim upplýsingum að Þór og Fram hefðu gert jafntefli, 28:28, á Íslandsmótinu í handbolta í Höllinni. Og mínir menn voru víst óheppnir, eða klaufar, að vinna ekki leikinn. Þannig hefur það verið í sumum undanfarinna leikja enda liðið í heldur leiðinlegri stöðu.
Það var eins og að koma til útlanda að lenda í Reykjavík. Auð jörð og hlýtt í veðri. Allt á kafi í snjó fyrir norðan.
Mér finnst snjórinn fallegur, yfir vetrartímann, og á meðan hann hylur jörðina getum við að minnsta kosti verið viss um að sinueldar ógna ekki byggðinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2006 | 22:30
Marsbúinn
Tryggvi vinur minn sendi mér í dag ljóð sem heitir Marsbúinn og er svona:
Í dag er 31.mars.
Á morgun er 1.apríl.
Þá er mars búinn.
Góð!
Ég held að vísan sé komin til ára sinna. Man einhver hver höfundurinn er?
Bloggar | Breytt 3.4.2006 kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 22:02
Páskakiljur
Ég þurfti í Hagkaup í dag og rakst þar á stæður af nýjum kiljum. Rakst reyndar ekki á, í eiginlegri merkingu, en sá.
Þótt talsvert sé til páska eru súkkulaðieggin fyrir löngu komin í verslanir. Skyldi þessi óinnbundndi litteratúr vera páskakiljur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2006 | 21:46
MA-ingurinn á heimilinu brosir breitt
Arna, elsta dóttir mín, brosir breitt þessa stundina. Hún er í MA og fagnaði ákaft þegar skólinn hennar sigraði MH í undanúrslitum spurningakeppninnar Gettu betur fyrr í kvöld.
Ég get svo sem ekki neitað því að hafa glaðst líka. Gömlum MA-ingi finnst notalegt þegar skólanum hans gengur vel.
Aðrir krakkar, önnur kynslóð, sami skólinn . . .
Er það ekki annars ótrúlegt hve fróðir þessir menntaskólakrakkar eru?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)