Færsluflokkur: Bloggar

Fowler og Rooney

Afmælisbarn dagsins er Robbie Fowler framherji í Liverpool. Hann hélt upp á 31. afmælisdaginn með því að skora eina mark leiksins í sigrinum á Bolton á Anfield. Flottur!

Maður dagsins í enska boltanum er hins vegar Wayne Rooney í Manchester United sem átti stærstan þátt í 2:0 sigrinum á Arsenal. Hrikalega góður, sá gaur. Enda fæddur og uppalinn í bítlaborginni...


Hann á afmæli í dag!

Afmælisbarn dagsins

Ég sé í Fréttablaðinu að Guðjón Davíð Karlsson leikari á 26 ára afmæli í dag. Þetta er hann á myndinni, í hlutverki brúðgumans í Fullkomnu brúðkaupi sem LA sýndi við dæmalausar vinsældar í vetur. Ég sé að Geir Hilmar Haarde á líka afmæli í dag, er 55 ára. Yngsta kynslóðin heldur stundum að Geir leiki Örn Árnason í Spaugstofunni en við hin eldri vitum að hann er formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra lýðveldisins. Ég á enga ámóta mynd af honum og Góa og sýni Geir því í hefðbundnara ljósi; meðfylgjandi mynd af honum tók ég í gær á flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var á Akureyri. Til að sjá þá mynd þarf að ýta á fyrirsögnina - "Hann á afmæli í dag!" - efst í pistlinum.


Fleiri myndir

Skagamenn skora mörkin

Helga úr Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna. Lagið (gamla Ruby Tuesday) er flott og flutningurinn líka mjög góður. Þær sem ég nefndi áðan urðu í öðru og þriðja sæti þannig að mér er líklega ekki alls varnað. Verð þó aðeins að þjálfa tóneyrað áður en ég dæmi tónlist næst.

En eru ekki ægilega fáir áheyrendur í salnum? Ég man ekki betur en Höllin hér fyrir norðan væri troðfull þegar ég var að mynda keppnina hér í fyrra og fyrir þremur árum.


Eyja-Björk

"Bikarinn til Eyja!" sungu stuðningsmenn Fjölbrautarskólans í Vestmannaeyjum rétt í þessu í beinni útsendingu RÚV frá Söngkeppni framhaldsskólanna. Svei mér ef það verður ekki niðurstaðan. Ég er ekki frá því að Eyjastelpan sé best. Dálítið Bjarkarlegt lag, það skemmir varla fyrir.

Gréta Mjöll var líka flott.

Það eru að vísu ekki allir búnir. Við spyrjum að leikslokum.


Æææææðisleg lykt

Sítrónukjúklingauppáhaldsrétturinn okkar mallar þessa stundina á wokpönnunni. Ilmurinn í eldhúsinu er svo lokkandi, eins og segir í kvæðinu.

Langar einhvern í uppskriftina? Sorrí, leyndó!

Grjónin eru að verða til. Spurning um að opna eina ískalda Chablis...


Enn skúbbar Hersh

Bandaríski blaðamaðurinn Seamour Hersh heldur því nú fram að Bush hyggi á innrás í Íran. Hersh er einn þekktasti rannsóknarblaðamaður Bandaríkjanna og tíðindi eins og þessi vekja því athygli þegar þau koma frá honum.

Hersh hefur skrifað margar bækur, þar á meðal The Dark Side of Camelot sem kom út 1997 og er alveg hreint bráðskemmtileg. Þar fjallar hann um John F. Kennedy forseta og hans fólk á margvíslegan hátt og ýmislegt ber á góma; Svínaflóaævintýrið, Víetnam, kosningarnar sem Kennedyarnir "stálu" og, ja má ég kalla það óhefðbundið einkalíf í Hvíta húsinu?

Ef til vill ekki algjörlega pottþétt sagnfræði, eins og einn vinur minn og starfsbróðir sagði einhvern tíma, en ansans ósköp skemmtileg engu að síður. Segi ekki meira . . .


Útlendingar í Eyjafirði

Foreigners in the Fjord

Var að koma af opnun sýningarinnar Útlendingar í Eyjafirði í Ketilhúsinu. Mæli með henni; skemmtileg sýning sem varpar ljósi á það alþjóðlega andrúmsloft sem svífur yfir vötnum í Eyjafirði um þessar mundir. Ég efast um að fólk hafi gert sér grein fyrir því hve margir útlendingar búa í firðinum, fólk sem er að fást við mjög margvísleg störf.

Glæsileg sýning hjá nemum á öðru ári í fjölmiðlafræði við Háskólann hér á Akureyri og Markúsi kennara þeirra.

Undirtitill sýningarinnar, Við vildum vinnuafl en fengum fólk er líka alveg stórmerkilegur og segir meira en mörg orð.


HLJÓÐNEMA

Flottir MA-strákarnir! Burstuðu Versló í kvöld í úrslitum spurningakeppni framhaldsskólanna.

Þegar ég var í MA á síðustu öld voru þar til ýmis góð félög, FÁLMA og KVIKMA - Félag áhugaljósmyndara í MA og Félag kvikmyndaáhugamanna í MA - svo einhver séu nefnd. Held ég hafi verið í báðum.

Nú skilst mér á dóttur minni að m.a. sé starfandi félagið DEPPMA, félag unnenda Johnny Depp í MA!

Keppnin Gettur betur var ekki orðin að veruleika þegar við gamlingjarnir vorum í menntaskóla, en ef ... þá hefði örugglega einhver stofnað HLJÓÐNEMA... Að minnsta kosti ef verðlaunagripurinn hefði verið sá sem hann er í dag.


Prenttvilur

Ég varð fyrir því óláni í gær að detta á svelli og skaða á mér annan fingurinn frá vinstri af öllum tíu - mér er sagt að það þýði "baugfingur vinstri handar"... Fremsti hluti fingursins tættist dálítið, rifnaði og var ljótur. Talsvert blæddi og nöglin leggst væntanlega til hinstu hvíla fljótlega.

þetta eru ekki beinlínis þau meiðsli sem blaðamaður óskar sér helst en ég reyni að vanda mig. Prenntvilur gætu aukiswt, en ég vona það bwsta...


Barcelona - Arsenal

Draumaúrslitaleikur Meistaradeildarinnar í fótbolta í París í vor yrði Barcelona - Arsenal. Ekki vafi að þetta eru tvö skemmtilegustu liðin í dag og líklega þau bestu. Það fer kannski alltaf saman en þessi tvö eiga skilið Parísarferð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband