Færsluflokkur: Bækur

Enn af B og B

Athugasemd barst inn á bloggið mitt frá "afa" sem finnst vænt um að eiginkonan hafði vit fyrir mér þannig að ég henti ekki bókinni Benni og Bára. Hann er á því að bókin eigi eftir að koma sér vel og bendir mér á að athuga hvort ég finni ekki Græna hattinn, Bláu könnuna, Tralla og fleiri slíkar góðar bækur.

Það er nú svo skrýtið að á heimili mínu er allur þessi flokkur til. Ég komst að því í gærkvöldi að bókaflokkurinn ber nafnið Skemmtilegu smábarnabækurnar og ég hef í gegnum tíðina haft mjög gaman af að lesa fyrir börnin mín Græna hattinn, Bláu könnuna, Tralla og ótalmargar aðrar, líklega allar "skemmtilegu smábarnabækurnar" - nema þessa einu, Benni og Bára, sem ég hreinlega þoli ekki. Kannski er erfitt að skýra út hvers vegna, en best að koma því að strax að, að eiginkonan er á sama máli...


Leiðinlegasta bók í heimi

Varúð! Varúð!

Barnabókin Benni og Bára (appelsínugul, í einhverjum smábarnabókaflokki sem ég man ekki hvað heitir) er leiðinlegasta bók í heimi. Að minnsta kosti sú leiðinlegasta sem ég hef lesið. Og ekki bara lesið einu sinni eða tvisvar, heldur örugglega hundrað sinnum.

Það rifjaðist skyndilega upp fyrir mér á dögunum, þegar ég fann nefnda skruddu í kassa niðri í bílskúr, að ég var búinn að ákveða að vara þá kynslóð við, sem nú á börn á lesa-fyrir-á-kvöldin aldri.

Þarna í bílskúrnum stakk ég upp á því við konuna mína í fyrsta skipti að henda bók í ruslið. Við ákváðum þó að gera það ekki, aðallega vegna þess að dætur okkar eru orðnar það gamlar að nú lesa þær allt sjálfar og hafa gert lengi - líka Sara þó að hún sé ekki nema átta ára. Það er sem sagt engin hætta á að maður þurfi að fletta Benna og Báru framar.

En þau skötuhjú verða falin í neðstu skúffunni ef ég verð einhvern tíma afi.


BOBBY FISCHER GOES TO WAR

Helvíti góð bók, Bobby Fischer goes to war. Keypti hana í Bókvali-Pennanum í janúar 2004. Eftir það fluttist Fischer til Íslands - gerðist raunar Íslendingur. Hann virtist þá í stríði við allt og alla, en hefur farið varlega síðan þá. Ég átti við hann fínt viðtal sem birtist í Mogganum einhvern tíma fljótlega eftir að hann kom hingað norður í r...gat. Sérkennilegur náungi en skemmtilegur, Fischer.

Sylvia Plath

Einu sinni var kona sem hét Sylvia Plath. Hún ákvað sjálf dagsetningu eigin brottfarar af þessu tilverusviði. En helvíti góður rithöfundur var hún samt, kannski þess vegna. Glerhjálmurinn er góð bók. Í þýðingu vinkonu minnar Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur hefst bókin svona:

"ÞETTA VAR UNDARLEGT og þjakandi sumar, sumarið sem þeir tóku Rosenberg-hjónin af lífi með raflosti, og ég vissi eiginlega ekki hvað ég var að gera í New York. Ég veit ekkert um aftökur."

Ef svo ólíklega vill til að einhverjir vina minna - þeirra sem hafa gaman af bóklestri yfirleitt - hafi ekki lesið Glerhjálminn, ráðlegg ég þeim að drífa í því.


Jónas og hinir

Ég gleymi því aldrei þegar meistari Tryggvi, sem kenndi okkur "Íslenskar bókmenntir" eins og ég held að það hafi heitið í MA, greindi íslensk ljóðskáld í tvo "hópa": Annars vegar er Jónas Hallgrímsson og hins vegar allir hinir!

- - - - - -

Skein yfir landi sól á sumarvegi

og silfurbláan Eyjafjallatind

gullrauðum loga glæsti seint á degi.

. . . . . 

Þar sem að áður akrar huldu völl

ólgandi Þverá veltur yfir sanda;

sólroðin líta enn hin öldnu fjöll

árstrauminn harða fögrum dali granda;

flúinn er dvergur, dáin hamratröll,

dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda;

en lágum hlífir hulinn verndarkraftur

hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.

- - - - - -

Þurfti að yrkja meira?


Ský yfir 603?

Ég nenni ekki út að gá en liggi hvítlauksský yfir 603 er það mér að kenna.

Ástæðan: metsölubókin Brauðréttir Hagkaupa, bls. 142

Kvartanir sendist Hæstarétti, þakkir sendist mér.


Lostæti

Brauðréttir Hagkaupa, bls. 142

Enn skúbbar Hersh

Bandaríski blaðamaðurinn Seamour Hersh heldur því nú fram að Bush hyggi á innrás í Íran. Hersh er einn þekktasti rannsóknarblaðamaður Bandaríkjanna og tíðindi eins og þessi vekja því athygli þegar þau koma frá honum.

Hersh hefur skrifað margar bækur, þar á meðal The Dark Side of Camelot sem kom út 1997 og er alveg hreint bráðskemmtileg. Þar fjallar hann um John F. Kennedy forseta og hans fólk á margvíslegan hátt og ýmislegt ber á góma; Svínaflóaævintýrið, Víetnam, kosningarnar sem Kennedyarnir "stálu" og, ja má ég kalla það óhefðbundið einkalíf í Hvíta húsinu?

Ef til vill ekki algjörlega pottþétt sagnfræði, eins og einn vinur minn og starfsbróðir sagði einhvern tíma, en ansans ósköp skemmtileg engu að síður. Segi ekki meira . . .


Félagi Napoleon

Arna er að gera verkefni um Animal Farm í ensku í MA þannig að ég las að gamni aftur þessa gömlu bók Orwells. Held ég hafi varla gluggað í hana síðan í MA fyrir nærri 25 árum! En djö... er hún góð. Stórfín ádeila.

Félagi Napoleon heitir sagan á íslensku, ég á eldgamla útgáfu í kilju sem gefin var út á Seyðisferði og teikningin á kápunni er snilld. Þungbrýnt svín situr í stól með pípu í kjaftinum og yfirvaraskegg Stalíns fer því hreint prýðilega. En ég verð þó að segja að það er skemmilegra að lesa bókina á ensku.

Kannski er þetta besta pólitíska ádeila sem skrifuð hefur verið.

Haldi fólk ekki vöku sinni getur samfélag breyst til hins verra á ótrúlega skömmum tíma.

Boðorðin voru ekki lengi að breytast í Animal Farm:

All animals are equal - Öll dýr eru jöfn ... var ekki lengi að breytast í ... All animals are equal but some animals are more equal than others - Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur.

Má ekki segja að Orwell hafi verið bæði dálítið glöggur á samtíma sinn og jafnvel forspár um þróun mála í veröldinni?


Páskakiljur

Ég þurfti í Hagkaup í dag og rakst þar á stæður af nýjum kiljum. Rakst reyndar ekki á, í eiginlegri merkingu, en sá.

Þótt talsvert sé til páska eru súkkulaðieggin fyrir löngu komin í verslanir. Skyldi þessi óinnbundndi litteratúr vera páskakiljur?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband