Færsluflokkur: Dægurmál

Samtaka nú!

Samtaka

Það var um leið og Arna hljóp út í gærkvöldi og náði í þvottinn á snúruna vegna þess að byrjað var að snjóa, að ég mundi eftir því að knattspyrnuvertíðin er að hefjast á Íslandi. 

Kannski eru ýkjur að halda því fram að það hafi snjóað, en lóðin gránaði um hríð og trampólínið fyrir utan eldhúsgluggann minn leit út eins og þar hefðu verið skilin eftir 10 kíló hveitis - án umbúða. Og þó, það eru kannski líka ýkjur; segjum 5 kíló. Það er í það minnsta ekki ofsagt. Ég sver það!

Úrvalsdeild karla hefst um helgina eins og neytendur fjölmiðla hafa séð upp á síðkastið. Og boltinn byrjar líka að rúlla, eða skoppa - það fer eftir vallaraðstæðum - í 1. deildinni. Mínir menn í Þór eiga að mæta vinum sínum í KA í fyrstu umferðinni á sunnudaginn, og ég veit ekki betur en spila eigi á Akureyrarvelli. Vona að Steini og Bjössi nái að sópa snjónum í burtu.

Annars hafa aðstæður til knattsparks oft verið verri á Akureyri en nú. Ég man eftir því að seint í maí 1995 kom ég hingað norður með hóp norrænna íþróttafréttamanna. Þeir voru hérlendis á þingi á vegum okkar, íslenskra starfsbræðra sinna - og þá var allt á kafi í snjó. Við fórum m.a. upp á golfvöll og skandinavísku vinir okkar brostu út í annað þegar þeim var sagt að Arctic Open færi fram eftir þrjár vikur. En golfmótið fór auðvitað fram að venju. Hlutirnir gerast jafnan hratt á Íslandi; ekki bara þegar menn vilja kaupa sér fyrirtæki. Náttúran getur líka verið snögg til.

Aðeins um myndina. Þetta eru glæsilegir menn, nokkrir Þórsarar á Pollamóti Þórs í fyrrasumar. Mér finnst samt ótrúlegt að sjá Helga Pálsson jafnaldra minn þarna, nýfermdan. Hvað er hann að gera með liði 40 ára og eldri?

Hvað um það. Héðan af sjúkrabeðinum óska ég mínum mönnum góðs gengis í sumar.


Örljóð VI

(um ástand mitt eftir nokkurra daga dvöl undir sæng vegna flensu)

 

Líklegur


Flensa III

asdf&%sdgj==09 asdfælkj ads  2q35 asdklæj

 

(þetta er dulmál fyrir það að ég sé nánast með óráði...)


Flensa II

Ekkert skárri.

 

Verri ef eitthvað er . . .


Flensa I

Ligg í flensu. Of máttfarinn til þess að skrifa meira...

 

Sorrí, kannski í kvöld.


Heimþrá

c_skapti_listasafn.jpg

Hannes sýnir nú heimþrá í Listsafninu. Þar er allt í drasli. Ekki að Hannes hafi ekki tekið til en óhætt er að segja að á hluta verkanna, ljósmyndunum, sé allt í drasli. Sjón er sögu ríkari.

En það var næs við opnunina á laugardaginn. Rauður ellefu prósent berjasafi í boði og fólk skrafaði í rólegheitum.


Veðrið í 603

Hlýtt, norðan gjóla, þoka í grennd. Engin gráð.

Ég játa!

Dyggur lesandi þessa unga fjölmiðils kvartaði í kvöld undan dugleysi ritstjórans við skriftir síðustu dægur.

Sekt skal hér með játuð.

Þess er jafnframt óskað að sá kæri vinur, sem samband hafði við mig, svo og aðrir sem kunna að hafa liðið ámóta kvalir og hann og neyðst til þess að horfa á sjónvarpið þegar kvölda tekur í stað þess að sitja við tölvuna, hætti við að segja upp áskriftinni. Ég verð að eiga fyrir mat handa börnunum!

Ég heiti því hér og nú að raða saman nokkrum orðum daglega í þennan fjölmiðil. Suma daga  eru annir miklar í hinni vinnunni, eða ég latur - en þá daga mun ég samt skrifa eitthvað. Stundum kannski bara stutt ljóð, en fari ljóð niður í eitt orð táknar það annað hvort afar miklar annir, eða ólæknandi leti.


KEA-veðrið

Skyldi aðalfundi KEA hafa verið frestað?

Er það kannski bara goðsögn að veðrið sé alltaf vont þegar KEA heldur aðalfundinn?

Nú er alvöru vor í lofti í höfuðstað Norðurlands, kannski sumar. Við Dóri granni fórum meira að segja út á lóð áðan.


Gott eða slæmt?

Félagi minn í Danmörku sendi mér eftirfarandi athugasemd, vegna viðskiptafréttarinnar sem ég skrifaði í gærkvöldi um bjór og miðaverð á ensku bikarúrslitaleikinn.

Hann segir:

"Skondið fyrir okkur Danina að þú berir verð miðans við verð bjórs, því þú ert væntanlega að bera saman við íslenskt verð. 95000 ísl kr myndu duga fyrir allavega 95 kössum af bjór hér í Danmörku. Reyndar ekki kassar með 1/2 líters dósum enda drekka Danir ekki slíkt, finnst það fáránlegt að gera það enda er bjórinn flatur þegar maður er hálfnaður með dósina."


Það er mikið rétt hjá Rúnari Birgi að ég ber saman verð bjórs á Íslandi við verð miðans, jafnvel þótt bloggsíðan mín sé alþjóðlegur fjölmiðill !

Ég held bara að það sé of hættulegt að miða við verð bjórs í Danmörku. Vísitalan gæti farið á skrið hér uppi á nýlendunni gömlu.

Það er svo spurning hvort það er gott eða slæmt hve marga bjóra Danir geta keypt fyrir andvirði miðans. En ég skil ekki alveg þetta með að bjórinn verði flatur - þeir drekka þá bara ekki nógu hratt !


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband