Færsluflokkur: Dægurmál

Góðviðri og jólastemmning

Fegurð
Veðrið var frábært í Eyjafirðinum í gær og er raunar í dag líka, þó svo spáin hafi ekki verið góð. Gríðarlegur fjöldi var í Hlíðarfjalli, og greinilega allt troðfullt af farartækjum því bílum var lagt langt niður á veg. Við fórum hins vegar vopnuð þotum og sleðum upp undir Súlumýrar með Ölmu og Söru og með í för voru líka Karen og Aron. Það var gaman og útsýnið glæsilegt. Set hér nokkrar myndir úr túrnum, og líka frá heimsókn til Benna í Jólahúsið inni í Eyjafjarðarsveit síðar um daginn. Ýtið á fyrirsögn pistilsins til þess að sjá fleiri myndir.

Fleiri myndir

254 dagar til jóla

Hangikjötsilmurinn troðfyllti Jólahúsið í Eyjafjarðarsveit í dag. Benni brosti breitt að vanda en var ekki með jólasveinaskeggið. Ekki byrjaður að safna, enda 254 dagar til jóla skv. skilti utan við húsið. En mér sýndist hann farinn að hlakka til jólanna og ég ákvað að herma. Er sem sagt formlega farinn að hlakka til jólanna.

Skyrdagur

Ég átti einu sinni vin sem var ekkert allt of flinkur í stafsetningu. En hann var trúaður, og fékk sér þess vegna alltaf skyr fimmtudaginn fyrir páska; á skírdag, skyrdag, eins og hann hélt . . .

Það var tilviljun en við borðuðum reyndar skyrtertu í eftirrétt í kvöld. Hún var góð, enda heimalöguð.


Nesti og nýir skór . . .

Ég legg til  að þeir, sem hafa tjáð sig um hugsanleg ferðalög - í framhaldi skrifa minn hér á veraldarvefnum - verði í sambandi við þann ljúfa dreng skapti@mbl.is - Við gætum haldið upp á afmælið mitt, 22. apríl, með þvi að horfa á Liverpool-Chelsa þann dag á Old Trafford í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

Ég held með Liverpool; það er ekkert leyndarmál. En líka með Eiði vitaskuld, þannig að ég get ekki tapað . . .

Hver vill koma með?


Kenny D

Allt annað mál með Kenny D en kenny G.

Kenny D(alglish) er líklega einn allra besti fótboltamaður sögunnar. Og mjög sigursæll sem þjálfari.

Ég hitti hann fyrst 1979, síðan 1984 og svo reglulega í nokkur ár eftir það.

Liverpool kom og keppti afmælisleik gegn KR í Laugardalnum 1984. Daginn eftir fékk ég, blaðamaðurinn, að sitja í rútunni sem ók hetjunum til Keflavíkur.

Þá spurðu KD og Phil Neal, þáverandi fyrirliði, hvort ég hefði heyrt eitthvað um að félagið væri að kaupa danskan miðvallarleikmann frá Hollandi.

Sorry, ég vissi ekki neitt. En þeir höfðu greinilega einhverja vitneskju; skömmu síðar var tilkynnt um kaup Liverpool á Jan Mölby.

En við KD spjölluðum nokkrum sinnum saman eftir þetta, bæði í síma og undir fjögur augu. Fínn náungi KD, og einhvern veginn leit maður öðrum augum á alla þessa atvinnufótboltamannagaura en áður eftir að hafa kynnst Dalglish.

Hann er goðsögn. Ógleymanlegur, þeim sem sáu í aksjón. Ekkert sérstaklega skrafhreifinn fyrst,  áður en maður kynntist honum þokkalega, en fínn náungi. Tölfræðin lýgur ekki.

"Bö hísa smassin lad hí is"


Kenny G

Heyrði fyrst í honum á setningarhátíð Friðarleikanna (Goodwill Games) árið 2000 í Seattle í Bandaríkjunum. Flottur staður, skemmtilegt mót, en Kenny G eltist ekkert sérlega vel. Átti þó nokkur mjög fín lög.

BOBBY FISCHER GOES TO WAR

Helvíti góð bók, Bobby Fischer goes to war. Keypti hana í Bókvali-Pennanum í janúar 2004. Eftir það fluttist Fischer til Íslands - gerðist raunar Íslendingur. Hann virtist þá í stríði við allt og alla, en hefur farið varlega síðan þá. Ég átti við hann fínt viðtal sem birtist í Mogganum einhvern tíma fljótlega eftir að hann kom hingað norður í r...gat. Sérkennilegur náungi en skemmtilegur, Fischer.

I kill people for money . . .

Ég átti einu sinni ísraelskan vin sem sagði sama brandarann í mörg ár.

Kannski var það vegna upprunans, kannski ekki. En brandarinn snérist um samtal tveggja vina, annar var að ljóstra því upp hvað hann hefði að lifibrauði - en skaut því að í leiðinni hvað honum þætti vænt um vin sinn:

"I kill people for money but you my friend so I kill you for nothing"


Sylvia Plath

Einu sinni var kona sem hét Sylvia Plath. Hún ákvað sjálf dagsetningu eigin brottfarar af þessu tilverusviði. En helvíti góður rithöfundur var hún samt, kannski þess vegna. Glerhjálmurinn er góð bók. Í þýðingu vinkonu minnar Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur hefst bókin svona:

"ÞETTA VAR UNDARLEGT og þjakandi sumar, sumarið sem þeir tóku Rosenberg-hjónin af lífi með raflosti, og ég vissi eiginlega ekki hvað ég var að gera í New York. Ég veit ekkert um aftökur."

Ef svo ólíklega vill til að einhverjir vina minna - þeirra sem hafa gaman af bóklestri yfirleitt - hafi ekki lesið Glerhjálminn, ráðlegg ég þeim að drífa í því.


Í ham

Ég vona að lesendur þessa einkafjölmiðils míns fyrirgefi lætin í kvöld. Stundum langar mig að skrifa mikið og þá er ritstjórnarstefnan bara þannig að magnið ríður rækjum, afsakið; ræður ríkjum. Þeir sem ekki nenna að lesa segja einfaldlega upp áskriftinni, sem er reyndar ekki hægt. Þeir sem hafa gaman af mega hins vegar leggja eina krónu hver inn á 565-26-190 . . .

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband