Færsluflokkur: Dægurmál

Í greninu

Gamall óvinur, mígrenið, sótti mig heim síðustu nótt og hefur verið í heimsókn í dag. Ég skreið á lappir undir kvöld en er ekki til stórræðna. Kíkti þó niður í Hamar áðan og tók á móti strákunum í 3. flokki Þórs í fótbolta sem urðu Íslandsmeistarar í dag. Unnu FH 3:1 í úrslitaleik í Mosfellsbæ.

Þetta er glæsilegur hópur og það voru stoltir foreldrar strákanna, aðrir ættingjar og vinir, og forráðamenn félagsins, sem tóku á móti strákunum í Hamri núna áðan.

Strákarnir unnu hvern einasta leik sinn á Íslandsmótinu í sigur sem er ótrúlega glæsilegur árangur. Ég ætla að setja mynd úr Hamri hér inn á bloggið í fyrramálið.


Akureyri fékk bronsið...

Sjallamótinu í handbolta lauk í dag. Ég var að vísu ekki viðstaddur síðari hluta mótsins og get því ómögulega sagt með vissu hvernig fór... En heimildamenn segja mér að Akureyri hafi gert jafntefli gegn ÍR í morgun og tapað naumlega fyrir Fylki. Liðið AKureyri 1 varð því í þriðja sæti og fékk bronsið og Akureyri 2 varð í fjórða sæti, af fjórum.

Heimasíða Akureyrar - handbolta er ekki alveg tilbúin og á meðan bendi ég á ítarlega umfjöllun um Sjallamótið, og allt annað er kemur liðinu okkar við, á www.ka-sport.is/hand þar sem Gústi og Stebbi fara hamförum.


Rétt skal vera rétt

Í Skógarrétt
Ég vona að það sjáist ekki hve hægt ég pikka á tölvuna núna; maður er dálítið lúinn í framlöppunum eftir að hafa eytt hluta úr deginum í að draga (sér) fé. Fjölskyldan skrapp austur í Skógarrétt í Aðaldalnum og hjálpaði til við að allar kæmust skjáturnar á sinn stað. Og það var auðvitað mjög skemmtilegt. Dæturnar voru ótrúlega öflugar og ég held að í mér hafi lifnað við eldgamall draumur um bónda...

Hvad for noget?

c_documents_and_settings_user_desktop_25_plus.jpg

Nú er um það bil átta stiga hiti á Akureyri, sunnanvindur og regndropar annað veifið. Myndin er sem sagt ekki tekin í dag - hún er bara svo flott að mig langaði að birta hana... Þetta er frægasti hitamælir Íslands, á Ráðhústorginu á Akureyri. Sumir halda að sérstakur hitari sé inni í turninum, en það eru reyndar bara öfundsjúkir íbúar borgarhornsins.


Leynifangelsi

Einþáttungurinn "Blaðamannafundur í Hvíta húsinu"; leikarar: George Bush og óþekkti blaðamaðurinn, e.t.v. Seymour Hersh.

- Leinifangelsi?! Hvað áttu við?!

- Ég á bara við það sem ég segi: Leynifangelsi.

- Já, þú meinar leynifangelsin. Fyrirgefðu, ég misskildi þig. Hélt þú hefði sagt leinifangelsi.


Hann á afmæli í dag...

Alli Gísla fagnar 47 ára afmælinu í dag. Hann hefur líklega varla getað fengið betri afmælisgjöf en sigur á Kiel í gærkvöldi á útivelli. Kiel hafði ekki tapað deildarleik heima í þrjú ár held ég, og Gummersbach ekki unnið í Ostseehalle í Kiel í þrettán ár!

http://www.vfl-gummersbach.de/


Marseillasinn flottur

Franski þjóðsöngurinn er alltaf flottur og hljómaði fallega á Stade de France rétt í þessu. Danski þjóðsöngurinn er líka flottur en ég verð að segja að mér fannst ekki skemmtilegt að hlýða á hann áðan í beinni úr Laugardalnum. Hvers vegna lætur KSÍ alltaf óperusöngvara flytja þjóðsöngvana? Þeir syngja auðvitað vel en það dregur úr stemmningunni að mínu mati. Gott dæmi um það er danski þjóðsöngurinn; það er ólíkt skemmtilegra að hlusta á hann á Parken en eins og hann var fluttur í kvöld.

Gamla veðrið

Sól og sunnan andvari á Akureyri.

Gamla verðið

Ég fékk sendar upplýsingar áðan frá Úrvali-Útsýn um borgarferðir sem ferðaskrifstofan býður upp á í haust, þar á meðal til Zagreb. "Borg þotuliðsins og ein sú heitasta í Evrópu í dag. Frábært næturlíf, góður matur og fyrsta flokks verslanir á gamla verðinu!"

Ég hélt einhver hefði ruglast á borgum og væri að skrifa um Reykjavík - alveg þangað til ég las síðustu tvö orðin.


Söngmenn í Svarfaðardal

Söngmenn

Alltaf er mikið sungið í Tungurétt í Svarfaðardal skv. traustum heimildamönnum. Ég kíkti þar við um síðustu helgi, gat reyndar ekki stoppað lengi, en söngurinn ómaði allan þann tíma. En skv. rituðum heimildum skortir aldrei neitt á stemmninguna í réttinni eða hjá gangnamönnum svarfdælskum yfirleitt. Ég leyfi mér að benda á bráðskemmtilega grein Hjörleifs Hjartarsonar um málið, á dalvíska fréttavefnum www.dagur.net því til sönnunar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband