Færsluflokkur: Dægurmál

Veðurfrétt

Engin ástæða er til þess að ljúga um veðrið á Akureyri í dag frekar en aðra daga. Nú er skítakuldi í höfuðstað Norðurlands, sterk norðanátt og heldur ömurlegt að koma út, satt að segja. Ekki orð um það meir...

Flott vaka

Tónleikar
Mér fannst, í stuttu máli sagt, Akureyrarvakan á laugardaginn mjög vel heppnuð. Sinfóníutónleikarnir mjög góðir, lokaatriðið á Ráðhústorgi alveg frábært og mér skilst að flest eða jafnvel allt af því sem boðið var uppá hér og þar um bæinn að deginum til hafa verið geysilega skemmtilegt.

Fleiri myndir

Endurskoðað áhættumat staðfestir fyrra mat

Á stjórnarfundi heimilisins var í dag lagt fram endurskoðað áhættumat vegna blómakassans í suðaustur horni lóðarinnar. Eiginkona mín, húsbóndinn á heimilinu og eigandi kassans, ákvað á sínum tíma að engin hætta stafaði af blómakassanum. Endurskoðað áhættumat staðfestir fyrra mat og verður því haldið áfram með framkvæmdina eins og ráðgert var. 

Smá sprell í brúðxxxxx, fyrirgefiði, afmælinu

Sprellið

Guffa systir og Siggi héldu upp á fertugsafmælin sín um daginn og var það aldeilis fínt teiti. Takkastjóri hér var í ágætis stuði, át vel og fékk sér aðeins neðan í því - óverulega þó enda dannaður náungi, en dansaði meira en samanlagt síðasta áratuginn. Maður svitnar við það, því var ég búinn að gleyma.

Við sprelluðum aðeins í afmælinu. Margir bjuggust við því að parið tilkynnti að hér væri ekki einungis um afmæli að ræða heldur og giftingu - ég vissi um einn sem var með aukaumslag í jakkavasanum -  en systir mín tók skýrt fram í upphafi að þau hefði ekki verið að gifta sig! Við stóðumst samt ekki mátið þegar Solla systir fékk þá bráðsnjöllu hugmynd að panta prest sem hún kannast við; Solla hringdi sem sé í séra Óskar í Akureyrarkirkju sem býr í grennd við veislusalinn, hann brást skjótt við og ég kynnti hann sem leynigest. Hann sagðist vitaskuld hafa verið pantaður á staðinn, spurði hvar brúðhjónin væru og fær 10 plús fyrir leik.l Ég komst að því á eftir að Óskar er uppalinn á Laugarvatni eins og Siggi og foreldrar þeirra eru mikið vinafólk.

Þessi litla uppákoma vakti mikla lukku.

 


Fleiri myndir

Sjötti forseti lýðveldisins, eða sá sjöundi

Ég veit ekki hve lengi Ólafur Ragnar Grímsson vill vera forseti Íslands. Hann segist enn ekki vita hvort hann býður sig fram á ný, en það er ljóst að Ólafur gegnir embættinu þangað til hann kýs sjálfur að hætta. Enginn á séns í hann í kosningum.

En ég hef hins vegar komið auga á sjötta forseta lýðveldisins. Hann er reyndar það ungur að kannski hann verði frekar sá sjöundi. Ég þekki manninn ekki neitt, hann hefur enn ekki hugmynd um að hann verði forseti (!) og ég er alls ekki viss um að hann hafi áhuga á embættinu. En hann þarf að verða forseti.

Meira síðar - kannski.


Yndislegt fámenni

Forsíður tímaritanna blöstu við mér í Brynju, þeirri frægu ísbúð, nú í kvöld. Þær minntu mig á hve yndislega smátt og skondið íslenska þjóðfélagið er. Á forsíðu Nýs lífs brosti Bryndís Schram við mér, hún og Jón Baldvin voru framan á Séðu og heyrðu og hver skreytti forsíðu Vikunnar? Jú, Kolfinna dóttir þeirra. Yndislegt!


Fjör á Siglufirði

Þrifalegir Þórsarar!

Það var mikið fjör á Siglufirði um síðustu helgi, þegar árlegt Pæjumót KS í fótbolta fór fram, en mörg hundruð stelpur léku þar frá föstudegi til sunnudags. Við kíktum til Sigló á laugardaginn, áður en haldið var í tvöfalt fertugsafmæli heima á Akureyri um kvöldið, hjá Guffu og Sigga.

Nánast hafði rignt eldi og brennisteini á Sigló á föstudeginum og vellirnir voru sumir orðnir ansi erfiðir yfirferðar, ekki síst fyrir minnstu fæturna. Einn leikurinn sem við sáum var þegar Alma og félagar hennar í 5. flokki B hjá Þór unnu lið Þróttar frá Neskaupsstað, og fyrst sumir Þórsararnir voru hvort sem er orðnir býsna drullugir skellti allt liðið sér í forina þegar flautað hafði verið til leiksloka. Þær eru þarna á myndinni og nokkrar stelpur úr Þróttarliðinu líka, en þær höfðu ekki síður gaman að uppátækinul.

Fararstjórarnir voru hins vegar ekki neitt sérlega glaðir með drullumallið, því þeir reiknuðu líklega með því að þurfa að þvo búningana - en stelpurnar drifu sig beint í Siglufjarðarána, sem er aðeins steinsnar frá völlunum inn við Hól, og skoluðu vel úr búningunum!


Fleiri myndir

Í ökla eða eyra

Sara fékk göt í eyrun í dag en ég er hálf slæmur í öklanum.

Þetta seinna er reyndar bara lygi, en lítur svo flott út.

Ég er hins vegar að drepast í öðru eyranu, bólginn, sýktur og hálf heyrnarlaus. Læknirinn leit þar inn og spurði hvort fluga hefði flogið inn í eyrað og stungið undirritaðan. - Ekki svo ég viti, sagði ég. Fékk dropa sem ég notaði einu sinni, í gærkvöldi, en týndi þeim einhvern veginn í ósköpunum heima og þurfti að fara aftur í dag - til sama læknis - og fékk aftur eins dropa! Vona að þetta lagist því ég má ekki vera að því að liggja flatur. Þarf að vinna.


Bláberin líklega orðin þroskuð

Mér til mikillar gleði er líklega orðið tímabært að fara í berjamó og ná sér í þau bláu. Þau virðast orðin þroskuð - sönnun þess sá ég annars vegar á svölunum hjá mér í gær og hins vegar á einum veggja hússins míns: fagurbláan fuglaskít!


Ein með öllu

Ein með öllu 1

Mikið fjör var á hátíðinni Einni með öllu á Akureyri um helgina. Því miður er ekki hægt að segja að hver einasti gestur bæjarins að þessu sinni hafi verið með öllum mjalla en flestir skemmtu sér konunglega. Ég veit ekki nákvæmlega hve margir komu til bæjarins, en líklega bættist annað eins við þau 17 þúsund sem hér búa þannig ekki er óeðlilegt að í því fé hafi fundist misjafn sauður. Ég var svolítið á ferðinni í bænum um helgina og hér fylgja nokkrar myndir með að gamni.


Fleiri myndir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband