Færsluflokkur: Dægurmál

Asnaþvaður

Skemmtilegum spjallþætti var að ljúka á Rás 1. Þórarinn Björnsson ræddi við nafna sinn Sigurmundsson vélstjóra sem var í mörg ár á sjó, fyrst hjá Sambandinu og síðan á dönskum fragtskipum.

Margt bar á góma. Þegar Þórarinn var spurður hvar í heiminum hann hefði séð fallegast kvenfólk sagði hann ómögulegt að segja, en sjómönnum þætti reyndar allt kvenfólk fallegt þegar þeir kæmu í land eftir langa útiveru! Og svo sagði hann að í hverri höfn væri kvenfólk sem vildi selja blíðu sína, og mun meira væri um það í Reykjavík en nokkurn grunaði. . .

Í lok þáttar bað Þórarinn vélstjóri útvarpsmanninn að fara varlega með upptökuna, og skildi reyndar ekki hvernig hann ætti að ná einhverju með viti út úr þessu "asnaþvaðri" í sér!

Þættinum verður útvarpað aftur á laugardaginn og ég held enginn verði svikinn af því að hlusta. Gaman að svona gamaldags - í jákvæðri merkingu - útvarpsefni.


Shinawatra

Var það ekki Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, sem vildi kaupa Liverpool fyrir nokkrum mánuðum?

Shinawatra blessaður brá sér á allsherjarþing SÞ í New York á dögunum og herinn rændi af honum völdum á meðan. Nú er hann sagður á leið til London en fer vonandi ekki norðar.

Ætli hershöfðingjarnar hafi áhuga á fótbolta?


Inferno

Magnaður lestur hjá Hjalta Rögnvaldssyni á Rás 1 þessa daga. Það er Inferno eftir Strindberg, síðasti lestur reyndar á morgun.

Pétur bloggar

Vinur minn og fyrrverandi samstarfsmaður á Mogganum, Pétur Gunnarsson, er orðinn einn helsti bloggari landsins. Og þar fara saman magn og gæði. Hvet alla sem hafa áhuga á þjóðmálum að bæta Pétri við í tenglasafnið sitt. Slóðin á síðuna er http://www.petrum.blogspot.com/ - Pétur býður oft upp á nýjustu fréttir og sögur úr þjóðlífinu, ekki síst pólitíkinni, enda vel tengdur sem fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks Framsóknarflokksins.


24.431

Svona margir hafa skráð nafn sitt á síðunni www.stopp.is og lofað eftirfarandi: 

 

  • Ég hyggst fara að lögum í umferðinni.
  • Ég ætla að gera allt sem ég get til að skaða hvorki mig né aðra í umferðinni.
  • Ég ætla að auðvelda öðrum vegfarendum að komast leiðar sinnar á sem öruggastan hátt.
  • Ég ætla að hvetja þá sem mér þykir vænt um til að gera slíkt hið sama.
  •  

    Ég hvet alla sem einhvern tíma koma út í umferðina að kvitta undir þetta með kennitölu sinni.  Og standa svo við loforðin, Íslendingar eiga það skilið.


Tuð, líklega tuð

Arna við Tröllafoss

Langur en fínn dagur í gær að flestu leyti. Ég, Sirra, Arna og pabbi fórum austur í Fljótsdal og síðan að virkjanasvæðinu við Kárahnjúka.

Einu skemmtanirnar þegar ég var í sveit í Fljótsdal í gamla daga voru í félagsheimilinu Végarði, erfidrykkjur og slíkt þar sem maður úðaði í sig flatbrauði með hangikjöti. Végarður er mjög breyttur, orðinn ægilega fallegur enda Landsvirkjun sem ræður þar ríkjum í augnablikinu, en næsta nágrenni er hræðilegt á að líta. Rafmagnsmöstrin, monsterarnir, þau sem vofa t.d. yfir Langhúsum ... ja, hvað get ég sagt?

Til hvers er ég annars að tuða? Það er bara búið að eyðileggja hluta dalsins "míns"... Ég var upplýstur um það í gær að 47 sinnum dýrara hefði orðið að leggja rafmagnslínurnar í jörðu úr Norðurdalnum en í möstrunum. So? Hvort ég væri tilbúinn að borga muninn. Hvort ég vildi ekki hafa rafmagn eða eiga flatskjá?

Svo er lítið að sjá nema mela og móa þar sem Hálslón kemur, þ.e.a.s. frá þeim blettum sem fólki er gert auðvelt að komast á.

Við fórum sömu leið til baka. Þá var gott að keyra Fljótsdalinn í myrkri vegna þess að möstrin sáust ekki.


Fleiri myndir

Eiður 28

Ég man ekki betur en Barcelona leikmaðurinn og landsliðsfyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen eigi afmæli í dag - fagni 28. afmælisdeginum. Ég geri nú ekki ráð fyrir að hann lesi eða viti af þessum litla fjölmiðli mínum, en segi samt: Til hamingju með daginn! Vonandi verður hann sem mest í liðinu í vetur þannig að við getum notuð hans á Sýn. Áfram Barca!


Ljótsdalur

Innilega sammála því sem haft var eftir Hjörleifi Guttormssyni í Blaðinu í gær. Það er hreint og beint hneyksli að rafmagnslínur skuli lagðar í risastórum möstrum í gegnum Fljótsdalinn en ekki í jörðu. Vissulega er það mun dýrara en hvað munar um þann kostnað í öllu dæminu?

Ég var í sveit í Fljótsdal í nokkur sumur sem barn, þykir ofboðslega vænt um dalinn enda einn allra fallegasti staður á landinu. Mér dauðbrá í sumar þegar ég flaug þarna yfir. Þvílík eyðilegging á dalnum. Þvílík skemmdarstarfsemi. Það er hreint og beint ótrúlegt og ólýsanlegt að horfa upp á þetta.

Ég vil ekki að Fljótsdalur sé Ljótsdalur.


Magni

Rosalega held ég Magni sé feginn að þurfa ekki að túra með þessu rokkbandi. Hann stóð sig vel og er í þeim sporum, eftir þátttökuna, að hann getur ábyggilega orðið ríkur og frægur ef hann vill. Honum tekst vonandi vel upp, á eigin forsendum.

11. september 2001

Ekki að það skipti máli hvar ég var staddur 11. september 2001, en Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff voru þá í opinberri heimsókn í Norður-Þingeyjarsýslu, og við Árni Sæberg ljósmyndari vorum með í för og sögðum frá heimsókninni í Morgunblaðinu.
Það var glatt á hjalla í fylgdarliði forsetans fram að hádegi en brúnin á fólki þyngdist þegar fréttirnar um árásirnar á Bandaríkin bárust. Það vildi reyndar svo furðulega til að einmitt þegar allar fréttastöðvar heimsins hófu frásagnir í beinni útsendingu og fréttirnar líklega borist sem eldur í sinu í gegnum símkerfi heimsins vorum við utan þjónustusvæðis, eins og það heitir á farsímamáli.
Dagurinn hófst með heimsókn forseta og fylgdarliðs hans í Grunnskólann á Raufarhöfn, þar sem nemendur sungu fyrir gestina og Ólafur Ragnar spjallaði við þá drjúga stund. Spurði m.a. hvort þeir væru mikið í fótbolta og þá vantaði ekki svörin. "Við kepptum í Ásbyrgi og unnum og í fyrra líka," sagði einn drengjanna.

 

"Hverjir eru bestir," spurði forsetinn þá. "Liverpool, Liverpool, Manchester..." ómaði um stofuna og ljóst að áhuginn á ensku knattspyrnunni er ekki minni á Raufarhöfn en annars staðar.

"Með hverjum heldur þú?" spurði þá einn snáðinn og Ólafur sagði: "Þú ert alltaf að spyrja mig erfiðra spurninga." Kannaðist við hann frá því á fjölskylduhátíðinni kvöldið áður. Svaraði svo í samræmi við að þar fer fyrrverandi nemandi við háskólann í Manchester: "Ég held með Manchester United," sagði Ólafur Ragnar og það fór misjafnlega í ungu drengina. Líklega er ofmælt að baulað hafi verið á forsetann en sumir urðu súrir á svip, aðrir fögnuðu. Forsetinn spurði þá með hvaða liði þeir héldu í úrvaldsdeildinni. "Austra," sögðu nokkrir í einu en einn dró í land og sagði: "Nei, við æfum með Austra."

"Má ég koma á rúntinn á forsetabílnum?" spurði þá skyndlega einn og beindi umræðunni inn á nýjar brautir.

Næst var fiskverkunarhús Jökuls á Raufarhöfn heimsótt, þá tölvufyrirtækið Netver og einmitt á meðan forseti staldraði þar við og ræddi við tvær konur sem sinntu símsvörum hringdi síminn: "Seðlabankinn, góðan dag," svaraði önnur en þegar hringt var í þá ágætu stofnun var einmitt svarað á Raufarhöfn. Svona getur nútímatæknin verið skemmtileg, en ég held reyndar að nú sé löngu hætt að svara á Raufarhöfn fyrir peningamennina við Arnarhól. Kannski tæknin sé ekkert svo skemmtileg eftir allt saman.

Því næst var haldið yfir í Svalbarðshrepp og fyrst komið við á bænum Sveinungsvík þar sem Gunnar Guðmundarson bóndi sýndi gestum bæði heimarafstöð sína og rekaviðarvinnslu. Heimsókn í Svalbarðskirkju var næst á dagskrá, síðan hrútasýning í fjárhúsunum við bæinn þar sem Ólafur Vagnsson ráðunautur og fólk á hans vegum var að meta veturgamla hrúta, m.a. með ómsjá; verið var að velja hrúta til undaneldis. Þaðan var gengið stuttan spotta að Svalbarðsskóla, þar sem nemendur skemmtu gestum með söng og upplestri og síðan var þar reiddur fram hádegisverður.

Engan grunaði neitt þegar staðið var upp frá borðum í Svalbarðsskóla, ekið var af stað með bros á vör en einhvers staðar á leiðinni til Þórshafnar hringdu gemsarnir hver í kapp við annan, og það var öðruvísi fólk sem steig út úr bílunum á Þórshöfn en sté upp í þá á Svalbarði. Þarna vissum við líka að heimurinn hafði breyst. Fengum fréttirnar kannski á eftir öllum öðrum íbúum landsins, jafnvel heimsins!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband