Færsluflokkur: Dægurmál

Veðurfrétt

Akureyri kl. 10.35 - 17 stiga hiti og sólin farin að skína í sunnan andvara! Er hægt að ætlast til þess að það verði betra?

Útilega

Fyrstu gestirnir - tvær stúlkur - eru mættir á tjaldstæði okkar Þórsara við félagsheimilið Hamar í Glerárhverfi á Akureyri; mættu klukkan níu í morgun! Reikna má með að gríðarlegur fjöldi fólks leggi leið sína til Akureyrar um helgina, en hér í höfuðstað Norðurlands er nú frábært veður, sól og hiti, og allt klárt fyrir fjölskylduhátíðina Eina með öllu sem formlega verður sett á morgun.

Viðrar vel til loftárása

Þetta er fengið að láni, núna rétt áðan, af vef Veðurstofu Íslands. 

Á föstudag: Sunnan- og suðaustan 5-10 m/s og súld eða rigning með köflum sunnan- og vestanlands, en þurrt og nokkuð bjart veður norðanlands. Hvessir heldur allra syðst um kvöldið. Hiti 12 til 23 stig, hlýjast á Norðausturlandi.


Tært loft en helgarblíða

Það var yndislegt að finna tært loft - kalt og gott - streyma inn um svefnherbergisgluggann í gærmorgun. Aldrei betra að vakna.

Ég er hræddur um að tæra loftið sé á förum frá Akureyri í bili því hér er spáð hlýindum um helgina. Þá verður bara að kæla sig niður einhvern veginn öðruvísi en með því að ganga út á stétt ...

Búast má við gríðarlegum fjölda gesta í höfuðstað Norðurlands um helgina, og ekki kæmi á óvart miðað við veðurspá og reynslu að þeir fyrstu komi strax í kvöld. Veri þeir velkomnir með góða skapið í góða veðrið.


Eitt stykki menningarhús

Byrjað verður að moka fyrir menningarhúsi á Akureyri í dag kl. 17 og er ástæða til þess að hvetja bæjarbúa að þiggja boð um að vera viðstaddir. 

Þegar þar að kemur sendir Ístak kannski frá sér reikning, í stíl við það sem afi gerði þegar Slippstöðin byggði flugturninn á Akureyri. Hann yrði þá svona; An: eitt stykki menningarhús, kr. 740 milljónir.


Sigur Rós að Hálsi

Sigur Rós að Hálsi

Uppskrift að frábæru kvöldi: Eitt stykki Háls í Öxnadal, góð fiskisúpa hjá listakokknum Rúnari Marvins (sem leyndist í eldhúsi Halastjörnunnar), lífrænt ræktað hvítvín - má taka svona til orða? - gott veður en samt lopapeysa, og tónleikar með Sigur Rós. Svona var þetta á föstudagskvöldið. Ógleymanlegt. Rósin verður aftur á ferðinni á Klambratúni í kvöld og ástæða til þess að öfunda þá sem þar verða staddir. Svo skilst mér að þessi einstaka hljómsveit ætli að spila í Ásbyrgi um næstu helgi. Hafi leikmyndin verið falleg að Hálsi í fyrrakvöld, Hraundrangi tignarlegur í baksýn og sólroðin ský framan af, verður umgjörðin væntanlega fullkomin í Ásbyrgi. Ég þangað.

Hér fylgir slatti af myndum sem ég tók á föstudaginn; smá myndasaga sem hefst síðdegis þegar ég og mínir mættum á svæðið (mjööög snemma vegna þess að mig, fararstjórann, misminnti hvenær herlegheitin hæfust) - skoðuðum útibúið frá Gunnu og þeim í Frúnni í Hamborg, smökkuðum á lífrænu grænmeti, fengum okkur að borða og svo framvegis ... allt þar til tónleikunum lauk, einhvern tíma seint.


Fleiri myndir

Eiður og Sigur Rós

El Mundo Deportivo
Fyrsti leikur Eiðs Smára með Barcelona verður í kvöld gegn AGF í Árósum í Danmörku. Um svipað leyti verða tónleikarnir með Sigur Rós á túninu við veitingastaðinn Halastjörnuna, að Hálsi í Öxnadal. Ég býst við að vera frekar þar; helv... langt að keyra suður á Jótland. Reikna má með því að fólk streymi á báða staði, enda pottþétt skemmtun í boði. Blaðamenn íþróttadagblaðsins El Mundo Deportivo í Barcelona hafa fjallað mikið um Eið Smára undanfarið og svei mér ef hann hefur ekki verið oftast allra á forsíðunni síðustu vikur. Vonandi að honum gangi vel á nýjum stað og Sýn verði með Barca í beinni sem oftast.

Alma og Mummi

Alma og Mummi
Kötturinn Mummi er ansi notalegur náungi og dætrum mínum þótti ákaflega vænt um hann, þegar við dvöldum á sveitasetrinu Almgarden fyrir utan Lund á Skáni, hjá Guffu, Sigga og stelpunum um daginn. Hér eru þau Alma og Mummi í góða veðrinu. Nú eru allir komnir heim, við eftir fríið og Guffa og hennar hópur eftir árs dvöl þarna úti. Ekki þótti Lilju, Hebu Þórhildi og Sigríði Kristínu síður vænt um Mumma, enda hann kötturinn þeirra í heilt ár. Og mér fannst hann sniðugur, eða kannski skynsamur; þegar haldið var af stað heim til Íslands var Mummi hvergi sjáanlegur. Hefur án efa áttað sig á því hvað var í vændum og ekki viljað valda stúlkunum óþarfa kvölum. Lét sig því hverfa um stund og þær muna einungis góðu stundirnar núna, ekki grátstaf í kverkum á magnþrunginni kveðjustund.

Hvaðan kemur þessi þoka?

Er ekki hægt að fá Veðurstofuna til þess að halda aftur af þokunni sem læðist inn Eyjafjörðinn hvern einasta dag um þessar mundir? Kvölds og morgna sér maður einungis neðsta hluta Vaðlaheiðarinnar. Sólin skín að vísu yfir miðjan daginn - eins og Akureyringar eru vanir - en svo er eins og tjald sé dregið fyrir aftur á kvöldin.

Frábær Djangodjass

Weinstein

Það var æðislegt á lokakvöldi Djangodjasshátíðarinnar - Grand finale - í Sjallanum á Akureyri síðasta laugardagskvöld. Þar voru saman komnir ýmsir innlendir og erlendir listamenn, gríðarlega góðir, og mér sýndist allir samkomugestir ganga brosandi út í norðlenska sumarið.

 

Auk þess að hlusta mundaði ég myndavélina þetta kvöld í Sjallamyrkrinu og birti hér tvær myndir að gamni, önnur er af sænska gítarleikaranum Andreas Öberg og hin af bandaríska fiðleikaranum Aaron Weinstein. - Nei, Öberg neitar að koma fram á bloggsíðu minni, eða tölvan samþykkir hann ekki! Öberg birtist því ekki að sinni, kannski síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband