Færsluflokkur: Dægurmál

Ágætis endir . . .

Sigur Rós í Ásbyrgi 1

Ásbyrgi Park verður kannski nefndur í sömu andrá héðan í frá og Hyde Park í London og Central Park í New York þegar eftirminnilega tónleika ber á góma. Ég fullyrði að minnsta kosti að veisla Sigur Rósar í náttúruundrinu í þjóðgarðinum fyrir austan á eftir að lifa lengi í minningunni og umgjörðin verður varla fegurri. Ein mynd birtist með grein minni í Morgunblaðinu í dag um upplifunina í Ásbyrgi og þessum pistli hér á blogginu fylgir slatti í viðbót. Ég leyfði mér að segja í blaðinu í dag að hversdagsleg stund undir hundrað metra háum hamraveggnum innst í Ásbyrgi sé yndisleg í góðu veðri en þegar tvö stórbrotin náttúrufyrirbæri - Ásbyrgi og Sigur Rós - verði eitt um stund geti útkoman ekki orðið annað en ógleymanleg; allt að því ólýsanleg.

Föstudagskvöldið síðasta viðraði vel til tónlistarlegra loftárása í náttúruperlunni í Kelduhverfi þó svo hann mígrigndi skammt vestar á Tjörnesinu nokkru áður. Um 20 stiga hiti var í byrginu um kvöldmatarleytið.

Áður en rökkva tók drógu krakkar rauða flugdreka á loft eða léku sér í fótbolta í góða veðrinu og ekki bærðist hár á höfði þegar Sigur Rós hóf leik um klukkan hálf tíu.

Talið er að um fjögur þúsund manns hafi verið saman komnir til þess að hlýða á meistarana í þessari mögnuðustu hljómsveit samtímans hérlendis og þótt víðar væri leitað.

Í forrétt hafði verið boðið upp á þriggja stundarfjórðunga göngutúr frá tjaldstæðinu yst í byrginu og sama leið á tveimur jafnfljótum til baka var svo í eftirrétt laust eftir miðnætti.

Aðalrétturinn var framborinn undir hamraveggnum, í landsins besta tónlistarsal ef að líkum lætur. Sal sem kostaði ekki krónu! Og þvílíkar kræsingar; fimm stjörnur fyrir hráefni, matreiðslu og þjónustu. Ein að auki fyrir "salinn" og sú sjöunda fyrir veðrið! Fullkomin kvöldstund.

Þetta voru síðustu tónleikar Sigur Rósar á rúmlega eins árs löngu ferðalagi um gjörvalla heimsbyggðina, en þreyta var ekki merkjanleg. Tónlistarmennirnir virtust njóta stundarinnar eins og þeir sem utan sviðsins stóðu.

Lög af Ágætis byrjun, ( ) og Takk hljómuðu í nærri tvo og hálfan klukkutíma og allir fóru sáttir heim. Það eina góða við að tónleikunum lauk, að mínu mati, var að með hverri mínútu þaðan í frá styttist í að hægt verði að eignast þá á geisladiski eða DVD!

Að lokum er vel við hæfi að segja: Takk, þetta var Ágætis endir.


Fleiri myndir

Gulur, rauður, grænn og blár . . .

Þúsundir fylgdust með glæsilegri flugeldasýningu á Akureyrarvelli laust fyrir miðnættið, þegar hátíðinni Einni með öllu var formlega slitið. Sýningin var faglega framreidd; byrjaði fremur rólega og fólk gantaðist með að þetta væri nú bara eins og lítill fjölskyldupakki - en seinni hlutinn var stórbrotinn og mannfjöldinn hrópaði, blístraði og klappaði í þakkarskyni.

Hér væri vel við hæfi að setja inn glæsilega ljósmynd af gulum, rauðum, grænum og bláum flugeldum, en ég nenni því ekki núna! Bendi forvitnum á Morgunblaðið á þriðjudaginn!

Rétt er að geta þess að Veðurstofa Skapta er tekinn aftur til starfa. Veðrið í kvöld var sem sagt yndislegt á Akureyri - logn og hlýtt.


Veðurfrétt

Sólin er enn ekki farin að skína á Akureyri í dag, vestanstrekkingur var í morgun og svalt. Veðurstofa Skapta er þar af leiðandi í verkfalli.

Fullur bær

Tjaldstæði við Hamar

Akureyrarbær er fullur um helgina. Af gestum.

Við hokrum hér 17 þúsund hræður hversdags en nú ku allt að því annað eins í heimsókn. Tvær dætra minna, Alma og Sara, fóru með mér í rannsóknarleiðangur um kvöldmatarleytið að félagssvæði okkar Þórsara, sem er reyndar aðeins steinsnar frá heimili fjölskyldunnar. Þar voru mörg tjöld og varla hægt að koma fyrir frímerki í viðbót á blettinn norðan Bogans.

Alma og Sara standa þarna á klöppinni norðan við Lundgarð, litla húsið þar sem Magga frænka bjó árum saman - úti í sveit! Nú er Lundgarður í eigu Þórs, í löngu grónu íbúðahverfi. Mér sýnist þær systur skemmta sér ágætlega.


Veðurfrétt

Tæki og tól Veðurstofu Skapta eru líklega biluð því þau eru blaut og þoka vofir yfir. Ég ekki skilja...

© Veðurstofa Skapta, 2006


Veðurfrétt

Skrýtið; rykbindiefni í dropaformi féll til jarðar í höfuðstað Norðurlands skamma stund núna áðan. "Gott fyrir gróðurinn," sagði einn vinur minn.


Veðurfrétt

Veðrið kl. 12

rigning Reykjavík
13°
AkureyriSkýjað14°
Egilsst.Léttskýjað19°
LondonUppl. vantar21°
K.höfnSkýjað22°
New YorkHeiðskírt26°

© mbl.is/Árvakur hf, 2006

Mælirinn minn segir reyndar að hitinn á Akureyri sé kominn upp í 17°

© Veðurstofa Skapta, 2006


Veðurfrétt

Veðrið kl. 9

rigning Reykjavík
11°
AkureyriSkýjað15°
Egilsst.Léttskýjað14°
LondonUppl. vantar21°
K.höfnSkýjað22°
New YorkHeiðskírt26°
© mbl.is/Árvakur hf, 2006

Veðurfrétt

Veðrið kl. 12

rigning Reykjavík
12°
AkureyriSkýjað20°
Egilsst.Léttskýjað17°
LondonUppl. vantar18°
K.höfnLéttskýjað21°
New YorkLéttskýjað28°
© mbl.is/Árvakur hf, 2006

Veðurfrétt

Akureyri kl. 11.40 - 20 stiga hiti, sól og sunnan andvari. Mælirinn í bílnum mínum sagði 21 stig, rétt áðan, en ég trúi mælinum heima frekar. Bara til að þetta hljómi ekki eins mikið Akureyrargrobb og það er . . .

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband