Færsluflokkur: Gamlir Viðhorfspistlar

Atvinna og ættarmót

Hér kemur einn af gömlu Viðhorfspistlunum mínum úr Mogganum, í tilefni allra ættarmótanna sem fara fram í sumar. Þessi grein er orðin dálítið rykfallin; birtist vorið 1999 en er þó kannski sígild.

- - - - - 

Maðurinn sem fann upp ættarmótið á Fálkaorðuna skilið. Vísast veit enginn hvar hann er eða hver hann er, en ýmsir í þjóðfélaginu eru þessum merkilega uppfinningamanni eflaust ævarandi þakklátir. Hafi einhver skarað fram úr í því að fjölga störfum hérlendis hin síðari ár, þá er það ekki Framsóknarflokkurinn, þótt hann haldi því fram, heldur maðurinn sem fann upp ættarmótið.


Hverjir standa í þakkarskuld við hann? Mér dettur í hug að nefna veitingamenn, gistihúsaeigendur og raunar mætti líklega telja upp alla í ferðaþjónustunni og þá sem henni tengjast. Þá sem selja jeppa, hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagna, bensín og olíur. Dekk og gotterí, bjór og annað áfengi. Tjöld. Að ekki sé nú talað um grillkjöt og þess háttar góðgæti. Og tímarit, því þau eru nauðsynleg í svona ferðalögum. Líka harðfiskur, þótt hann sé dýr. Sólgleraugu og sólarvörn (ef ættarmótið er fyrir norðan og austan) og regn- og vindgallar (ef það er fyrir sunnan). Flugfélög, meira að segja erlend, hafa svo líka eitthvað upp úr krafsinu vegna þess að fólk kemur stundum alla leið frá útlöndum á íslensku ættarmótin. Og svo eru teknir margir kílómetrar af filmum á ljós- og kvikmyndavélar, þannig að framköllunarstofur alls staðar á landinu hafa nóg að gera yfir sumarið við að koma minningunum í geymsluhæft form.


Landinn hlýtur að ferðast meira innanlands eftir að ættarmótið var fundið upp en áður og ferðalögin og þátttaka í þessum samkomum kostar sitt. Mér sýnist hálf þjóðin jafnvel vera á þeytingi allt sumarið á leið á ættarmót. Peningar í umferð aukast því eflaust umtalsvert vegna þessa. Hagfræðingar kætast því þeir ættu að geta hamast við að reikna út áhrif á hagstærðirnar; verga þjóðarframleiðslu, vísitölu samgangna og sálfræðivísitölu kjarnafjölskyldunnar.

Bílaverkstæði fá sneið af kökunni, því óhöpp verða því miður alltaf einhver, þeir sem selja ferða-þetta og ferð-hitt hljóta líka að maka krókinn: ferðageislaspilarar, ferðastraujárn og ferðahárblásarar eru auðvitað ómissandi, jafnvel ferðaklósett. Og svo spila stundum hljómsveitir á mótunum. Fyrirbærið er því líka atvinnuskapandi fyrir tónlistarmenn. Nei, ekkert hefur aukið veltu í íslensku þjóðfélagi meira hin síðari ár. Ætli geti kannski verið að góðærið sé honum að þakka, manninum sem fann upp ættarmótið?

Svo þegar sumarið er liðið og fólk er orðið leitt á því að metast um það hver er brúnastur eftir sólarlandaferðina eða hver á flottari og dýrari jeppa ­ og áður en farið er að metast um vélsleðana eða vetrarbúnað jeppanna, hver á stærri dekk, sterkara spil eða flottari hátalara í bílnum ­ er upplagt að bera saman hversu glæsilegt ættarmótið var eða á hversu mörg slík fólk komst þetta sumarið. Ég stend nefnilega vel að vígi þar á hausti komanda; get státað af þremur þegar þar að kemur, ef guð lofar.

Á umræddum mótum spretta jafnvel upp alls kyns frændar og frænkur, sem enginn hafði hugmynd um. Ættarböndin eflast og jafnvel lengjast, sem sagt. Sálfræðingar ættu því líka að geta gert sér mat úr þessu; það hlýtur að vera rannsóknarefni hversu mikils virði það er lítilli, einangraðri þjóð úti í hafi að kynnast sögu forfeðranna á þennan hátt; að hitta fjöldann allan af ættingjum í fögru umhverfi, líklegast á þeim slóðum þar sem forfeðurnir lifðu; þjóðin hlýtur að sækja gríðarlega mikilvægan innblástur í þess háttar samkomur. Nýr og áður óþekktur sprengikraftur gæti læðst úr læðingi þegar gamla sveitin er skoðuð. Ég er illa svikinn ef nostalgían heltekur ekki fólk þegar það kemur á fornar slóðir, slóðir forfeðranna, andar að sér loftinu sem þeir önduðu að sér, nýtur útsýnisins sem þeir nutu og hlustar jafnvel á árniðinn sem var þarna í gamla daga, en forfeðurnir voru eflaust löngu hættir að taka eftir.

Og ekki má gleyma þeim menningarverðmætum sem varðveitast vegna ættarmótanna. Söngvar og kvæði og sögur ­ sannar og lognar ­ sem ef til vill hefðu annars glatast.

Mér var einhvern tíma sagt að fólk í Ameríku væri lítið fyrir ættarmót. Það þekkti ættina sína nefnilega svo illa. Varla afa og ömmu. Hvað þá langafa og langömmu. En hér hefur ættarmótafárið orðið til þess, segja mér fróðir menn, að unga kynslóðin er komin á kaf í ættfræði. Sýnir henni mikinn áhuga og einmitt nú sem aldrei fyrr. Og þar með ætti enn ein stéttin að blómstra, ættfræðingarnir, þökk sé manninum sem fann upp ættarmótið.

Þjóðin þarf að sameinast í leit sinni að manninum. Jafnvel að reisa af honum styttur, hér og þar um landið, á vinsælum ferðamannastöðum.

Íslendingar framleiða besta lambakjöt í heimi, eins og allir vita, þótt strembið hafi verið að fá að flytja það út. Fegurðin hefur stundum verið flutt út, íslenski hesturinn og íslenskt hugvit í ríkum mæli hin síðari ár. Það er varla spurning um það hvort, heldur hvenær, okkur tekst að smita útlendinga af ættarmóta-bakteríunni. Ég hef velt því fyrir mér að sækja um einkarétt á Ættarmótinu og selja svo leyfi til notkunar úr landi. Það er auðvelt að hagnast á því með sölu yfir Netið. Heildstæð lausn á ættarmótahaldi til sölu. Sendið fyrirspurnir til aett@rmot.is.

Ég vona að ættarmótið sé ekki útlendur siður. Þá gæti orðið erfitt að hafa uppi á manninum sem fann það upp. Og erfitt fyrir mig að græða á sölunni.

Viðhorf úr Morgunblaðinu - Atvinna og ættarmót - sunnudag 29. júní 1999


Þögnin er auðlind

Var ég nokkuð búinn að birta þetta? Stundum þegar mig langar til þess að segja eitthvað hér á bloggsíðunni, en nenni ekki að skrifa neitt nýtt, hef ég gripið til þess að birta gamlan texta. Þó yfirleitt eigin ritsmíðar! Hér kemur ein slík, nokkrra ára gömul, sem mér þykir dálítið vænt um. Þetta er einn Viðhorfspistlanna sem ég ritaði í Moggann um skeið. Þessi pistill birtist í blaði allra landsmanna í ágúst 1998. Rétt er að taka fram að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, eins og gefur að skilja. Til dæmis fyrir austan! Og ég er löngu fluttur norður í land.

- - - - - - -

Það er dýrmætara en margur hyggur að kunna að þegja. Hvað þá að fá notið þess að vera í þögn. Í nútíma samfélagi, þar sem hamagangurinn og lætin eru svo mikil, sumir segja stressið yfirgengilegt, er þögnin vanmetin auðlind. Allt of fáir staðir í heiminum geta enn boðið upp á alvöru þögn, en Ísland er örugglega einn þeirra. Einsog aðrar auðlindir er þögnin sameign þjóðarinnar; rétt einsog um fisk eða fallvötn væri að ræða ættu landsmenn að hafa með það að segja hvort og þá hvernig þögninni er spillt. Líklega er ekki hægt að setja á hana skatt eða kvóta; og þó, hugsanlegt væri að krefja þá um gjald sem hljóðmenga.


Þögnin er nefnilega mörgum öðrum auðlindum dýrmætari. Og verður sífellt mikilvægari, eftir því sem þankagangur fólks breytist á ný, og fleirum þykir andleg og líkamleg vellíðan fýsilegri en eilíft strit í því skyni að safna einhvers konar prjáli, veraldlegum verðmætum sem lítils virði kunna að vera, þegar öllu er á botninn hvolft.

Hugsið ykkur; fólk sums staðar í heiminum, í stórborgum vestans hafs og austan, hefur ef til vill aldrei upplifað þögn. Aldrei notið þess að liggja úti í náttúrunni, horfa til himins og heyra ekkert annað en eigin hjartslátt eða andardrátt.

Íslendingar hafa löngum lifað á því að selja fisk úr landi. Skeggrætt hefur verið um möguleika þess að selja raforku yfir hafið til Bretlandseyja og meginlandsins, og sú verður eflaust niðurstaðan einhvern tíma í framtíðinni. Erfitt gæti hins vegar reynst að flytja þögnina út, og þess vegna þyrfti að flytja neytendur til þagnarinnar. Ísland verður sífellt vinsælla ferðamannaland. Fólki eru sýndir jöklar og hvalir og ýmsir yndislegustu staðir sem landið hefur upp á að bjóða. Skyldi einhverjum hafa dottið í hug að bjóða upp á þagnarferðir? Komið og njótið bestu þagnar í heimi! Hvernig skyldi fólk, sem alla tíð hefur búið við ys og þys, taka slíkri áskorun? Fyrst fólk kemur yfir hálfan hnöttinn í þeim tilgangi einum að sjá milljónatugum króna skotið upp í loftið á gamlárskvöld, hví skyldi það ekki einnig vilja gera sér ferð, til dæmis á Jónsmessunni, í því skyni að njóta umræddrar auðlindar? Fólk sem daglega berst í mannhafi að heiman frá sér til vinnu og til baka, með viðkomu á fjölförnum lestastöðvum og í troðfullum lestum. Lifir í kliði. Er ekki hægt að telja þessu fólki trú um að það sé því beinlínis lífsnauðsynlegt að koma til staðar eins og Íslands? Bara passa að það sé ekki 17. júní eða á Þorláksmessu.

Hugsanlega væri hægt að bjóða upp á hvísl-ferðir.

Smiður þessa pistils býr í samfélagi í grennd höfuðborgarinnar, sem í gamalli vísu var sagt lítið og lágt, þar byggju fáir og hugsuðu smátt. Ég skal fúslega viðurkenna að lognið þar er stundum á helsti mikilli hraðferð. En á móti kemur að þögnin úti við Gróttu er líklega meiri en víðast hvar annars staðar og heilnæmt sjávarloftið fylgir endurgjaldslaust. Kyrrðin þar getur verið dásamleg og sömu sögu er að segja af fjölda staða vítt og breitt um landið. Drengur var ég í sveit í afskekktum dal austur á landi, langt frá heimsins glaumi. Niðurinn frá jökulánni var eina tónlistin og hljómaði daginn út og inn. Varð hins vegar aldrei þreytandi; það var notalegt að sofna við árniðinn á kvöldin og vakna við hann á morgnana. Bílar sáust ekki svo dögum skipti en jarm, baul og gelt voru okkar músík. Sveitakyrrðin er yndisleg og þróunin hefur lengi verið sú í útlandinu að fólk flýr fjölmennið; hávaðann og lætin, og snýr aftur í sveitirnar. Það sama hefur gerst hér á landi, og verður örugglega mun meira um það í framtíðinni. Sannleikurinn er sá að með tilkomu Hvalfjarðarganga er ekki lengra í vinnu til Reykjavíkur úr Borgarfirði en fyrir fjölda fólks í útlandinu. Tæknin gerir það líka að verkum að nú til dags er sum störf hægt að vinna nánast hvar sem er. Fólk þarf ekki einu sinni að búa í sama landi og fyrirtækið hefur aðsetur, hvað þá í sama landshluta.



Þögn er ekki bara holl og góð sem slík, hún getur einnig dregið úr slysum. Bílstjórar, prófið að aka í þögn, eða að minnsta kosti við lágværa, rólega tónlist eða talmál í útvarpinu. Finnið hversu auðvelt er að slaka á. Ef gult ljós blasir við þegar þið eigið skammt að gatnamótum, þá eru mun meiri líkur á því, ég fullyrði það, að þið reynið að bruna yfir ef dúndrandi, taktföst músík er í útvarpinu, heldur en ef þið keyrið í þögn. Þá stöðvið þið bara bílinn og bíðið eftir næsta græna ljósi. Það kemur hvort sem er eftir nokkrar sekúndur. Og fyrirtak er að slaka á meðan beðið er.



Börn læra sjálfkrafa að tala. Ungur nemur, gamall temur; þau apa eftir foreldrum og eldri systkinum. Síðar læra þau að lesa og skrifa en ég hef stundum velt því fyrir mér hvort nógu rík áhersla er lögð á að kenna börnum að þegja. Að koma þeim í skilning um að þó raddböndin og málbeinið virki eins vel og hugsast getur þurfi þessi verkfæri ekki að vera í stanslausri notkun. Fólk þarf ekki að gjamma í tíma og ótíma, hafi það ekkert að segja.



Fólki eru falin ýmis mismunandi verkefni í lífinu. Ekki hyggst ég segja sjúkrasögu mína hér, það bíður líklega gagnagrunnsins. Get þó upplýst að Skaparinn var svo elskulegur að senda mér mígreni að glíma við fyrir nokkrum árum ­ og þegar menn skríða inn í það greni sitt er þögnin gulls ígildi eins og myrkrið. Kannski læra menn best að meta þögnina, þegar svo stendur á.



Viðhorf úr Morgunblaðinu - Þögnin er auðlind - fimmtudaginn 27. ágúst 1998.


Tár, bros og milljarðar

Það er alltaf gaman að velta fyrir sér peningum annars vegar og fótbolta hins vegar. Og stundum þessu tvennu í einu vetfangi. Ég nenni ekki að skrifa eitthvað nýtt, en birti hér að gamni mínu Viðhorf sem ég skrifaði í Morgunblaðið fimmtudaginn 2. mars árið 2000 undir fyrirsögninni Peninga-maskínan. Svei mér, ef þetta á ekki býsna vel við ennþá...

- - - - - - -

Einhvern tíma leyfði ég mér að slá því fram í pistli hér í blaðinu að sá sem fyrstur danglaði fæti í knött hefði varla leitt hugann að því hve slíkur verknaður kæmi til með að þykja tilkomumikill síðar meir. Að sama skapi hefur þann sem fyrstur greiddi einhverjum fé fyrir að stunda þá vinsælu íþrótt, knattspyrnu, varla órað fyrir því hvers konar skriðu hann var að koma af stað með tiltæki sínu. Eða hve margir hefðu atvinnu af þessum leik í heiminum um mót tuttugustu aldar og þeirrar tuttugustu og fyrstu.

Eilífðarvél er fyrirbæri sem á að geta gengið endalaust á orku sem hún framleiðir sjálf. Knattspyrna er því nokkurs konar eilífðarvél vegna þess hve orka nútímans - peningar - er framleidd í miklu magni í knattspyrnuvélinni. Knattspyrnufíklar eins og höfundur þessa pistils hafa átt margar unaðsstundir fyrir framan sjónvarp eða á ýmsum leikvöngum í heiminum, þar sem knattspyrnumenn hafa boðið upp á skemmtiatriði. Áður en beinar útsendingar í sjónvarpi frá knattspyrnuleikjum urðu nánast daglegt brauð voru laugardagssíðdegin eins og helgistund þegar Bjarni Fel sýndi viku gamla leiki frá Englandi í ríkissjónvarpinu. Nú er framboðið orðið gífurlegt, raunar svo mikið að ekki er hægt að horfa á nema brot af því sem er í boði. Íslendingar eiga þess kost að sjá beint alla helstu deildarleiki á Englandi, Ítalíu, Spáni og í Þýskalandi, auk margra bikar- og landsleikja.

 

Sumir líta á íþróttir sem holla hreyfingu og leik. Og hafa auðvitað rétt fyrir sér. Aðeins að hluta til þó, því keppnisíþróttirnar snúast sífellt meira um peninga og þetta tvennt er raunar gjörólíkt; keppnin er eitt og almenningsíþróttir annað.

 

Knattspyrnan á að vera skemmtun og er enn frekar en áður orðin hluti skemmtanaiðnaðarins. Staðreyndin er einnig sú að rekstur knattspyrnuliðs er orðinn gífurlegt gróðafyrirtæki. Íslenskir íþróttaáhugamenn verða sífellt meira varir við viðskiptahlið íþróttanna; m.a. vegna frétta af tíðum ferðum íslenskra knattspyrnumanna úr landi upp á síðkastið. Og í haust sem leið gerðist það í fyrsta sinn að íslenskir fjárfestar keyptu sér eitt stykki knattspyrnulið í útlandinu! Fyrir nokkrum misserum áttu forráðamenn knattspyrnudeildar KR í viðræðum við útlendinga um að koma að rekstri deildarinnar. Ekkert varð úr því þá, en það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Málið er spennandi, svo ekki sé meira sagt og því ber að fagna fáist meira fjármagn inn í íþróttahreyfinguna hérlendis en áður. Verði hægt að hlúa betur að yngri íþróttamönnum félaganna geta þau væntanlega alið upp fleiri afreksmenn og tekjuháum íslenskum atvinnumönnunum erlendis gæti fjölgað að sama skapi.

 

En það flögrar sem sagt stundum að mér hvort fólk fari ekki að fá nóg. Þegar liðum var fjölgað í Meistaradeild Evrópukeppninnar í fyrra - í þeim tilgangi að fleiri rík félög yrðu ennþá ríkari - fannst sumum einmitt nóg um. En forráðamenn félaganna vilja auðvitað þéna sem mest, og þátttaka í Meistaradeildinni færir félögum gríðarlegar fjárhæðir í aðra hönd. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, selur sjónvarpsrétt og auglýsingar dýru verði og deilir út peningum til félaganna sem aldrei fyrr.

 

Það er að sjálfsögðu ánægjulegt þegar fólki gengur vel í lífinu, meðal annars þegar það hefur góðar tekjur - hvort sem það er knattspyrnumaður í útlandinu, heimsfrægur tónlistarmaður eða jafnvel bankastjóri á Íslandi. Vilji fyrirtæki - í það minnsta þegar einkafyrirtæki á í hlut - borga einhverjum svimandi há laun hlýtur sá hinn sami að eiga þau skilið. Ég hef aldrei heyrt um fyrirtæki sem borgar fólki hærri laun en stjórnendur þess telja sanngjarnt; að minnsta kosti ekki hærri laun en einhver samkeppnisaðilinn telur sanngjarnt! Sumir setja reyndar spurningarmerki við það hversu há laun ríkisfyrirtæki eigi að borga; getur það til dæmis talist eðlilegt að ríkisstarfsmaður, þó stjórnandi sé, þiggi miklu hærri laun en til dæmis forsætisráðherra sama lands? Ég ætla auðvitað ekki að svara þeirri spurningu, gæti einhvern tíma fengið neitun þegar ég bið um lán... Það má líka spyrja hvort eðlilegt sé að íslenskur knattspyrnumaður hjá erlendu félagsliði hafi margfaldar tekjur launahæstu íslensku forstjóranna. Svarið við þeirri spurningu er heldur ekki til vegna þess að störfin og aðstæður á markaði á hverjum stað er ekki hægt að bera saman.

 

En gæti sú stund runnið upp að eilífðarvélin bræði úr sér? Að fólk fái yfir sig nóg af þessari skemmtilegu íþrótt? Að venjulegur knattspyrnuáhugamaður fái sig fullsaddan af græðgi félaganna, sem meðal annars kemur fram í háu miðaverði, af offramboði á leikjum og því, hve einstaka leikmenn hafa ótrúlegar tekjur? Það er alls ekki víst og ég ítreka að mér er nokk sama þó góðir íþróttamenn eigi mikla peninga. Þeir sem þéna vel eiga það skilið og þegar ég er svo heppinn að fylgjast með leik eins og viðureign Real Madrid og Bayern München í Meistaradeildinni á Sýn í fyrrakvöld er mér alveg sama hversu mikla peningar strákarnir í sjónvarpinu fá fyrir að gera mig jafn hamingjusaman og ég varð á þessum níutíu mínútum. Þegar ég skemmti mér svona vel er ég ánægður. Eilífðarvélin stendur því vonandi undir nafni.

 

Og þegar öllu er á botninn hvolft stuðlar það líklega bara að minnkandi atvinnuleysi í veröldinni eftir allt saman, að knattspyrnumennirnir fái svona há laun. Eftir að þeir leggja skóna á hilluna eru þeir nefnilega flestir svo ríkir að þeir þurfa lítið sem ekkert að vinna. Og taka þar af leiðandi ekki störf frá okkur hinum...


Fötlun og kraftaverk

Alveg er stórmerkilegt að fylgjast með umræðu um íslenska heilbrigðiskerfið. Ár eftir ár eftir ár eftir ár eftir ár. Eins og kerfið er gott að mörgu leyti og þegar svona margir peningar eru til á Íslandi þá er með ólíkindum áhugavert - má ég segja áhugavert? - að hlusta og lesa um fyrirbærið, heilbrigðiskerfið, og umgjörðina sem frábæru starfsfólki er búin.

 

Ætli ég sé ekki eini dálkahöfundur í heimi sem birt hefur nákvæmlega sama pistilinn tvisvar í sama dagblaðinu, með fjögurra ára millibili? Ég fullyrði að það var ekki vegna leti. Þvert á móti, ég var í miklum ham um þær mundir sem pistillinn birtist í seinna skiptið, hafði nægar hugmyndir og skrifaði mikið, en þörfin var því miður sú sama og fjórum árum áður. Og í bæði skiptin var stutt til alþingiskosninga.
 

 

Í sunnudags Mogganum á morgun/í dag lýkur afar athyglisverðum þriggja greina flokki eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur, Verkefni eða vandamál, sem ég vona að landsmenn lesi allir og það vandlega. Þar er að finna merkilegar upplýsingar og sjónarmið, en sumt það sem þarna stendur er svo sem ekki nýtt fyrir öllum. Ég get ekki annað, af þessu tilefni, en gerst svo dónalegur að birta umræddan pistil minn, Fötlun og kraftaverk, hið þriðja sinni á opinberum vettvangi.
Pistillinn er hér að neðan. Um leið og ég vista þessi skrif bið ég svo almættið bara að blessa þá sem stýra því í hvað skattpeningarnir okkar fara.

 

- - - - - - - -

 

Ósýnileg fötlun eða illa sjáanleg getur verið erfið viðfangs af mörgum ástæðum. Ein er sú að enn þann dag í dag virðast margir ekki taka úrskurð sérfræðinga trúanlegan, að minnsta kosti ekki þegar barn á í hlut; er til dæmis ofvirkt, misþroska eða með athyglisbrest. Jafnvel allt þetta.

 

Allir kenna í brjósti um barn sem fær krabbamein, er blint eða þroskaheft - skiljanlega. Einnig börn sem eru líkamlega fötluð. Þjóðfélagið vill hjálpa þeim og það er auðvitað vel, þó eflaust megi gera betur en í dag. En ég hef ástæðu til að ætla að áðurnefndar ósýnilegar fatlanir séu æði oft afgreiddar sem óþægð og lélegu uppeldi iðulega kennt um. Mér er hins vegar trúað fyrir því, sem foreldri, af sérfræðingum, að ofvirkni, misþroski og athyglisbrestur hafi ekkert að gera með lélegt uppeldi. Þetta eru sjúkdómar og ástæður þeirra geta verið líffræðilegar og í mörgum tilfellum hafa þeir gengið í erfðir.

 

Ofvirk börn eru ekki endilega sífellt klifrandi upp um veggi, eins og margir virðast halda. Ofvirknin getur lýst sér með ýmsum hætti, misþroski einnig. Og greind barnanna er ekki endilega minni en hjá öðrum þó þau séu það sem kallað er misþroska. Alls ekki. Þau eiga bara erfiðara með að stjórna ákveðnum aðgerðum. Þegar öllu er á botninn hvolft er best að komast að því fyrr en síðar hvort eitthvað sé að og þá hvað. Barninu líður betur þegar foreldrarnir hafa fengið að vita það, því þá fyrst er hægt að gera sér grein fyrir því hvernig nákvæmlega er hægt að hjálpa barninu. Og um leið og líðan þess batnar er sömu sögu að segja af foreldrunum. Svartur blettur á íslenska velferðarkerfinu er að vísu fyrir hendi, margfrægir biðlistar, og börn kynnast þeim ekki síður en fullorðnir. Engum dettur þó í hug að láta barn bíða mánuðum saman eftir meðferð ef það fótbrotnar. Hugmyndaflug heilbrigðiskerfisins er heldur ekki svo mikið að því hugkvæmist að láta barn bíða lengi eftir meðferð ef það fær krabbamein. En barn með ósýnilega fötlun má hins vegar bíða. Nokkrar vikur eða mánuði getur tekið að komast að hjá sérfræðilækni á þessu sviði, til að fá úr því skorið hvort grunur foreldra sé á rökum reistur eður ei. Greini læknirinn barnið þannig að það þurfi frekari hjálp getur bið eftir að komast í viðtal á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) tekið nokkra mánuði, jafnvel hátt í ár. Enginn mannlegur máttur skal fá mig til að trúa því að ekki sé slæmt fyrir barn að bíða svo lengi þegar því líður jafnilla og raunin getur verið. Þetta er viðkvæmur aldur og því fyrr sem hægt er að grípa í taumana því betra. En peninga skortir í velferðarþjóðfélaginu til að hægt sé að sinna börnunum eins og þarf.

 

Við reynum alltaf að kyssa á bágtið, eins fljótt og auðið er ef barnið okkar meiðir sig. Eða er það ekki? Ef bágtið er sýnilegt kyssir kerfið líka en ekki strax ef fötlunin sést ekki utan á barninu.

 

Mér hefur einnig opnast sú sýn að foreldrar barna með ósýnilega fötlun þurfa helst að hafa yfirnáttúrulega hæfileika; þurfa helst að láta sér detta í hug fyrirbæri eins og stuðningsfjölskyldur og umönnunarbætur. Og örugglega er eitthvað fleira til. Upplýsingum um ýmiskonar aðstoð sem stendur til boða er líklega ekki beinlínis haldið leyndum, en synd væri að segja að þeim væri haldið að fólki. Kannski það yrði þjóðfélaginu of dýrt!

 

Ég þykist hafa skynjað að fólk á erfitt með að taka trúanlegt hve mörg börn eru sögð ofvirk eða misþroska núorðið. Ástandið hafi ekki verið svona þegar það var ungt; þetta sé eitthvað sem sérfræðingar dagsins hafi fundið upp! Hugtökin voru auðvitað ekki notuð þegar mamma var ung, hvað þá þegar amma var ung, af þeirri einföldu ástæðu að þá voru þau ekki til. En þá hefur líklega verið talsvert um óþekktarorma, jafnvel heimskingja sem gekk illa í námi og alls kyns lið sem afgreitt var sem einhvers konar aumingjar. Þá var lítið eða ekkert gert til að hjálpa þeim börnum, vegna þess að læknavísindin bjuggu ekki yfir allri þeirri þekkingu sem fyrir hendi er í dag. Þá var talað um óþekkt og slæmt uppeldi og fólk vissi ekki betur. Nú veit fólk hins vegar betur.

 

Það kostar vissulega peninga að hjálpa umræddum börnum en að spara krónuna nú er í raun ávísun á mun meiri fjárútlát síðar meir. Börn með slíka ósýnilega fötlun hafa ekki óskað sér þess að vera eins og raun ber vitni, ekki frekar en börn með aðra sjúkdóma. Meiri hætta er hins vegar á því að þau en önnur börn lendi í vandræðum á unglingsárum; leiðist út í neyslu eiturlyfja og þar fram eftir götunum. Tiltölulega stutt er síðan farið var að aðstoða ofvirk börn og misþroska hér á landi, og sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi, og fær hjálp, er mun betur stödd með tilliti til unglings- og fullorðinsára, en sú næsta þar á undan. Þetta er hægt að fullyrða vegna samanburðarrannsókna erlendis.

 

Kraftaverk gerast ekki oft á Íslandi, en mér hefur sýnst að þeirra sé helst að vænta á svo sem eins og fjögurra ára fresti. Að minnsta kosti í orði. Tæp fjögur ár eru liðin frá síðustu kraftaverkatíð og því stutt í þá næstu. Gott ef hún er ekki um það bil að hefjast. Af því tilefni leyfi ég mér að segja við þá sem nú eru um það bil að klæðast framboðsflíkunum fínu: munið eftir smáfuglunum.  

 

Viðhorf úr Morgunblaðinu, Fötlun og kraftaverk

- 8. mars 1999 og 25. febrúar 2003.


Útvarp Útópía

Mér datt í hug í morgun að birta hér gamlan Viðhorfspistil  sem ég skrifaði í  Morgunblaðið. Eitt og annað í þessum pistli frá 1998 er reyndar orðið úrelt, nefndir eru þættir, jafnvel stöðvar, sem heyra sögunni til, en grunnhugsunin á enn við. Hún á enn erindi við samfélag okkar og upplagt að dusta rykið af þessum orðum þegar umfjöllun um nýtt fjölmiðlafrumvarp er í algleymingi.

 

Pistilinn er hér að neðan.

 

- - - - - -

 

Sú var tíð að ein útvarpsstöð var starfrækt á Íslandi; Útvarp Reykjavík, góðan dag, sagði þulurinn blíðlega klukkan sjö að morgni. Mig minnir hún hafi ekki einu sinni heitið Rás 1 þá, stöðin sem varpaði af Skúlagötu 4, heldur var bara talað um Ríkisútvarpið, það nægði. Ekki get ég tekið svo djúpt í árinni að enn sé einungis ein útvarpsstöð starfrækt á Íslandi, en get í það minnsta fullyrt að ein finnst mér langbest; sú gamla góða.

 


Rás 1 er einfaldlega frábær útvarpsstöð. Eftir því sem íslenskum rásum fjölgar verður það sífellt ljósara hve gamla Gufan, sem stundum er kölluð svo, ber höfuð og herðar yfir aðrar. Magnið hefur aukist gríðarlega í kjölfar frjálsræðis á þessum vettvangi, en synd væri að halda því fram að gæðin hefðu aukist í réttu hlutfalli. Auðvitað var deginum ljósara á sínum tíma að úrvalið varð að aukast ­ þjóðin er ekki svo einsleit að allir geti ætíð hlustað á sömu útvarpsstöðina, og tíðarandinn kallaði á að léttri tónlist yrði gefið meira rými á öldum ljósvakans.

 

Gæði er auðvitað afstætt hugtak, en útvarpsstöð getur varla talist alvöru stöð ef ekki er boðið upp á annað en tónlist allan sólarhringinn og varla nokkurt orð af viti á milli laga. Eða hvað? Útvarp sem miðill hlýtur að vera þess eðlis að fólk eigi að geta hlustað á það. Þó má halda því fram að stöð þjóni tilgangi, að minnsta kosti hluta úr degi, ef hún heyrist ­ þá sem undirspil í fjarska ­ en stöð sem hægt er að hlusta á , eins og Rás 1, er hægt að kalla Útvarp, með stóru ú-i. Það er rás hins hugsandi manns, eins og Páll Heiðar Jónsson kemst stundum að orði í þáttum sínum. Líkt og ákveðin dagblöð mætti kalla dagblöð hins hugsandi manns, að mínu mati, en ég kýs að fara ekki nánar út í það hér.

 


Íslendingar eiga marga mjög góða útvarpsmenn, en þeir eru því miður enn of margir sem ekki geta fallið undir þá skilgreiningu. Einhver kann að spyrja: við hvað miðar maðurinn? Hver er góður útvarpsmaður og hver slæmur? Svar: í fyrsta lagi verður útvarpsmaður á íslenskri útvarpsstöð, sem vill teljast góður í starfi, að geta talað lýtalausa, eða a.m.k. lýtalitla, íslensku. Og því er einfaldlega ekki að heilsa í öllum tilfellum. Málið er lítið flóknara en það. Og einhver snefill af skynsemi skemmir heldur ekki fyrir; það er ekki ­ þegar vel er að gáð ­ alveg sama hvað fólk lætur út úr sér í útvarpi, frekar en annars staðar.

 

Margt gott má segja um aðrar stöðvar. Rás 2 ríkisútvarpsins fer mjög vel af stað að morgni virkra daga með góðum þætti frá klukkan sex til níu og þeir tónlistarþættir sem fylgja í kjölfarið, fyrir og eftir hádegi, standa vel fyrir sínu ­ sem slíkir. Dægurmálaútvarpið á Rás 2 er líka oft gott og sama er að segja af morgunútvarpi Bylgjunnar og síðdegisþætti hennar, Þjóðbrautinni. Sunnudagskaffið á Rás 2 á sunnudögum er jafnan athyglisvert innlegg í umræðuna og svo mætti áfram telja. Klassík FM má heldur ekki gleymast í þessari upptalningu, sú stöð er frábær og sannarlega tímabær þegar hún varð að veruleika. Þar er aðdáendum klassískrar tónlistar boðið til veislu alla daga og þó Rás 1 sinni sígildri tónlist vel var Klassík FM nauðsynleg. Vonbrigðum verð ég þó að lýsa yfir því hve lítinn sess djassinn skipar í dagskrá stöðvanna, aðeins einn þáttur á viku er á Rás 1 ­ mjög góður þáttur, reyndar, en það er engan veginn nóg til að fullnægja þörfum þeirra sem þeirri yndislegu tónlist unna.

 

Fjölmiðlar eru ákaflega misjafnir, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sá sem þetta skrifar getur auðvitað ekki talist hlutlaus og ekki fer á milli hvaða dagblað hann telur það besta hérlendis. Dagblöð þarf að vera hægt að lesa en sum eru þannig samansett ­ til að mynda einstaka götublöð, svokölluð, í útlandinu ­ að lítið er á þeim að græða. Þau eru eins konar fletti- blöð, þar sem uppsláttarfréttir og stórar myndir fylla nánast allt pláss. Fólk skoðar slík blöð. Ég vil geta lesið dagblöð og fræðst af því sem þar er að finna. Það er ekki nóg að fletta, og að sama skapi er ekki nóg ­ nema sem undirspil í fjarska, eins og nefnt var að framan ­ að heyra í útvarpi. Og útvarp er að mínu mati einmitt alltof oft einungis boðlegt sem undirspil.

 

Sumar hinna útvarpsstöðvanna sinna hlutverkum sínum mjög vel að mínu mati en engan veikan hlekk er að finna í dagskrá Rásar 1. Dagskráin er fjölbreytt, vönduð og metnaðarfull. Ekkert má missa sín sem þar er fyrir hendi; samtalsþættirnir, lestur sagna bæði fyrir börn og fullorðna og geysilegur fróðleikur af margvíslegu tagi. Og hvers konar hugsanlegri menningu eru einnig gerð einkar góð skil á Rás 1; sérstakir þættir eru tileinkaðir sígildri tónlist, bæði snemma morguns og síðla dags. Að ógleymdu ýmsu skemmtilegu efni úr svæðisútvörpunum, sent út á Rás 1.

 

Ætíð þegar einhver viðrar þá skoðun að selja beri ríkisútvarpið verður mér hugsað til Gufunnar. Útvarp, eins og aðrir fjölmiðlar, á að vera metnaðarfullt. Slíkt kostar vissulega peninga og engin stöð önnur en Rás 1 getur líklega sinnt allri þeirri menningu og þjóðfélagsumræðu sem hún gerir. Óhjákvæmilegt er því að sú stöð að minnsta kosti verði áfram í eigu ríkisins, eða rekin á kostnað þess. Því fé sem í reksturinn fer er vel varið. Rás 1 má ekki skemma, aldrei nokkurn tíma. Þjóðin á hana skilið.



VIÐHORF úr Morgunblaðinu, Útvarp Útópía, laugardaginn 14. nóvember 1998


Af íslenskum dægurlagatextum

Mér finnst eins og það hafi verið í fyrradag, en þessi pistill birtist sem Viðhorf í Morgunblaðinu 8. ágúst 2001, strax eftir Verslunarmannahelgina. Ég fékk mikil viðbrögð við honum á sínum tíma, og datt því í hug að gaman væri að henda honum hér inn á bloggið núna. Svo getur vel verið að ég skutli hér inn einni og einni gamalli grein úr safni mínu við tækifæri, eða broti úr grein. Jafnvel minningargrein. Ef ég nenni. Það kemur bara í ljós síðar.

 

En greinin er sem sagt svona 

 

- - - - - - -


Það virðist því miður fréttnæmt að þegar fjöldinn heldur burt frá lögheimilum sínum til þess að njóta náttúrunnar - hver á sinn hátt - skuli enginn farast í bílslysi, enginn vegna eiturlyfjaneyslu einhvers staðar úti í móa og enginn vegna ofbeldis af einhverjum toga.

Útihátíðir um verslunarmannahelgi eru eflaust góðar í sjálfu sér; hins vegar er hætt við að fólk komi óorði á samkomurnar og brennivínið eins og svo oft áður. En þá sem býsnast yfir framkomu landans er rétt að minn á að unga kynslóðin fann ekki upp útihátíðirnar og drykkjusiði þessarar skrýtnu þjóðar.

 

 

Ungur nemur, gamall temur.

 

 

Sá sem hér slær tákn á tölvu hefur aldrei verið duglegur við að sækja útihátíðir. En þegar vel er að gáð er óþarfi að mæta á mörg þúsund manna samkomur þessa mestu skemmtanahelgi ársins til að kynnast siðferðisvitund, skemmtanahefð og lífsviðhorfum íslensku þjóðarinnar í hnotskurn. Hefðbundnar föstudagskvölda- og laugardagskvöldahátíðir í hinum ýmsu þéttbýliskjörnum árið um kring duga.

 

 

Akureyringar brydduðu upp á þeirri nýjung að stunda fjöldasöng á íþróttaleikvangi bæjarins á sunnudagskvöldið. Fjöldi fólks mætti og tók lagið í myrkrinu, og undirritaður hóf m.a. upp raust sína. Tók undir þegar hvert lagið af öðru hljómaði og fór allt í einu að hugsa um söngtextana; fólk á öllum aldri sat sem sagt þarna eða stóð, og söng um fyllirí, kvennafar, framhjáhald og annað þjóðlegt.

 

 

Mikið lifandis, skelfingar ósköp er gaman að vera svolítið hífaður, söng ég - bláedrú og með yngstu dóttur mína í fanginu, í stúku íþróttavallarins.

 

 

Það sæmir mér ekki sem Íslending, sungum við líka, að efast um þjóðskáldsins staðhæfing, og söngvararnir voru allir sammála um að vilja ekki skrælna úr þurrki og því vökvuðu þeir lífsblómið af og til. Í framhaldinu er greint frá því að sú skoðun þekkist og þyki fín, að þetta vort jarðlíf sé ekkert grín, menn eigi að lifa hér ósköp trist og öðlast í himninum sæluvist. Þess vegna er tekið út forskot á sæluna, því fyrir því fæst ekkert garantí að hjá guði ég komist á fyllirí!

 

 

Svona eftir á að hyggja trúi ég því varla að hafa sungið þetta!

 

 

Harðsnúna Hanna hélt við hann Gvend, kyrjaði maður hástöfum hér í eina tíð þegar sú merkilega hljómsveit Ðe Lónlí Blú Bojs var vinsæl.

 

 

Og hvað er um að vera í Kötukvæði? Það var um kvöld eitt að Kötu ég mætti. Hún var að koma af engjunum heim. Þetta var fyrsti fundur þeirra; hann segist að minnsta kosti aldrei hafa séð hana fyrr. Hann tók hlýtt í hönd á Kötu, horfði í augun djúp og blá. Þau gengu burt af götu og náttmyrkrið geymdi þau.

 

 

En þegar eldaði aftur og birti í hjarta ákafan kenndi ég sting, og fyrir augum af angist mér syrti. Hún var með einfaldan giftingarhring.

 

 

Þetta sungum við líka, ég og þúsundir annarra á Akureyrarvelli og klappað var fyrir forsöngvurunum. Einhvern tíma hefði svona nokkuð verið kallað framhjáhald.

 

 

Anna litla er einnig afar athyglisvert kvæði:

 

 

Anna litla, létt á fæti - Eins og gengur, eins og gengur, segir svo í viðlaginu sem margur Íslendingurinn hefur sungið á góðri stundu - lagði af stað í berjamó. Þar sátu fjórir ungir, sætir sveinar á grænni tó. Einn af þeim var ósköp feiminn en kyssti Önnu þó. Annar talsvert áræðnari, af Önnu skýlu og svuntu dró. Sá þriðji enn meiri hugdirfð hafði og um hana í mjúkri lautu bjó. "Eitthvað fékk sá fjórði að gera nú finnst mér vera kveðið nóg," segir í sjötta erindinu, og í því sjöunda: "Því hvað hann gerði ef vissir, væna þú vildir strax í berjamó."

 

 

Gætu vondir menn jafnvel haldið því fram að þarna hefði átt sér stað hópnauðgun? Eða var Anna bara svona lausgyrt? Og hvað með Því hvað hann gerði ef vissir, væna þú vildir strax í berjamó? Eruð þið ekki ánægðar með þetta, stelpur?

 

 

Og svo er það hún Sigga Geirs, sem sexappíl hefur flestum meira. Hlýtt og notalegt er hennar ból hverjum sem býður hún næturskjól.

 

 

Það vita: Kalli Jóns og Gústi læknisins og Nonni Sæmundar og Halli rakarans og Fúsi Sigurleifs og Palli á Goðanum og Denni í Efstabæ - og einnig ég.

 

 

Sigga þessi blessunin eignast svo krakka í kvæðinu og sagt er að prestinum hafi brugðið þegar hún skyldi tilnefna barnsföður, og nefndi alla þá sem áður er getið. Yfirvöld urðu að skera úr og sögumanni er dæmdur snáðinn - en hinir skunda kátir á næsta bar!

 

 

En að sögumanni læðist þó stundum efi, þegar hann lítur litla skinnið: Hann líkist Kalla Jóns og Gústa læknisins og Nonna Sæmundar og Halla rakarans og Fúsa Sigurleifs og Palla á Goðanum og Denna í Efstabæ - en ekki mér!

 

 

Ekki er hægt að skilja Einsa kalda úr Eyjunum útundan. Það var karl í krapinu; hann var innundir hjá meyjunum, þær slógust um hann á Spáni, í Þýskalandi vildu þær allar eiga hann og austur á fjörðum báðu þær hans einar fimm. Það er sama hvar hann drepur niður fæti, meyjarnar bíða alls staðar spenntar, en hugsi þær um hjónaband í hasti ég flý land. Vonandi að svo lauslátur náungi, og Hönnur, Önnur og Kötur dagsins í dag, hafi að minnsta kosti haft vit á að fjárfesta í smokkum. Sigga Geirs gleymdi því og að minnsta kosti einhverjir þeirra gaura sem hún bauð næturskjól.

 

 

Atti katti nóa Atti katti nóa emissa demissa dolla missa dei...

Viðhorf úr Morgunblaðinu, Atti katti nóa . . ., miðvikudaginn 8. ágúst 2001


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband