Þögnin er auðlind

Var ég nokkuð búinn að birta þetta? Stundum þegar mig langar til þess að segja eitthvað hér á bloggsíðunni, en nenni ekki að skrifa neitt nýtt, hef ég gripið til þess að birta gamlan texta. Þó yfirleitt eigin ritsmíðar! Hér kemur ein slík, nokkrra ára gömul, sem mér þykir dálítið vænt um. Þetta er einn Viðhorfspistlanna sem ég ritaði í Moggann um skeið. Þessi pistill birtist í blaði allra landsmanna í ágúst 1998. Rétt er að taka fram að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, eins og gefur að skilja. Til dæmis fyrir austan! Og ég er löngu fluttur norður í land.

- - - - - - -

Það er dýrmætara en margur hyggur að kunna að þegja. Hvað þá að fá notið þess að vera í þögn. Í nútíma samfélagi, þar sem hamagangurinn og lætin eru svo mikil, sumir segja stressið yfirgengilegt, er þögnin vanmetin auðlind. Allt of fáir staðir í heiminum geta enn boðið upp á alvöru þögn, en Ísland er örugglega einn þeirra. Einsog aðrar auðlindir er þögnin sameign þjóðarinnar; rétt einsog um fisk eða fallvötn væri að ræða ættu landsmenn að hafa með það að segja hvort og þá hvernig þögninni er spillt. Líklega er ekki hægt að setja á hana skatt eða kvóta; og þó, hugsanlegt væri að krefja þá um gjald sem hljóðmenga.


Þögnin er nefnilega mörgum öðrum auðlindum dýrmætari. Og verður sífellt mikilvægari, eftir því sem þankagangur fólks breytist á ný, og fleirum þykir andleg og líkamleg vellíðan fýsilegri en eilíft strit í því skyni að safna einhvers konar prjáli, veraldlegum verðmætum sem lítils virði kunna að vera, þegar öllu er á botninn hvolft.

Hugsið ykkur; fólk sums staðar í heiminum, í stórborgum vestans hafs og austan, hefur ef til vill aldrei upplifað þögn. Aldrei notið þess að liggja úti í náttúrunni, horfa til himins og heyra ekkert annað en eigin hjartslátt eða andardrátt.

Íslendingar hafa löngum lifað á því að selja fisk úr landi. Skeggrætt hefur verið um möguleika þess að selja raforku yfir hafið til Bretlandseyja og meginlandsins, og sú verður eflaust niðurstaðan einhvern tíma í framtíðinni. Erfitt gæti hins vegar reynst að flytja þögnina út, og þess vegna þyrfti að flytja neytendur til þagnarinnar. Ísland verður sífellt vinsælla ferðamannaland. Fólki eru sýndir jöklar og hvalir og ýmsir yndislegustu staðir sem landið hefur upp á að bjóða. Skyldi einhverjum hafa dottið í hug að bjóða upp á þagnarferðir? Komið og njótið bestu þagnar í heimi! Hvernig skyldi fólk, sem alla tíð hefur búið við ys og þys, taka slíkri áskorun? Fyrst fólk kemur yfir hálfan hnöttinn í þeim tilgangi einum að sjá milljónatugum króna skotið upp í loftið á gamlárskvöld, hví skyldi það ekki einnig vilja gera sér ferð, til dæmis á Jónsmessunni, í því skyni að njóta umræddrar auðlindar? Fólk sem daglega berst í mannhafi að heiman frá sér til vinnu og til baka, með viðkomu á fjölförnum lestastöðvum og í troðfullum lestum. Lifir í kliði. Er ekki hægt að telja þessu fólki trú um að það sé því beinlínis lífsnauðsynlegt að koma til staðar eins og Íslands? Bara passa að það sé ekki 17. júní eða á Þorláksmessu.

Hugsanlega væri hægt að bjóða upp á hvísl-ferðir.

Smiður þessa pistils býr í samfélagi í grennd höfuðborgarinnar, sem í gamalli vísu var sagt lítið og lágt, þar byggju fáir og hugsuðu smátt. Ég skal fúslega viðurkenna að lognið þar er stundum á helsti mikilli hraðferð. En á móti kemur að þögnin úti við Gróttu er líklega meiri en víðast hvar annars staðar og heilnæmt sjávarloftið fylgir endurgjaldslaust. Kyrrðin þar getur verið dásamleg og sömu sögu er að segja af fjölda staða vítt og breitt um landið. Drengur var ég í sveit í afskekktum dal austur á landi, langt frá heimsins glaumi. Niðurinn frá jökulánni var eina tónlistin og hljómaði daginn út og inn. Varð hins vegar aldrei þreytandi; það var notalegt að sofna við árniðinn á kvöldin og vakna við hann á morgnana. Bílar sáust ekki svo dögum skipti en jarm, baul og gelt voru okkar músík. Sveitakyrrðin er yndisleg og þróunin hefur lengi verið sú í útlandinu að fólk flýr fjölmennið; hávaðann og lætin, og snýr aftur í sveitirnar. Það sama hefur gerst hér á landi, og verður örugglega mun meira um það í framtíðinni. Sannleikurinn er sá að með tilkomu Hvalfjarðarganga er ekki lengra í vinnu til Reykjavíkur úr Borgarfirði en fyrir fjölda fólks í útlandinu. Tæknin gerir það líka að verkum að nú til dags er sum störf hægt að vinna nánast hvar sem er. Fólk þarf ekki einu sinni að búa í sama landi og fyrirtækið hefur aðsetur, hvað þá í sama landshluta.



Þögn er ekki bara holl og góð sem slík, hún getur einnig dregið úr slysum. Bílstjórar, prófið að aka í þögn, eða að minnsta kosti við lágværa, rólega tónlist eða talmál í útvarpinu. Finnið hversu auðvelt er að slaka á. Ef gult ljós blasir við þegar þið eigið skammt að gatnamótum, þá eru mun meiri líkur á því, ég fullyrði það, að þið reynið að bruna yfir ef dúndrandi, taktföst músík er í útvarpinu, heldur en ef þið keyrið í þögn. Þá stöðvið þið bara bílinn og bíðið eftir næsta græna ljósi. Það kemur hvort sem er eftir nokkrar sekúndur. Og fyrirtak er að slaka á meðan beðið er.



Börn læra sjálfkrafa að tala. Ungur nemur, gamall temur; þau apa eftir foreldrum og eldri systkinum. Síðar læra þau að lesa og skrifa en ég hef stundum velt því fyrir mér hvort nógu rík áhersla er lögð á að kenna börnum að þegja. Að koma þeim í skilning um að þó raddböndin og málbeinið virki eins vel og hugsast getur þurfi þessi verkfæri ekki að vera í stanslausri notkun. Fólk þarf ekki að gjamma í tíma og ótíma, hafi það ekkert að segja.



Fólki eru falin ýmis mismunandi verkefni í lífinu. Ekki hyggst ég segja sjúkrasögu mína hér, það bíður líklega gagnagrunnsins. Get þó upplýst að Skaparinn var svo elskulegur að senda mér mígreni að glíma við fyrir nokkrum árum ­ og þegar menn skríða inn í það greni sitt er þögnin gulls ígildi eins og myrkrið. Kannski læra menn best að meta þögnina, þegar svo stendur á.



Viðhorf úr Morgunblaðinu - Þögnin er auðlind - fimmtudaginn 27. ágúst 1998.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband