Færsluflokkur: Íþróttir
12.5.2006 | 17:56
Samtaka nú!
Það var um leið og Arna hljóp út í gærkvöldi og náði í þvottinn á snúruna vegna þess að byrjað var að snjóa, að ég mundi eftir því að knattspyrnuvertíðin er að hefjast á Íslandi.
Kannski eru ýkjur að halda því fram að það hafi snjóað, en lóðin gránaði um hríð og trampólínið fyrir utan eldhúsgluggann minn leit út eins og þar hefðu verið skilin eftir 10 kíló hveitis - án umbúða. Og þó, það eru kannski líka ýkjur; segjum 5 kíló. Það er í það minnsta ekki ofsagt. Ég sver það!
Úrvalsdeild karla hefst um helgina eins og neytendur fjölmiðla hafa séð upp á síðkastið. Og boltinn byrjar líka að rúlla, eða skoppa - það fer eftir vallaraðstæðum - í 1. deildinni. Mínir menn í Þór eiga að mæta vinum sínum í KA í fyrstu umferðinni á sunnudaginn, og ég veit ekki betur en spila eigi á Akureyrarvelli. Vona að Steini og Bjössi nái að sópa snjónum í burtu.
Annars hafa aðstæður til knattsparks oft verið verri á Akureyri en nú. Ég man eftir því að seint í maí 1995 kom ég hingað norður með hóp norrænna íþróttafréttamanna. Þeir voru hérlendis á þingi á vegum okkar, íslenskra starfsbræðra sinna - og þá var allt á kafi í snjó. Við fórum m.a. upp á golfvöll og skandinavísku vinir okkar brostu út í annað þegar þeim var sagt að Arctic Open færi fram eftir þrjár vikur. En golfmótið fór auðvitað fram að venju. Hlutirnir gerast jafnan hratt á Íslandi; ekki bara þegar menn vilja kaupa sér fyrirtæki. Náttúran getur líka verið snögg til.
Aðeins um myndina. Þetta eru glæsilegir menn, nokkrir Þórsarar á Pollamóti Þórs í fyrrasumar. Mér finnst samt ótrúlegt að sjá Helga Pálsson jafnaldra minn þarna, nýfermdan. Hvað er hann að gera með liði 40 ára og eldri?
Hvað um það. Héðan af sjúkrabeðinum óska ég mínum mönnum góðs gengis í sumar.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2006 | 22:14
Einhver á leið til Cardiff?
Ég kannaði verð á miðum á úrslitaleikinn í ensku bikarkeppninni, viðureign Liverpool og West Ham.
Og svo hættum við félagarnir við að fara.
Sé miðaverðið sett í samhengi við eitthvað annað er það kannski ekki ýkja hátt, og þó. Fyrir andvirði eins miða inn á völlinn gæti ég keypt um það bil 19 bjórkassa, 456 stórar dósir.
Miðinn kostaði sem sagt 700 pund, um það bil 95 þúsund krónur, á svörtum markaði hjá náunga sem er í þeim bransa þarna úti.
Með því að kaupa allan bjórinn, tveir saman, og spara þannig annan miðann og flug, lestarferð og gistingu, kæmi maður út í gríðarlegum hagnaði. Eða er það ekki?
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2006 | 21:29
Terry og Carragher
Hvers vegna eru menn alltaf að velta því fyrir sér hvort Rio Ferdinand eða Sol Campbell verði í vörn Englands á HM í sumar?
Það blasir við að hvorugur verður í byrjunarliðinu að óbreyttu - enda tveir yfirburða miðverðir enskir um þessar mundir og hljóta að vera óskamiðvarðapar Svens Görans: það eru að sjálfsögðu John Terry hjá Chelsea og Liverpool maðurinn Jamie Carragher.
Um þetta er ekki einu sinni hægt að rífast, það er svo augljóst.
Íþróttir | Breytt 2.5.2006 kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2006 | 09:34
Scolari
Enskir knattspyrnuspekingar eru sumir hverjir alfarið á móti því að útlendingur verði aftur ráðinn þjálfara enska landsliðsins.
Hver eru rökin?
Aðallega þau að það séu slæm skilaboð til innlendra þjálfara!
Þjálfarar allra bestu ensku liðanna eru útlendir: Mourinho, Ferguson, Benítez, Jol, Wenger ... Er það tilviljun? Og eru það þá ekki líka slæm skilaboð til innlendra þjálfara?
Það sem skiptir máli þegar ráðinn er þjálfari er að viðkomandi sé snjall í sínu fagi, ekki af hvaða þjóðerni hann er. Jafnvel þó um sé að ræða starf þjálfara enska landsliðsins. Scolari hinn brasilíski, sem nú er sagður líklegastur til þess að hreppa það hnoss, sem starfið vissulega er, stýrði landsliði Brasilíu að heimsmeistaratign. Það hlýtur að vera einhvers virði.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2006 | 09:05
Örljóð - V
(um það sem Riquelme hugsaði kannski eftir að Þjóðverjinn varði vítið frá honum)
Lem'ann
Lehmann
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2006 | 09:20
Örljóð - IV
(um Eið Smára Guðjohnsen)
Hann
kann
Íþróttir | Breytt 26.4.2006 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.4.2006 | 09:18
Fallegasti völlurinn?
Geir Kristinn vinur minn, og vinur Akureyrarvallar, sendi mér þessa mynd á dögunum. Honum finnst birtast of margar ljótar myndir af vellinum þegar í fréttum er fjallað um hann og aðra hugsanlega nýtingu svæðisins.
Er þetta kannski fallegasta vallarsvæði í heimi, með fallegan trjágróður í grenndinni og laglega íbúðabyggð austan og vestan við?
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.4.2006 | 21:25
Bestur
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, er besti knattspyrnumaður vetrarins á Englandi, að mati leikmanna sjálfra. Kjöri Samtaka atvinnuknattspyrna, PFA, var í dag lýst í London.
Ég tók þessa mynd af Gerrard í fyrravor, á blaðamannafundi eftir sigurinn á AC Milan í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Istanbul. Hann kom þar fram með Rafa Benitez, vegna þess að fyrirliðinn var valinn maður leiksins.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2006 | 23:54
London, Cardiff, Dortmund, Istanbul
Hvað eiga þessir borgir sameiginlegt?
Þar hef ég horft á Liverpool í einhvers konar úrslitaleikjum - í ensku bikarkeppninni, UEFA-bikarnum og Meistaradeild Evrópu - og aldrei séð mína menn tapa!
Verð ég ekki að fara til Cardiff?
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2006 | 23:45
Hetjur
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)