Færsluflokkur: Bloggar
22.7.2006 | 19:30
Paolo Conte
Via con me.
Gamall, ítalskur karl. Söngvari, sem getur þó varla sungið. Raulari. Jafnvel talari!
Skellti þessu ítalska gamalmenni á fóninn áðan og þá rifjaðist upp fyrir mér lítilfjörleg íbúð í París, rauðvín, skrítin lykt(!), íslenskar fyrirsætur og fleira gott fólk.
Lífið er stutt; njótum þess!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.7.2006 | 18:57
Grenivík, miðja heimsins
Valgarður Egilsson, sérfræðingur í krabbameini og frændi minn, er fáum líkur. Kannski engum. Hann sagði frá því, á ættarmóti í Skarðsgili í Dalsmynni í dag, að í æsku hefði hann komist að því að Grenivík - þar sem hann er fæddur, og pabbi líka - væri miðja heimsins. Þegar hann hóf að nema landafræði fimm ára sá hann nefnilega að á núlltu gráðu (0.), og þar af leiðandi í miðju heimsins, stóð Greenwich. Greenivík, á íslensku. Og ekki nóg með að staður þessi væri í miðju heimsins miðað við lengdarbaug, heldur var (og er) tíminn í okkar veröld miðaður við Greenwich; Grenivík!
Ættarmótið heldur áfram í Greenwich í kvöld. Ég á ekki heimangengt, því miður. En kannski maður taki bara Taxa í kvöld og bruni úteftir, til þess að hitta Valgarð og alla hina snillingana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2006 | 18:25
Tár, bros og milljarðar
Það er alltaf gaman að velta fyrir sér peningum annars vegar og fótbolta hins vegar. Og stundum þessu tvennu í einu vetfangi. Ég nenni ekki að skrifa eitthvað nýtt, en birti hér að gamni mínu Viðhorf sem ég skrifaði í Morgunblaðið fimmtudaginn 2. mars árið 2000 undir fyrirsögninni Peninga-maskínan. Svei mér, ef þetta á ekki býsna vel við ennþá...
- - - - - - -
Einhvern tíma leyfði ég mér að slá því fram í pistli hér í blaðinu að sá sem fyrstur danglaði fæti í knött hefði varla leitt hugann að því hve slíkur verknaður kæmi til með að þykja tilkomumikill síðar meir. Að sama skapi hefur þann sem fyrstur greiddi einhverjum fé fyrir að stunda þá vinsælu íþrótt, knattspyrnu, varla órað fyrir því hvers konar skriðu hann var að koma af stað með tiltæki sínu. Eða hve margir hefðu atvinnu af þessum leik í heiminum um mót tuttugustu aldar og þeirrar tuttugustu og fyrstu.
Eilífðarvél er fyrirbæri sem á að geta gengið endalaust á orku sem hún framleiðir sjálf. Knattspyrna er því nokkurs konar eilífðarvél vegna þess hve orka nútímans - peningar - er framleidd í miklu magni í knattspyrnuvélinni. Knattspyrnufíklar eins og höfundur þessa pistils hafa átt margar unaðsstundir fyrir framan sjónvarp eða á ýmsum leikvöngum í heiminum, þar sem knattspyrnumenn hafa boðið upp á skemmtiatriði. Áður en beinar útsendingar í sjónvarpi frá knattspyrnuleikjum urðu nánast daglegt brauð voru laugardagssíðdegin eins og helgistund þegar Bjarni Fel sýndi viku gamla leiki frá Englandi í ríkissjónvarpinu. Nú er framboðið orðið gífurlegt, raunar svo mikið að ekki er hægt að horfa á nema brot af því sem er í boði. Íslendingar eiga þess kost að sjá beint alla helstu deildarleiki á Englandi, Ítalíu, Spáni og í Þýskalandi, auk margra bikar- og landsleikja.
Sumir líta á íþróttir sem holla hreyfingu og leik. Og hafa auðvitað rétt fyrir sér. Aðeins að hluta til þó, því keppnisíþróttirnar snúast sífellt meira um peninga og þetta tvennt er raunar gjörólíkt; keppnin er eitt og almenningsíþróttir annað.
Knattspyrnan á að vera skemmtun og er enn frekar en áður orðin hluti skemmtanaiðnaðarins. Staðreyndin er einnig sú að rekstur knattspyrnuliðs er orðinn gífurlegt gróðafyrirtæki. Íslenskir íþróttaáhugamenn verða sífellt meira varir við viðskiptahlið íþróttanna; m.a. vegna frétta af tíðum ferðum íslenskra knattspyrnumanna úr landi upp á síðkastið. Og í haust sem leið gerðist það í fyrsta sinn að íslenskir fjárfestar keyptu sér eitt stykki knattspyrnulið í útlandinu! Fyrir nokkrum misserum áttu forráðamenn knattspyrnudeildar KR í viðræðum við útlendinga um að koma að rekstri deildarinnar. Ekkert varð úr því þá, en það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Málið er spennandi, svo ekki sé meira sagt og því ber að fagna fáist meira fjármagn inn í íþróttahreyfinguna hérlendis en áður. Verði hægt að hlúa betur að yngri íþróttamönnum félaganna geta þau væntanlega alið upp fleiri afreksmenn og tekjuháum íslenskum atvinnumönnunum erlendis gæti fjölgað að sama skapi.
En það flögrar sem sagt stundum að mér hvort fólk fari ekki að fá nóg. Þegar liðum var fjölgað í Meistaradeild Evrópukeppninnar í fyrra - í þeim tilgangi að fleiri rík félög yrðu ennþá ríkari - fannst sumum einmitt nóg um. En forráðamenn félaganna vilja auðvitað þéna sem mest, og þátttaka í Meistaradeildinni færir félögum gríðarlegar fjárhæðir í aðra hönd. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, selur sjónvarpsrétt og auglýsingar dýru verði og deilir út peningum til félaganna sem aldrei fyrr.
Það er að sjálfsögðu ánægjulegt þegar fólki gengur vel í lífinu, meðal annars þegar það hefur góðar tekjur - hvort sem það er knattspyrnumaður í útlandinu, heimsfrægur tónlistarmaður eða jafnvel bankastjóri á Íslandi. Vilji fyrirtæki - í það minnsta þegar einkafyrirtæki á í hlut - borga einhverjum svimandi há laun hlýtur sá hinn sami að eiga þau skilið. Ég hef aldrei heyrt um fyrirtæki sem borgar fólki hærri laun en stjórnendur þess telja sanngjarnt; að minnsta kosti ekki hærri laun en einhver samkeppnisaðilinn telur sanngjarnt! Sumir setja reyndar spurningarmerki við það hversu há laun ríkisfyrirtæki eigi að borga; getur það til dæmis talist eðlilegt að ríkisstarfsmaður, þó stjórnandi sé, þiggi miklu hærri laun en til dæmis forsætisráðherra sama lands? Ég ætla auðvitað ekki að svara þeirri spurningu, gæti einhvern tíma fengið neitun þegar ég bið um lán... Það má líka spyrja hvort eðlilegt sé að íslenskur knattspyrnumaður hjá erlendu félagsliði hafi margfaldar tekjur launahæstu íslensku forstjóranna. Svarið við þeirri spurningu er heldur ekki til vegna þess að störfin og aðstæður á markaði á hverjum stað er ekki hægt að bera saman.
En gæti sú stund runnið upp að eilífðarvélin bræði úr sér? Að fólk fái yfir sig nóg af þessari skemmtilegu íþrótt? Að venjulegur knattspyrnuáhugamaður fái sig fullsaddan af græðgi félaganna, sem meðal annars kemur fram í háu miðaverði, af offramboði á leikjum og því, hve einstaka leikmenn hafa ótrúlegar tekjur? Það er alls ekki víst og ég ítreka að mér er nokk sama þó góðir íþróttamenn eigi mikla peninga. Þeir sem þéna vel eiga það skilið og þegar ég er svo heppinn að fylgjast með leik eins og viðureign Real Madrid og Bayern München í Meistaradeildinni á Sýn í fyrrakvöld er mér alveg sama hversu mikla peningar strákarnir í sjónvarpinu fá fyrir að gera mig jafn hamingjusaman og ég varð á þessum níutíu mínútum. Þegar ég skemmti mér svona vel er ég ánægður. Eilífðarvélin stendur því vonandi undir nafni.
Og þegar öllu er á botninn hvolft stuðlar það líklega bara að minnkandi atvinnuleysi í veröldinni eftir allt saman, að knattspyrnumennirnir fái svona há laun. Eftir að þeir leggja skóna á hilluna eru þeir nefnilega flestir svo ríkir að þeir þurfa lítið sem ekkert að vinna. Og taka þar af leiðandi ekki störf frá okkur hinum...
Bloggar | Breytt 26.7.2006 kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2006 | 20:20
Zidane
Hrikalegt áfall fyrir Zidane - að fá þriggja leikja bann hjá FIFA. Að vísu búinn að leggja skóna á hilluna, þannig að bannið hefur ekki áhrif fyrr en í næsta lífi.
Zidane skoraði tvisvar með skalla í úrslitaleik HM 1998 og segja má að hann hafi átt frægasta skalla HM í ár. Samt er hann miklu frægari fyrir fótafimi en vera góður skallamaður.
Flottur! Auðvitað mátti hann ekki bregðast svona við. En samt, flottur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2006 | 20:16
Rykið dustað af lyklaborðinu
Jæja! Nú er orðið tímabært að dusta rykið af lyklaborðinu eftir leti undanfarinna vikna á meðan ég skaust með fjölskyldunni í hlýindin í Svíþjóð og Danmörku. Við skemmtum okkur konunglega í hinum ýmsu skemmtigörðum, en mér fannst satt að segja býsna gott að koma heim í íslenska blíðviðrið! 10 stig á celsius eru fín, sérsaklega að næturlagi ef manni dettur í hug að reyna að sofa.
Það getur vel verið að ég setji einhverjar myndir úr ferðinni inn á bloggið. Sjáum til. Ég er að fara í gegnum fælinn, ég tók víst dálítið margar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2006 | 13:21
AUKAÚTGÁFA - Til hamingju Eiður, og Ísland !
Fjölmiðill þessi svíkur strax loforðið frá því í gær að þegja í einhvern tíma. Ástæðan er einföld:
Frábærar fréttir að Eiður Smári sé á leið til Barcelona. Ef hægt var að fara uppá við frá Chelsea hlýtur það að vera til Evrópumeistaranna!
Áhugamenn um knattspyrnu eiga sér gjarnan uppáhaldslið í hverju landi og svo vel vill til að ég hef lengi dáðst að og haldið með Barcelona. Bæði leikur liðið ætíð skemmtilega knattspyrnu og svo er borgin einn yndislegasti staður sem ég hef komið til.
Ronaldinho, Eto'o, Eiður Smári, Deco . . . Býður einhver betur?
JÆJA, ÞÁ FER BLOGGSÍÐAN AFTUR Í FRÍ VEGNA LETI
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2006 | 21:55
Hlé
Nú verður gert hlé á útgáfu þessa miðils um óákveðinn tíma.
Ástæður eru tímaskortur eigandans og leti.
Fréttatilkynning verður ekki send út þegar skriftir hefjast á ný.
Bless á meðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2006 | 17:16
Út um gluggann
Hvers konar djöfuls hyski er það sem hendir tómri gosflösku úr gleri út úr kyrrstöðum bíl á rauðu ljósi? Bara sisona, og flaskan rúllar eftir malbikinu, undir bílinn og áfram yfir á næstu akreinar.
Ég vona að unga fólkið sem beið í litlum, gráum fólksbíl á Glerárgötu áðan, og beygði svo til vinstri upp með Glerá, lesi þennan pistil. Ég var sem sagt karlinn sem flautaði á þau og baðaði út höndunum.
Getur verið að bílnúmerið hafi verið MR-243? Held það en fullyrði þó ekki.
Alveg er óþolandi að horfa upp á þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2006 | 23:48
Carradona
Þið fyrirgefið yfirgengilegan áhuga minn á Liverpool og öllu tengdu félaginu.
Ég sé á forsíðu The Guardian á morgun tilvísun í umfjöllun þess efnis að Jamie Carragher verði í byrjunarliði Englandsa á HM. Kemur það einhverjum á óvart?
Ekki mér. Ekki að það skipti neinu máli, það er bara svo gaman að geta skrifað eitthvert svona rugl út í svartholið . . .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2006 | 12:34
Mikið að gera
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)