Færsluflokkur: Bloggar

Tært loft en helgarblíða

Það var yndislegt að finna tært loft - kalt og gott - streyma inn um svefnherbergisgluggann í gærmorgun. Aldrei betra að vakna.

Ég er hræddur um að tæra loftið sé á förum frá Akureyri í bili því hér er spáð hlýindum um helgina. Þá verður bara að kæla sig niður einhvern veginn öðruvísi en með því að ganga út á stétt ...

Búast má við gríðarlegum fjölda gesta í höfuðstað Norðurlands um helgina, og ekki kæmi á óvart miðað við veðurspá og reynslu að þeir fyrstu komi strax í kvöld. Veri þeir velkomnir með góða skapið í góða veðrið.


Atvinna og ættarmót

Hér kemur einn af gömlu Viðhorfspistlunum mínum úr Mogganum, í tilefni allra ættarmótanna sem fara fram í sumar. Þessi grein er orðin dálítið rykfallin; birtist vorið 1999 en er þó kannski sígild.

- - - - - 

Maðurinn sem fann upp ættarmótið á Fálkaorðuna skilið. Vísast veit enginn hvar hann er eða hver hann er, en ýmsir í þjóðfélaginu eru þessum merkilega uppfinningamanni eflaust ævarandi þakklátir. Hafi einhver skarað fram úr í því að fjölga störfum hérlendis hin síðari ár, þá er það ekki Framsóknarflokkurinn, þótt hann haldi því fram, heldur maðurinn sem fann upp ættarmótið.


Hverjir standa í þakkarskuld við hann? Mér dettur í hug að nefna veitingamenn, gistihúsaeigendur og raunar mætti líklega telja upp alla í ferðaþjónustunni og þá sem henni tengjast. Þá sem selja jeppa, hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagna, bensín og olíur. Dekk og gotterí, bjór og annað áfengi. Tjöld. Að ekki sé nú talað um grillkjöt og þess háttar góðgæti. Og tímarit, því þau eru nauðsynleg í svona ferðalögum. Líka harðfiskur, þótt hann sé dýr. Sólgleraugu og sólarvörn (ef ættarmótið er fyrir norðan og austan) og regn- og vindgallar (ef það er fyrir sunnan). Flugfélög, meira að segja erlend, hafa svo líka eitthvað upp úr krafsinu vegna þess að fólk kemur stundum alla leið frá útlöndum á íslensku ættarmótin. Og svo eru teknir margir kílómetrar af filmum á ljós- og kvikmyndavélar, þannig að framköllunarstofur alls staðar á landinu hafa nóg að gera yfir sumarið við að koma minningunum í geymsluhæft form.


Landinn hlýtur að ferðast meira innanlands eftir að ættarmótið var fundið upp en áður og ferðalögin og þátttaka í þessum samkomum kostar sitt. Mér sýnist hálf þjóðin jafnvel vera á þeytingi allt sumarið á leið á ættarmót. Peningar í umferð aukast því eflaust umtalsvert vegna þessa. Hagfræðingar kætast því þeir ættu að geta hamast við að reikna út áhrif á hagstærðirnar; verga þjóðarframleiðslu, vísitölu samgangna og sálfræðivísitölu kjarnafjölskyldunnar.

Bílaverkstæði fá sneið af kökunni, því óhöpp verða því miður alltaf einhver, þeir sem selja ferða-þetta og ferð-hitt hljóta líka að maka krókinn: ferðageislaspilarar, ferðastraujárn og ferðahárblásarar eru auðvitað ómissandi, jafnvel ferðaklósett. Og svo spila stundum hljómsveitir á mótunum. Fyrirbærið er því líka atvinnuskapandi fyrir tónlistarmenn. Nei, ekkert hefur aukið veltu í íslensku þjóðfélagi meira hin síðari ár. Ætli geti kannski verið að góðærið sé honum að þakka, manninum sem fann upp ættarmótið?

Svo þegar sumarið er liðið og fólk er orðið leitt á því að metast um það hver er brúnastur eftir sólarlandaferðina eða hver á flottari og dýrari jeppa ­ og áður en farið er að metast um vélsleðana eða vetrarbúnað jeppanna, hver á stærri dekk, sterkara spil eða flottari hátalara í bílnum ­ er upplagt að bera saman hversu glæsilegt ættarmótið var eða á hversu mörg slík fólk komst þetta sumarið. Ég stend nefnilega vel að vígi þar á hausti komanda; get státað af þremur þegar þar að kemur, ef guð lofar.

Á umræddum mótum spretta jafnvel upp alls kyns frændar og frænkur, sem enginn hafði hugmynd um. Ættarböndin eflast og jafnvel lengjast, sem sagt. Sálfræðingar ættu því líka að geta gert sér mat úr þessu; það hlýtur að vera rannsóknarefni hversu mikils virði það er lítilli, einangraðri þjóð úti í hafi að kynnast sögu forfeðranna á þennan hátt; að hitta fjöldann allan af ættingjum í fögru umhverfi, líklegast á þeim slóðum þar sem forfeðurnir lifðu; þjóðin hlýtur að sækja gríðarlega mikilvægan innblástur í þess háttar samkomur. Nýr og áður óþekktur sprengikraftur gæti læðst úr læðingi þegar gamla sveitin er skoðuð. Ég er illa svikinn ef nostalgían heltekur ekki fólk þegar það kemur á fornar slóðir, slóðir forfeðranna, andar að sér loftinu sem þeir önduðu að sér, nýtur útsýnisins sem þeir nutu og hlustar jafnvel á árniðinn sem var þarna í gamla daga, en forfeðurnir voru eflaust löngu hættir að taka eftir.

Og ekki má gleyma þeim menningarverðmætum sem varðveitast vegna ættarmótanna. Söngvar og kvæði og sögur ­ sannar og lognar ­ sem ef til vill hefðu annars glatast.

Mér var einhvern tíma sagt að fólk í Ameríku væri lítið fyrir ættarmót. Það þekkti ættina sína nefnilega svo illa. Varla afa og ömmu. Hvað þá langafa og langömmu. En hér hefur ættarmótafárið orðið til þess, segja mér fróðir menn, að unga kynslóðin er komin á kaf í ættfræði. Sýnir henni mikinn áhuga og einmitt nú sem aldrei fyrr. Og þar með ætti enn ein stéttin að blómstra, ættfræðingarnir, þökk sé manninum sem fann upp ættarmótið.

Þjóðin þarf að sameinast í leit sinni að manninum. Jafnvel að reisa af honum styttur, hér og þar um landið, á vinsælum ferðamannastöðum.

Íslendingar framleiða besta lambakjöt í heimi, eins og allir vita, þótt strembið hafi verið að fá að flytja það út. Fegurðin hefur stundum verið flutt út, íslenski hesturinn og íslenskt hugvit í ríkum mæli hin síðari ár. Það er varla spurning um það hvort, heldur hvenær, okkur tekst að smita útlendinga af ættarmóta-bakteríunni. Ég hef velt því fyrir mér að sækja um einkarétt á Ættarmótinu og selja svo leyfi til notkunar úr landi. Það er auðvelt að hagnast á því með sölu yfir Netið. Heildstæð lausn á ættarmótahaldi til sölu. Sendið fyrirspurnir til aett@rmot.is.

Ég vona að ættarmótið sé ekki útlendur siður. Þá gæti orðið erfitt að hafa uppi á manninum sem fann það upp. Og erfitt fyrir mig að græða á sölunni.

Viðhorf úr Morgunblaðinu - Atvinna og ættarmót - sunnudag 29. júní 1999


Eitt stykki menningarhús

Byrjað verður að moka fyrir menningarhúsi á Akureyri í dag kl. 17 og er ástæða til þess að hvetja bæjarbúa að þiggja boð um að vera viðstaddir. 

Þegar þar að kemur sendir Ístak kannski frá sér reikning, í stíl við það sem afi gerði þegar Slippstöðin byggði flugturninn á Akureyri. Hann yrði þá svona; An: eitt stykki menningarhús, kr. 740 milljónir.


Að hitta naglann á höfuðið

Forsíða Daily Mirror
Með forsíðu dagsins hittir Daily Mirror naglann á höfuðið. Meira þarf eiginlega ekki að segja.

Eins og Hitler teygi sig upp úr gröfinni . . .

Forsíða Independent

Þessi dægrin er mikið sprengt og mikið drepið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar er svo sem ekkert nýtt á ferðinni, nema nýtt fólk sem deyr eins og gefur að skilja. En það virðist minnstu máli skipta - fólkið, sem kvelst eða deyr - á meðan rifist er um orðalag í samþykktum alþjóðasamfélagsins um það hverja eigi að fordæma eða hvort, eða ákveðið er hvort vilji sé til þess að taka eitthvað til bragðs í því skyni að gera almenningi á svæðinu lífið bærilegra.

Ástandið á Balkanskaga var hræðilegt fyrir nokkrum árum þegar borgarastyrjöld stóð þar yfir og margir áttu erfitt, bæði meðan á því stóð og eftir á. Vorið 1999 fórum við Sverrir Vilhelmsson, ljósmyndari, til Makedóníu í nokkra daga, sóttum heim flóttamannabúðir, ræddum við fólk og kynntum okkur ástandið, og sögðum sögur af því í Morgunblaðinu.

Meðal þeirra sem við hittum voru bandarískir gyðingar sem tóku sig til upp á eigin spýtur og drifu sig á staðinn með ýmiss konar vörur sem þeir töldu þörf fyrir. Þeim ofbauð ástandið. Athyglisvert er að kíkja á greinina um þennan hóp; þarna átti þó í hlut fólk í flóttamannabúðum, fólk sem hafði það í sjálfu sér ágætt og kvartaði ekki undan aðbúnaðinum.

Vert er að velta því fyrir sér nú hvort sjónvarpsáhorfendum einhvers staðar í heiminum ofbjóði ekki það sem boðið er upp á í fréttatímum í dag og í gær og á morgun - eða heldur almenningur ef til vill að þetta sé í raun bara bíómynd; að leikendurnir standi heilir upp að loknum vinnudegi, fái sér að borða fyrir svefninn og mæti svo aftur í upptöku á morgun?

- - - - -

Hér kemur umrædd grein sem ég skrifaði frá Makedóníu.

NOKKRIR bandarískir gyðingar tóku sig til fyrir skömmu og söfnuðu ýmiss konar varningi, drifu sig yfir til Evrópu og komu í byrjun vikunnar á áfangastað; einar flóttamannabúðirnar í grennd við Skopje í Makedóníu.


"Við sáum myndir héðan úr búðunum í sjónvarpinu fyrst eftir að þær voru settar upp og fyrstu viðbrögð mín voru: Nei! Þetta getur ekki verið að gerast!" segir kona á miðjum aldri í samtali við Morgunblaðið í búðunum. Foreldrar hennar voru báðir í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni og henni er tíðrætt um Helförina. "Það er alltaf verið að tala um að ekki megi gleyma Hitler og nasistunum, að ekki megi gleyma Helförinni. Auðvitað er það alveg rétt en það sem ekki má gleyma nú er þetta fólk sem er hér. Að sjá fólkið í sjónvarpinu í þessum búðum minnir mig ískyggilega á Helförina, þótt ekki sé um nákvæmlega sama hlutinn að ræða. Og eitthvað svipað og gerðist þá má aldrei koma fyrir aftur."

Í hópnum eru átján manns, sextán frá New Jersey og tveir bættust við frá New York. "Við erum öll gyðingar," segir hún en tekur þó skýrt fram að trúarbrögð skipti engu máli í þessu sambandi. "Ég er til dæmis alls ekki strangtrúuð og þetta kemur því gyðingdómnum ekki beint við. Mér ofbauð bara sem manneskju þegar ég sá í sjónvarpinu hvað var að gerast." Konan hringdi í kunningja sinn, sem einnig hafði verið að horfa á sjónvarpið, og strax eftir það samtal voru þau ákveðin í að gera eitthvað. Niðurstaðan varð sú að safna alls kyns varningi sem fólkið taldi þörf fyrir; skóm, alls kyns sjúkradóti, sokkum á börnin, dömubindum, útvarpstækjum, rafhlöðum og skóladóti, svo eitthvað sé nefnt. Og söfnunin gekk mun betur en þau leyfðu sér að vona. "Við stóðum uppi með ótrúlega mikið af dóti. Þú hefðir átt að sjá staflana af skónum. Ég get sagt þér að rabbíinn okkar ­ sem er reyndar hérna með okkur ­ grét þegar hann kom inn í salinn þar sem skónum hafði verið staflað. Sjónin sem blasti við minnti hann nefnilega svo mikið á Auschwitz. En þetta er auðvitað algjör andstæða; þar voru skór í stöflum sem teknir höfðu verið af fólki áður en það var myrt, en hér voru skór sem við söfnuðum til að fólk gæti notað þá."

Þegar þarna er komið samtalinu hljómar allt í einu lagið I will survive og konan tekur undir ásamt nokkrum albönskum börnum sem fylgjast með okkur. "Við vorum að kenna þeim þennan texta í morgun," segir konan ­ en heiti lagsins gæti útlagst Ég mun lifa af, á íslensku.

Ekki gekk alveg þrautalaust fyrir hópinn að komast til Makedóníu. Reyndar gekk allt eins og í sögu þar til þau komu hingað að landamærunum á stórri rútu, en þá sögðu landamæraverðir hingað og ekki lengra! "Við gerðum ekkert veður út af því heldur fórum bara að leika okkur í kringum bílinn. Köstuðum frisbee-diskum til og frá og fórum í boltaleiki. Við tókum neituninni sem sagt bara vel en eftir drykklanga stund voru verðirnir orðnir svo leiðir á okkur að þeir hleyptu okkur í gegn."

Konunni er mikið niðri fyrir þegar hún talar um ástandið í Kosovo og örlög Albananna þar. "Það hefur mikið verið talað um Helförina síðustu áratugi, en í raun hefur ekkert breyst. Í stað þess að tala verða menn að gera eitthvað. Þess vegna urðum við að drífa í þessu. Þú hefur örugglega heyrt um mörg Helfarar-söfn, Helfarar-þetta og Helfarar-hitt. Eins og ég sagði áðan má sú skelfing auðvitað ekki gleymist en það sem skiptir mestu máli er að hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda í dag. Sem barn fólks sem lifði af vist í útrýmingarbúðum nasista gat ég ekki setið hjá. Fólk verður að fá tækifæri til að lifa. Það er sá lærdómur sem mikilvægast er að draga af Helförinni. Foreldrar mínir áttu 18 mánaða gamlan son sem nasistar hentu í ofn; ég hugsaði með mér, þegar ég sá fyrstu myndirnar af þessu í sjónvarpinu, að það væru ekki nema 50 ár síðan pabbi og mamma voru í fangabúðum nasista í Evrópu og nú væri þetta að gerast á sömu slóðum. Þetta gæti bara ekki verið ­ hvers vegna hefði fólk ekkert lært. Þegar ég hugsa um átökin sem verið hafa hér á Balkanskaganum síðustu ár finnst mér eins og Hitler teygi sig upp úr gröfinni og segi: Ég sigra þrátt fyrir allt!"


Eiður og Sigur Rós

El Mundo Deportivo
Fyrsti leikur Eiðs Smára með Barcelona verður í kvöld gegn AGF í Árósum í Danmörku. Um svipað leyti verða tónleikarnir með Sigur Rós á túninu við veitingastaðinn Halastjörnuna, að Hálsi í Öxnadal. Ég býst við að vera frekar þar; helv... langt að keyra suður á Jótland. Reikna má með því að fólk streymi á báða staði, enda pottþétt skemmtun í boði. Blaðamenn íþróttadagblaðsins El Mundo Deportivo í Barcelona hafa fjallað mikið um Eið Smára undanfarið og svei mér ef hann hefur ekki verið oftast allra á forsíðunni síðustu vikur. Vonandi að honum gangi vel á nýjum stað og Sýn verði með Barca í beinni sem oftast.

Alma og Mummi

Alma og Mummi
Kötturinn Mummi er ansi notalegur náungi og dætrum mínum þótti ákaflega vænt um hann, þegar við dvöldum á sveitasetrinu Almgarden fyrir utan Lund á Skáni, hjá Guffu, Sigga og stelpunum um daginn. Hér eru þau Alma og Mummi í góða veðrinu. Nú eru allir komnir heim, við eftir fríið og Guffa og hennar hópur eftir árs dvöl þarna úti. Ekki þótti Lilju, Hebu Þórhildi og Sigríði Kristínu síður vænt um Mumma, enda hann kötturinn þeirra í heilt ár. Og mér fannst hann sniðugur, eða kannski skynsamur; þegar haldið var af stað heim til Íslands var Mummi hvergi sjáanlegur. Hefur án efa áttað sig á því hvað var í vændum og ekki viljað valda stúlkunum óþarfa kvölum. Lét sig því hverfa um stund og þær muna einungis góðu stundirnar núna, ekki grátstaf í kverkum á magnþrunginni kveðjustund.

Þögnin er auðlind

Var ég nokkuð búinn að birta þetta? Stundum þegar mig langar til þess að segja eitthvað hér á bloggsíðunni, en nenni ekki að skrifa neitt nýtt, hef ég gripið til þess að birta gamlan texta. Þó yfirleitt eigin ritsmíðar! Hér kemur ein slík, nokkrra ára gömul, sem mér þykir dálítið vænt um. Þetta er einn Viðhorfspistlanna sem ég ritaði í Moggann um skeið. Þessi pistill birtist í blaði allra landsmanna í ágúst 1998. Rétt er að taka fram að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, eins og gefur að skilja. Til dæmis fyrir austan! Og ég er löngu fluttur norður í land.

- - - - - - -

Það er dýrmætara en margur hyggur að kunna að þegja. Hvað þá að fá notið þess að vera í þögn. Í nútíma samfélagi, þar sem hamagangurinn og lætin eru svo mikil, sumir segja stressið yfirgengilegt, er þögnin vanmetin auðlind. Allt of fáir staðir í heiminum geta enn boðið upp á alvöru þögn, en Ísland er örugglega einn þeirra. Einsog aðrar auðlindir er þögnin sameign þjóðarinnar; rétt einsog um fisk eða fallvötn væri að ræða ættu landsmenn að hafa með það að segja hvort og þá hvernig þögninni er spillt. Líklega er ekki hægt að setja á hana skatt eða kvóta; og þó, hugsanlegt væri að krefja þá um gjald sem hljóðmenga.


Þögnin er nefnilega mörgum öðrum auðlindum dýrmætari. Og verður sífellt mikilvægari, eftir því sem þankagangur fólks breytist á ný, og fleirum þykir andleg og líkamleg vellíðan fýsilegri en eilíft strit í því skyni að safna einhvers konar prjáli, veraldlegum verðmætum sem lítils virði kunna að vera, þegar öllu er á botninn hvolft.

Hugsið ykkur; fólk sums staðar í heiminum, í stórborgum vestans hafs og austan, hefur ef til vill aldrei upplifað þögn. Aldrei notið þess að liggja úti í náttúrunni, horfa til himins og heyra ekkert annað en eigin hjartslátt eða andardrátt.

Íslendingar hafa löngum lifað á því að selja fisk úr landi. Skeggrætt hefur verið um möguleika þess að selja raforku yfir hafið til Bretlandseyja og meginlandsins, og sú verður eflaust niðurstaðan einhvern tíma í framtíðinni. Erfitt gæti hins vegar reynst að flytja þögnina út, og þess vegna þyrfti að flytja neytendur til þagnarinnar. Ísland verður sífellt vinsælla ferðamannaland. Fólki eru sýndir jöklar og hvalir og ýmsir yndislegustu staðir sem landið hefur upp á að bjóða. Skyldi einhverjum hafa dottið í hug að bjóða upp á þagnarferðir? Komið og njótið bestu þagnar í heimi! Hvernig skyldi fólk, sem alla tíð hefur búið við ys og þys, taka slíkri áskorun? Fyrst fólk kemur yfir hálfan hnöttinn í þeim tilgangi einum að sjá milljónatugum króna skotið upp í loftið á gamlárskvöld, hví skyldi það ekki einnig vilja gera sér ferð, til dæmis á Jónsmessunni, í því skyni að njóta umræddrar auðlindar? Fólk sem daglega berst í mannhafi að heiman frá sér til vinnu og til baka, með viðkomu á fjölförnum lestastöðvum og í troðfullum lestum. Lifir í kliði. Er ekki hægt að telja þessu fólki trú um að það sé því beinlínis lífsnauðsynlegt að koma til staðar eins og Íslands? Bara passa að það sé ekki 17. júní eða á Þorláksmessu.

Hugsanlega væri hægt að bjóða upp á hvísl-ferðir.

Smiður þessa pistils býr í samfélagi í grennd höfuðborgarinnar, sem í gamalli vísu var sagt lítið og lágt, þar byggju fáir og hugsuðu smátt. Ég skal fúslega viðurkenna að lognið þar er stundum á helsti mikilli hraðferð. En á móti kemur að þögnin úti við Gróttu er líklega meiri en víðast hvar annars staðar og heilnæmt sjávarloftið fylgir endurgjaldslaust. Kyrrðin þar getur verið dásamleg og sömu sögu er að segja af fjölda staða vítt og breitt um landið. Drengur var ég í sveit í afskekktum dal austur á landi, langt frá heimsins glaumi. Niðurinn frá jökulánni var eina tónlistin og hljómaði daginn út og inn. Varð hins vegar aldrei þreytandi; það var notalegt að sofna við árniðinn á kvöldin og vakna við hann á morgnana. Bílar sáust ekki svo dögum skipti en jarm, baul og gelt voru okkar músík. Sveitakyrrðin er yndisleg og þróunin hefur lengi verið sú í útlandinu að fólk flýr fjölmennið; hávaðann og lætin, og snýr aftur í sveitirnar. Það sama hefur gerst hér á landi, og verður örugglega mun meira um það í framtíðinni. Sannleikurinn er sá að með tilkomu Hvalfjarðarganga er ekki lengra í vinnu til Reykjavíkur úr Borgarfirði en fyrir fjölda fólks í útlandinu. Tæknin gerir það líka að verkum að nú til dags er sum störf hægt að vinna nánast hvar sem er. Fólk þarf ekki einu sinni að búa í sama landi og fyrirtækið hefur aðsetur, hvað þá í sama landshluta.



Þögn er ekki bara holl og góð sem slík, hún getur einnig dregið úr slysum. Bílstjórar, prófið að aka í þögn, eða að minnsta kosti við lágværa, rólega tónlist eða talmál í útvarpinu. Finnið hversu auðvelt er að slaka á. Ef gult ljós blasir við þegar þið eigið skammt að gatnamótum, þá eru mun meiri líkur á því, ég fullyrði það, að þið reynið að bruna yfir ef dúndrandi, taktföst músík er í útvarpinu, heldur en ef þið keyrið í þögn. Þá stöðvið þið bara bílinn og bíðið eftir næsta græna ljósi. Það kemur hvort sem er eftir nokkrar sekúndur. Og fyrirtak er að slaka á meðan beðið er.



Börn læra sjálfkrafa að tala. Ungur nemur, gamall temur; þau apa eftir foreldrum og eldri systkinum. Síðar læra þau að lesa og skrifa en ég hef stundum velt því fyrir mér hvort nógu rík áhersla er lögð á að kenna börnum að þegja. Að koma þeim í skilning um að þó raddböndin og málbeinið virki eins vel og hugsast getur þurfi þessi verkfæri ekki að vera í stanslausri notkun. Fólk þarf ekki að gjamma í tíma og ótíma, hafi það ekkert að segja.



Fólki eru falin ýmis mismunandi verkefni í lífinu. Ekki hyggst ég segja sjúkrasögu mína hér, það bíður líklega gagnagrunnsins. Get þó upplýst að Skaparinn var svo elskulegur að senda mér mígreni að glíma við fyrir nokkrum árum ­ og þegar menn skríða inn í það greni sitt er þögnin gulls ígildi eins og myrkrið. Kannski læra menn best að meta þögnina, þegar svo stendur á.



Viðhorf úr Morgunblaðinu - Þögnin er auðlind - fimmtudaginn 27. ágúst 1998.


Hvaðan kemur þessi þoka?

Er ekki hægt að fá Veðurstofuna til þess að halda aftur af þokunni sem læðist inn Eyjafjörðinn hvern einasta dag um þessar mundir? Kvölds og morgna sér maður einungis neðsta hluta Vaðlaheiðarinnar. Sólin skín að vísu yfir miðjan daginn - eins og Akureyringar eru vanir - en svo er eins og tjald sé dregið fyrir aftur á kvöldin.

Frábær Djangodjass

Weinstein

Það var æðislegt á lokakvöldi Djangodjasshátíðarinnar - Grand finale - í Sjallanum á Akureyri síðasta laugardagskvöld. Þar voru saman komnir ýmsir innlendir og erlendir listamenn, gríðarlega góðir, og mér sýndist allir samkomugestir ganga brosandi út í norðlenska sumarið.

 

Auk þess að hlusta mundaði ég myndavélina þetta kvöld í Sjallamyrkrinu og birti hér tvær myndir að gamni, önnur er af sænska gítarleikaranum Andreas Öberg og hin af bandaríska fiðleikaranum Aaron Weinstein. - Nei, Öberg neitar að koma fram á bloggsíðu minni, eða tölvan samþykkir hann ekki! Öberg birtist því ekki að sinni, kannski síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband